14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

419. mál, gæða- og öryggisreglur varðandi hjólbarða

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að andmæla því að æskilegra væri að þetta mál væri lengra komið en raun ber vitni. Hins vegar vil ég láta það koma fram að ég sé ekkert óeðlilegt við það að leitað sé til Bifreiðaeftirlits ríkisins þar sem það er sá aðili sem sér fyrir hönd dómsmrn. um framkvæmd á öryggiseftirliti með bifreiðum. En eins og ég sagði er þetta nú til athugunar í rn. og ég mun gera mitt til þess að reyna að ýta því áfram. Vonast ég til að það muni þá eitthvað vera búið að sjást um þetta á næsta þingi svo að ekki þurfi að bera fram þessa sömu fsp. þá. Varðandi hins vegar þau gjöld sem lögð eru á hjólbarða, þá er það Alþingi sem ákveður þau með lögum og ríkisstj. verður að fara eftir þeim lögum. Þeim þætti er því á valdi Alþingis að breyta.