14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2842 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta eru býsna fróðlegar umr. Allt frá því að ríkisstj. tók við völdum hafa einstakir ráðh. haft uppi stór orð um það að eitt af helstu viðfangsefnum hennar í ríkisfjármálum sé að selja hlut ríkisins í einstökum fyrirtækjum eða jafnvel einstök fyrirtæki. Þessar umr. fara fram um tilraun hæstv. fjmrh. til að standa við þessa stefnuyfirlýsingu ríkisstj. sem virðist hafa tekist heldur óhönduglega. Nú lýsir fyrrv. hæstv. fjmrh. því yfir og aðrir taka undir að hæstv. fjmrh. hafi enga heimild til þess nema með því að leita fyrst samþykkis Alþingis.

Í annan stað gerist það, að formaður annars stjórnarflokksins, hv. 2. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson, lýsir því sem sinni skoðun að það sé trúlega enginn meiri hluti fyrir þessu stefnumarki ríkisstj. Og er sennilega sömu skoðunar og hæstv. fyrrv. fjmrh., að hér sitji á þingi svo margir „rólegir gamlir íhaldsmenn“ í öllum flokkum að heita megi nokkuð öruggt að það sé traustur meiri hluti slíkra manna fyrir því að þetta stefnumark komist ekki fram.

Það eru óneitanlega nokkur tíðindi ef formaður þingflokks Framsfl. lýsir því yfir að þingflokkur Framsfl. vilji enga aðild eiga að þessu stefnumarki ríkisstj. heldur fylli hann flokk hinna „gömlu rólegu íhaldsmanna“ sem vilji hér í engu gera neinar breytingar.

Í þriðja lagi áfellast menn síðan þær aðferðir sem hafa verið viðhafðar við þessa, eigum við að segja auglýsingu eftir tilboðum. Ég tek undir það með hæstv. fyrrv. fjmrh. að ég tel að sú aðferð hafi verið mislukkuð, þarna hafi verið blandað saman óskyldum aðferðum. Hæstv. fjmrh. segir að það sé nú sitthvað fasteignasala og fjmrn., og vera má að það sé, en eins og hann sagði sjálfur í upphafi málsins þá var í þessari auglýsingu lögð áhersla á að leita að hæstbjóðendum, og kaupendum skyldi gefast kostur á að greiða allt að 80% kaupverðs á 10 árum með verðtryggðum kjörum.

Hæstv. fjmrh. sagði að þetta hefði verið gert sérstaklega til þess að auðvelda öllum atmenningi, ekki endilega hinum fjársterkustu aðilum, þátttöku í þessu. En þetta eitt út af fyrir sig er ekki nóg. Til þess að gera það, til þess að tryggja að allir séu jafnir frammi fyrir þessu tilboði, þá er það rétt, að sú aðferð sem viðhöfð var, að opna tilboðin jafnóðum og taka þá áhættu að fréttir bærust út, býður upp á grunsemdir um að hægt sé að koma upplýsingum á framfæri til þeirra sem í náðinni eru um að gera betri tilboð. Ég held að það þurfi ekki að felast í því nein gagnrýni á hæstv. fjmrh. sérstaklega þó að almennt taki menn undir það að þessi aðferð dugar ekki. Hún er ekki hafin yfir gagnrýni. En hún þarf að vera það.

Þá er spurningin þessi og það er ástæðan fyrir því að ég stend hér uppi í pontu: Hvað ætlar hæstv. fjmrh. nú að gera? Þessi tilraun hefur mistekist; aðferðin þykir aðfinnsluverð og samstarfsmenn hans í ríkisstj. slá því föstu að jafnvel þótt hæstv. ráðh. leitaði eftir umboði Alþingis til að gera aðrar tilraunir til þessarar sölu, þá sé enginn meiri hluti fyrir slíku. Nú er spurningin: Hvað hyggst hæstv. fjmrh. gera? Við minnumst þess að hann hefur lýst því yfir aðspurður og oftar en einu sinni — ef hann minnist þess ekki sjálfur, að hann hafi ætíð staðið við stefnumið sín og hefur spurt með þjósti í sjónvarpsþætti: Vita menn nokkur dæmi þess að hæstv. fjmrh. hafi ekki ævinlega staðið við orð sín? Nú reynir á það.

Það er ljóst að hæstv. fjmrh. er hér í nokkrum vanda staddur og ég held að framhald málsins velti mjög á þeirri aðferð sem hann vetur til þess að gera þetta. Ég fyrir mína parta lýsti því yfir að ég er ósammála flokksbróður mínum Eiði Guðnasyni í því, að það sé nokkur goðgá endilega að leita eftir sölu á hlutabréfum ríkisins í Eimskipafélaginu. Það eru engan veginn sjálfgefin rök í mínum huga að ríkið eigi, við gerbreyttar kringumstæður, að halda hlut sínum í Eimskipafélaginu. Hitt er annað mál, að ég er engan veginn þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt að gefa þessi bréf eða láta þau af hendi á gjafverði. Það þarf að tryggja það, ef talið er æskilegt að þessi bréf séu seld, að það verði gert með þeim hætti að raunverulegt verðmæti þeirra fáist metið. Og þá er kannske komið að þeim kjarna málsins að aðferð hæstv. fjmrh. dugar ekki. Mér sýnist, eins og hann reyndar vék að í sinni ræðu, að eina leiðin til þess arna sé sú að framfylgja lögum um Seðlabanka Íslands um að koma hér á raunverulegum verðbréfamarkaði.

Hæstv. ráðh. vitnaði til Seðlabankalaganna, en þar segir með leyfi forseta í 15. gr., IV. kafla, um innlend viðskipti Seðlabankans og eftirlit með bankastarfsemi: „Seðlabankinn má kaupa og selja ríkisskuldabréf og önnur trygg verðbréf og skal hann vinna að því að á komist skipuleg verðbréfaviðskipti. Er honum í því skyni heimilt að stofna til og reka kaupþing þar sem verslað yrði með vaxtabréf og hlutabréf samkvæmt reglum sem bankastjórnin setur og ráðh. staðfestir.“

Þetta sýnir að heimildin er fyrir hendi. Þetta er að mínu mati eina aðferðin sem gengur, ef á að reyna að selja hlutabréf í ríkisfyrirtækjum með aðgengilegum hætti, þ.e. að þau fáist metin að raunverulegu verðgildi og salan fari fram með þeim hætti að allur almenningur, sparifjáreigendur og þeir aðrir sem vilja festa fé í slíkum hlutabréfum, geti gert það á jafnréttisgrundvelli við aðra. Og þess vegna beini ég þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Mun hann ekki örugglega beita sér fyrir því innan ríkisstj. og við viðskrh. að þessu lagaákvæði verði hrint í framkvæmd, að þessi lagaheimild verði nýtt? Og í annan stað: Er hann ekki sammála mér um það að þetta sé raunverulega sú eina aðferð sem væntanlega er vammi firrt og hafin yfir gagnrýni til þess að koma þessari sölu á? Í þriðja lagi spyr ég hæstv. fjmrh.: Er nokkur ástæða fyrir hann að þola þau frýjuorð formanns þingflokks Framsfl. að óreyndu að hann hafi ekki meiri hluta fyrir þessu stefnumarki ríkisstj.? Má ekki treysta því að hæstv. fjmrh. láti á það reyna, afli sér heimildar Alþingis og taki þar með af tvímæli um að hann vill standa við þau orð sín, sem hann viðhafði í sjónvarpi, að hann muni gera sitt ýtrasta til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd en segja af sér ella?