08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl., 2, þm. Reykv., Friðrik Sophusson, gerði mikið mál úr því að ríkisstj. væri með þessum aðgerðum sínum og þeim brtt. sem hann hefði hér mælt fyrir og þessu skattafrv. í heild að lækka skattbyrðina á fólkinu í landinu. Hann talaði um það sérstaklega að skattbyrðin mundi ekki aukast á meðaltekjum og hún mundi lækka á hinum lægri tekjum.

Þegar 1. umr. fór fram um þetta frv. viðhafði þessi sami hv. þm., 2. þm. Reykv., nokkurn veginn sömu orð. Þó lágu þá fyrir útreikningar sem ríkisskattstjóri hafði gert sem sýndu svart á hvítu að tekjuskattsálagningin skv. frv. ríkisstj. var mun þyngri en álagningin hafði verið, að um raunverulega þyngingu skattbyrði væri að ræða. Í þeirri umr. fór reyndar svo á endanum að hæstv. fjmrh. viðurkenndi að verið gæti að menn yrðu lengur að vinna fyrir nýju sköttunum sínum en þeir hefðu verið að undanförnu. Í því fólst auðvitað fullkomin viðurkenning talsmanns ríkisstj. á því að verið væri að þyngja skattbyrði.

Hv. frsm. meiri hl. gerði líka sérstaklega að umtalsefni að verið gæti að ef menn reiknuðu útsvörin með kæmi einhver þynging á skattbyrði sem auðvitað ætti ekki heima inni í þessum samanburði þegar menn væru að líta á góðverk ríkisstj. í þessu sambandi. En það er alveg sama þó útsvörin séu ekki tekin með, hvernig sem á málin er litið og miðað við þá launaþróun sem við búum nú við er um þyngingu skattbyrði að ræða hjá miklum meginþorra launafólks og ekki bara þeim sem eru með hæstar tekjurnar.

Talsmenn Sjálfstfl. ýmsir, þ. á m. formaður flokksins og varaformaður, hafa haft um það sterk orð að ég færi með lygaáróður þegar ég segði að skattbyrðin væri að þyngjast og menn yrðu lengur að vinna fyrir sköttunum sínum. Þeir hefðu það á útreikningum hjá sér að svo væri ekki. Ég sagði mönnum í þeirri umr. að þeir skyldu bíða eftir því að sjá hvernig skattseðillinn liti út varðandi fyrirframgreiðsluna í febrúarmánuði. Nú hefur sá seðill birst mönnum.

Fjölmargir hafa haft samband við mig og sagt: Þetta reyndist rétt hjá þér, það er langtum hærra sem ég á að borga núna í skatta en var fyrir jól. Þannig er það þegar komið fram á launþegum þessa lands að skattbyrðin hefur verið þyngd. Fyrirframgreiðslan sem mönnum er gert að greiða núna er langtum hærri í krónutölu en hún var fyrir jól hjá langflestum. Hjá öllum þeim sem ég hef hitt er um hækkun að ræða, meiri eða minni. Þar hafa menn það svart á hvítu því að ekki hefur kaupið breyst um eina einustu krónu milli desember og febrúarmánaðar.

Það er líka svo ef litið er á þetta frv. eins og það liggur nú fyrir að skattbyrðin eykst hjá meginþorra launafólks um 10–20%, þ.e. skattbyrðin sjálf er 10–20% þyngri, menn eru 10–20% lengur að vinna fyrir sköttunum sínum skv. því frv. sem hér liggur fyrir að samþykkt verði af hálfu meiri hl. n. heldur en þeir voru á seinustu mánuðum s.l. árs. Er þá miðað við að kaupið sé óbreytt, menn verði að búa við óbreytt kjör.

Ég hef orðað það svo að það væri mikil ógæfa hjá ríkisstj. að hún skyldi ekki hafa áttað sig á því að við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu bæri nauðsyn til þess að hún kæmi til móts við launafólkið í landinu í skattamálum. Launþegar hafa tekið ómældar byrðar, kjörin hafa verið skert um fjórðung, hjá sumum kannske meira, það fer eftir því hvernig viðmiðunin er tekin en af þeirri stærð er það alla vega.

Þessi sársauki er orðinn mjög mikill. Og um það hafa menn fengið sannanir á pappírum þessa dagana í rannsóknum kjararannsóknanefndar hvernig komið er hag láglaunafólksins hér á landi og hversu lágar tekjur margir búa við. Það er ágætt að eiga það á pappír en menn hafa ekki þurft annað en að ganga um í þjóðfélaginu og hitta fólk að máli til að komast að raun um að margt lágtekjufólk hefur átt í verulegum og þungum erfiðleikum. En það sem meira er, obbinn af launafólki hefur líka átt í örðugleikum eins og nærri má geta þegar kaupmátturinn hefur verið skertur með þeim hætti sem hér hefur verið gert.

Við þessar aðstæður var auðvitað rétt tækifæri af hálfu ríkisstj. til að ná tökum á verðbólgunni og rétta hag launafólksins að gera það í gegnum skattkerfið. Fyrir þessu höfum við talað. Í þá átt og í þá veru eru þær till. sem minni hl. n. flytur eða aðilar úr minni hl. ásamt öðrum. Ég skal rekja þær nokkuð nánar á eftir, þ. á m. hugmyndir sem varða það að rétta afkomu þeirra sem alverst eru settir. En áður en ég geri það kemst ég ekki hjá því að vekja sérstaka athygli á einu atriði í þessu skattalagafrv. ríkisstj.

Hún gerir ráð fyrir því að skattur á fyrirtækjum verði stórlega lækkaður. Tekjuskattur félaga var á liðnu ári og á liðnum þremur árum 65% af skattskyldum tekjum eða af tekjuskattsstofni félaganna. Nú eru uppi hugmyndir um að stórlækka þetta hlutfall. Hvers vegna skyldi tekjuskattur félaga hafa verið valinn 65% á liðnum árum meðan hæsti jaðarskattur hjá einstaklingum var 50%? Það er einfaldlega vegna þess að einstaklingar greiða líka sjúkratryggingagjald upp á 2% og útsvar sem var 12.1%. Þessi heildarjaðarskattur hjá einstaklingunum hefur því verið 64.1% á s.l. þremur árum.

Menn hafa talið nauðsynlegt — og það ekki bara á síðustu árum heldur allar götur — að tekjuskattshlutfall félaganna væri í samræmi við jaðarskattinn hjá einstaklingum í hæsta þrepi og gjarnan valið það svo að tekjuskattshlutfall félaganna væri 1–2% hærra. Skýringin er einföld: Menn vilja ekki að þeir sem atvinnurekstur stunda geti létt skattbyrði sína með því að hagræða framtölum með þeim hætti, og sjálfsagt löglegum, að máli skipti hvort tekjurnar lendi hjá fyrirtækinu eða hjá atvinnurekandanum, eiganda fyrirtækisins. Þetta er ekkert nýtt. Þannig hafa menn alltaf haft þetta.

Í fskj. með nál, á þskj. 254 er gerð grein fyrir því hvernig þessu skatthlutfalli hefur verið háttað allar götur síðan 1972. Þar geta menn gengið úr skugga um það svart á hvítu að skattur félaganna hefur ævinlega verið í nánd við jaðarskattinn í hæsta skattþrepi einstaklinga þegar tillit hefur verið tekið til sjúkratryggingagjalds og útsvars. Á þessari töflu kemur fram allt frá 1972 miðað við mismunandi álagningarreglur sem hafa verið í gildi hvert tekjuskattshlutfallið hefur verið í jaðarskatti hæsta skattþreps, hver sjúkratryggingagjaldsprósentan hafi verið, hver útsvarsprósentan hafi verið. Ef menn leggja þessar tölur saman komast menn ævinlega að raun um að þessar tölur, hæsti jaðarskattur einstaklinga og skattprósenta fyrirtækja, hafa fylgst að.

En nú á aldeilis að víkja út af þeirri braut. Nú er gerð till. af hálfu meiri hlutans um að þetta skatthlutfall félaganna skuli ekki aldeilis fylgja því sem hefur verið viðtekið að undanförnu heldur skuli hér búið til verulegt misræmi. Þeir gera ráð fyrir að þetta skatthlutfall verði 50% ef ég man rétt. Hvað þýðir það? Það á að vera 44% skattur hjá einstaklingunum í hæsta skattþrepi. Útsvarsprósentan er um 11%. Þar erum við komin í 55%, sjúkratryggingagjaldið er 2%, ef ég man rétt, þar erum við komin í 57%. Einstaklingarnir eiga að vera með jaðarskatthlutfall af tekjum sínum sem er 57% á sama tíma og félögin eiga að vera með skattprósentu upp á 50%.

Skv. þessari nýju reglu sem ríkisstj. hefur tekið upp geta þeir sem atvinnurekstur stunda og eiga sem sagt haft áhrif á það, hvort heldur fyrirtækin eru smærri eða stærri, hver heildarskattbyrðin af atvinnurekstrinum og einstaklingnum verður með því hvernig þeir haga framtalinu sínu og hversu miklar tekjur þeir telja sér og hversu miklar fyrirtækinu. Það er engin tilviljun að allar ríkisstj. að undanförnu hafa fylgt þeirri reglu að láta þessar prósentur fylgjast að til að koma í veg fyrir freistingu á misnotkun af því tagi sem ég hef hér rakið.

Talsmenn ríkisstj. færa það fram sem rök í þessu máli að verðbólgan sé að lækka og þess vegna verði að lækka prósentuna hjá félögunum. Það eru engin rök. Það eru ekki nokkur einustu rök. Ef skatturinn þarf að lækka svona mikið hjá félögunum út af verðbólgunni ætti skatturinn hjá einstaklingunum að lækka til samræmis við það þannig að skattprósenturnar héldu áfram að haldast í hendur. Þegar þeir því halda því fram að það sé nauðsynlegt fyrirtækjanna vegna og það séu rökin í þessu máli ættu þeir að horfa til einstaklinganna. Þau rök ættu allt eins að gilda þar.

Minni hl. n. flytur brtt. við þetta frv. eins og ég drap á áðan. Önnur þeirra varðar það að breyta þessu hlutfalli, hækka skattprósentuna hjá félögunum þannig að hún sé í samræmi við þá stefnu sem hér hefur verið fylgt áratugum saman, sé í samræmi við hæstu jaðarskattsprósentu hjá einstaklingum, að hún verði 58% því yfirleitt hefur verið valið-ef menn líta á þetta dæmi og menn hafa það í fylgiritinu — að hafa hana svo sem eins og einu prósentustigi yfir. Við það fær ríkissjóður vitaskuld tekjur. Við höfum látið áætta hversu miklar þær tekjur væru og talið að þetta fé hefðum við þó alltént til úthlutunar til að létta skattbyrðina á einstaklingunum.

till. sem er á þskj. 251 varðar einungis tilflutning á skattbyrði miðað við þetta atriði. Það fé sem fengist með því að vera með samræmi í skattlagningunni á félögunum miðað við það sem er með einstaklingana er úthlutað til skattalækkunar á einstaklingana. Það þýðir að skattprósentan í miðþrepinu getur farið niður í 29.75% eins og þessi till. okkar gerir ráð fyrir.

Nú þykir mönnum kannski að ekki sé til fyrirmyndar að láta standa á 3/4 hlutum úr prósentustigi en fordæmið var þegar fengið frá fulltrúum meiri hl. sem höfðu valið skattprósentu af þessu tagi fyrir lægsta skattþrepið.

Með þessu móti má sjá til þess að skattbyrði hækki ekki á þeim meginþorra launafólks, miðtekjufólkinu í landinu, eins og það gerir í frv. meiri hl. n. og frv. eins og það kom frá ríkisstj.

Í fskj. með þessu nál. okkar er gerður samanburður á skattbyrðinni og hvernig hún myndi breytast miðað við þá breytingu sem við leggjum hér til. Þessi samanburður er birtur í fskj. 4 og er allítarlegur. Þar geta menn gengið úr skugga um að niðurstaðan af þessari breytingu er sú að skattbyrði léttist frá fyrra ári hjá hjónum með tekjur allt upp í 500 þús. kr. og hjá einstaklingum á tilsvarandi tekjubili og í annan stað að skattbyrði yrði léttari en gert er ráð fyrir í till. meiri hl. fyrir allan miðtekjuhópinn, þ.e. frá um 450 þús. kr. upp í 700 þús. kr. fyrir hjón en verður reyndar örlítið hærri á alhæstu tekjum.

Þessi breyting mundi þannig þótt hér sé ekki um mjög mikinn tilflutning á fjármunum að ræða verða til þess að koma lítils háttar til móts við stóra hluta af launafólki, miðtekjufólkið í landinu. En vegna þeirrar umr. sem hafði verið í gangi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um það að skattbyrðin væri að lækka þá óskuðum við eftir því í minni hl. n. að ríkisskattstjóri framkvæmdi nýja útreikninga sem sýndu þennan samanburð miðað við till. meiri hl. eins og þær eru núna. Af þeim dæmum má sjá — þetta eru reyndar valin dæmi — að skattbyrðin hefur örlítið skánað frá því hún var í till. þeirra fyrir jól eða fyrr í vetur en engu að síður kemur í ljós ef menn fara í gegnum þessi gögn á fskj. 3 að miðað við þá tekjuþróun sem við búum við eru flestir 13–15% lengur að vinna fyrir sköttum sínum við núverandi aðstæður en þeir voru áður og að skattbyrðin hjá þeim hefur þyngst sem þessu nemur. Þær prósentutölur sem menn sjá í dálkinum eru sakleysislegar. Þær eru kannski 1.8% eða 2.2% eða 3.2%. En ef menn bera þær saman við það hver skattbyrðin var áður, en hún hefur kannski verið á bilinu 15–18% af tekjum eða upp í 20%, þá sjá menn að þyngingin er á bilinu 10–20%.

Um þetta geta menn lesið sér til í þessum fskj. nái. Herra forseti. Ég vil jafnframt mæla fyrir annarri brtt. sem þeir sem skipa minni hl. í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar standa að ásamt Guðrúnu Agnarsdóttur sem reyndar sat flesta fundina og lýsti sig samþykka þeirri brtt. sem ég gerði hér að umtalsefni. sú till. okkar fjórmenninganna varðar það að koma sérstaklega til móts við þá tekjuhópa í þjóðfélaginu sem alverst eru settir. Hún er þáttur í þeirri afkomutryggingu sem við Alþfl.-menn gerðum sérstaklega að umtalsefni fyrir kosningar og í stjórnarmyndunarviðræðum en ekki fékk þá hljómgrunn. Hún er hluti af þeirri leið sem við höfum talið að væri nauðsynlegt að fara til að jafna kjörin í landinu og til að sjá til þess að komið væri til móts við þá sem alverst eru settir. Ekki er þessi leið okkar þó varðandi afkomutrygginguna nema að hluta til fólgin í þeim brtt. sem hér eru fluttar. Við teljum nefnilega að það sé skylda atvinnuveganna í landinu að greiða hærri lágmarkslaun en greidd eru núna. Fyrir því hef ég áður talað hér fyrir hönd Alþfl. og við þm. Alþfl og reyndar fleiri hér í þinginu fluttum sérstaka till. um að lágmarkslaunin yrðu hækkuð í 15 þús. kr. Það er einfaldlega út frá þeirri forsendu að ekki sé sæmandi í íslensku þjóðfélagi að greiða lægri laun en 15 þús. kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu og að meðtöldum öllum þeim álögum sem því vilja gjarnan fylgja, hvort heldur það heita bónusgreiðslur eða verkfæragjald, en að lægri skuli greiðslurnar ekki vera.

En jafnvel þótt menn komist að þeirri niðurstöðu að lágmarkslaun skuli vera þessi 15 þús. kr. munu ævinlega einhverjir hópar í þjóðfélaginu eiga við mikla örðugleika að stríða. Meðan menn hafa ekki samþ. að hækka lágmarkslaunin upp í þessa tölu eiga þeir við mjög mikla og ríka erfiðleika að stríða.

Þessi till. fjallar um það að greiða út afkomutryggingu til þeirra sem ekki ná tilteknum lágmarkstekjum skv. framtali. Menn finna gjarnan að því að miða við framtöl. Vissulega er það ekki skemmtilegasta eða besta leiðin og við höfum ýmis dæmi um að framtöl séu ekki nægilega góð vísbending um hverjar raunverulegar tekjur fólks séu. En við gerum á þessu mjög ákveðna fyrirvara. Þessar útgreiðslur eiga ekki að fara til neinna sem standa í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og hafa reiknuð laun sem nema meiru en 10% af tekjuskattsstofni af slíkum atvinnurekstri. Auðvitað má binda þetta fleiri skilyrðum ef mönnum sýnist en við sem að þessum till. standa, Svavar Gestsson, Guðmundur Einarsson og Guðrún Agnarsdóttir með mér, töldum að hér væri nægilega tryggilega frá hnútunum gengið. Með þessu skilyrði ætti ekki að vera hætta á misnotkun.

Þegar þetta er gert í upphafi árs og með þeim hætti sem hér er lagt til þannig að það liggi fyrir þegar leggja á á skatta og þegar farið er yfir framtöl er eftirleikurinn hægur í eftirlitinu. Það er verra ef menn ætla að fara að gera þetta aftur fyrir sig eins og henti fyrrv. ríkisstj. þegar hún ætlaði að búa til svokallaðar láglaunabætur sem urðu nú reyndar öfugnefni á því vegna þess að þær voru hærri eftir því sem tekjurnar voru hærri, bundnar ýmiss konar flóknum skilyrðum og útreikningar svo flóknir að ég held að hv. þm. hafi yfirleitt átt erfitt með að setja sig inn í þá.

Þetta er líka takmarkað við það að þetta greiðist ekki út til þeirra sem eru 20 ára eða yngri á tekjuárinu. Það er vegna þess að við teljum að þeir sem séu tvítugir eða yngri hafi yfirleitt stoð af foreldrum sínum og njóti þar að hluta til framfæris, jafnvel þó þeir hafi lágar tekjur. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að útgreiðsla til þessa hóps kæmi til álita.

En till. er annars eins og hún birtist á þskj. 253 á þá lund að sá hluti persónuafsláttar sem kann enn að vera óráðstafað eftir að honum hefur verið ráðstafað til þeirra skattgreiðslna sem nú er gert ráð fyrir skuli greiddur skattaðila, þó ekki hærri fjárhæð en nemur helmingi af heildarupphæð persónuafsláttarins, og reyndar svo að ekki sé greidd út lægri krónutala en 200 kr.

Með þessu móti væri komið verulega til móts við þá sem alverst hafa kjörin. (Forseti: Mig langar að spyrja hv. ræðumann hvort hann geti lokið máli sínu á mjög stuttum tíma eða hvort hann þurfi mjög langan tíma vegna þingflokksfunda.) Ætli ég geti ekki lokið henni á svo sem eins og tiltölulega mjög stuttum tíma. (Forseti: Já, þá skulum við halda áfram með fundinn um sinn.)

Við þennan tillöguflutning er því að bæta að hér er gert ráð fyrir að um 200 millj. kr. færu til þessara hluta. Það hefur verið hugmynd og kom reyndar fram í fjárlagaumr. að til þess að mæta þessum útgjaldaauka yrði dregið úr niðurgreiðslum um þessar sömu 200 millj. kr. Ég minnist þess, herra forseti, að hafa mælt fyrir slíkri till. við afgreiðslu fjárlaga þó hún fengi þá ekki hljómgrunn. En vitaskuld er enn möguleiki til að breyta þessum útgjaldapósti fjárl. ef menn þess æskja. Okkur er vitaskuld ljóst að lækkun niðurgreiðslna af þessu tagi muni þýða það að allir verði að greiða eilítið meira fyrir þau matvæli sem þetta mundi ná til, sem yrði þá væntanlega fyrst og fremst kjötmeti og jafnvel mjólkinni yrði hlíft, a.m.k. er það sú hugmynd sem við höfum rætt í mínum flokki. En þá er það svo að allir verða að taka þetta á sig en verið er að greiða til þeirra sem atverst eru settir í þjóðfélaginu. Þannig að hér væri um raunverulega jöfnun á aðstöðu að ræða. Allir tækju á sig eitthvað, en útgreiðslan kæmi til þeirra sem verst eru settir.

Þetta eru þær tvær till. sem ég leyfi mér, herra forseti, að mæla hér sérstaklega fyrir. Fram kemur í nál. minni hl. að mjög naumur tími hafi verið til að ganga frá þessu nái. og þess vegna hafi málið tæpast fengið eins nána athugun og æskilegast hefði verið. Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikill eftirrekstur var af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um tíma fyrir jól að ganga frá þessu máli og þessum nál. Þess vegna var tíminn til frágangs á nái. heldur naumur. En nú hefur málið tafist og vissulega kynni að vera ástæða til þess og áskil ég mér rétt til þess fyrir mína hönd að líta nánar á málið þegar það kemur til 3. umr.

Að lokum einungis þetta, herra forseti. Ljóst er að frv. eins og það liggur fyrir frá ríkisstj. og nú frá meiri hl. n. mun þýða aukna skattbyrði í landinu. Fólkið er þegar farið að finna fyrir þeirri auknu skattheimtu í þeim fyrirframgreiðslum sem hafa verið ákveðnar og það er sama hvort við reiknum útsvarið með eða ekki. Auðvitað hefði verið æskilegt að gera meiri breyt. en hér er mælt fyrir af hálfu minni hl. en það var ekki talið tækt á þeim tíma sem til stefnu var þegar málið var til umfjöllunar og gengið frá nái. En ég er fastlega viss um að minni hl. n. er áhugasamur um að gera frekari úrbætur til hagsbóta launafólkinu ef ráðrúm gefst til þess og ef samvinnuvilji um það kemur upp af hálfu ríkisstj. En þau skref sem þó er hér mælt fyrir væru í áttina fyrir launafólkið, væru framrétt hönd, svo að segja, yfirlýsing af hálfu Alþingis um að það vildi koma til móts við þá sem lægst eru launaðir jafnframt því að þyngja ekki skattbyrðina á venjulegu meðallaunatekjufólki.