15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

61. mál, land í þjóðareign

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil hér taka eindregið undir meginstefnu þess frv. sem hv. 3. þm. Reykn. hefur hér mælt fyrir um land í þjóðareign. Þetta frv. var til umr. í sömu hv. deild þann 18. nóv. 1981 og þá lýsti ég og fleiri talsmenn Alþb. yfir eindregnu fylgi við meginstefnumörkun frv. Ég sé ástæðu til að taka sérstaklega undir lokaorð hv. frummælanda áðan, að nauðsyn ber til að löggjafinn setji lög um þessi efni og skeri þannig úr um alla óvissu varðandi eignarrétt á landi sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir.

Ég tel mikilsvert að ekki dragist lengur að löggjafinn fjalli um þetta mál og vilji Alþingis komi fram varðandi það. Afstaða okkar Alþb.-manna hefur komið fram varðandi þessi efni og liggur fyrir varðandi eignarrétt á náttúruauðtindum landsins. Ég vísa m.a. til till. Alþb. í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar en í þeirri skýrslu sem gefin var út í janúar 1983 þar að lútandi varðandi endurskoðun stjórnarskrár kom fram till. um 79. gr. stjórnarskrár með sérstakri till. af hálfu Alþb. Megintillaga stjórnarskrárnefndar var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„79. gr. stjórnarskrár orðist svo:

„Náttúruauðlindir landsins skulu vera ævarandi eign Íslendinga. Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Eignarrétti og öðrum náttúruauðæfum skal skipað með lögum.“

Fulltrúar Alþb. í stjórnarskrárnefnd lögðu til að þessi grein orðist þannig:

„Náttúruauðlindir landsins skulu vera ævarandi eign Íslendinga. Öll verðmæti í sjó og á sjávarbotni innan efnahagslögsögu svo og almenningar, afréttir og önnur óbyggð lönd utan heimalanda teljast sameign þjóðarinnar allrar, einnig námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 metra dýpi. Eignarrétt á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni skal að öðru leyti skipað með lögum. Við eignarnám á landi í þéttbýli sem dreifbýli skal almennt ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum eða öðrum ytri aðstæðum heldur ber að miða mat við verðmæti hliðstæðra eigna.

Með þeim takmörkunum sem hér segir skal við það miða að eignarréttur haldist á jörðum, beitiréttur í óbyggðum og önnur þau hlunnindi í heimalöndum og utan þeirra sem fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum.“

Þetta var tillaga Alþb. í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég taldi rétt að koma því hér á framfæri hvert er viðhorf flokksins í þessu efni og jafnframt afstaða okkar til þess frv. sem hér var mælt fyrir áðan um land í þjóðareign.

Ég vildi svo aðeins að lokum vekja athygli hv. þd. á því að á árinu 1981 var gefið út sérstakt rit sem tengist þessu máli, í ritsafni sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands eftir Gunnar F. Guðmundsson og sem ber heitið Eignarhald á afréttum og almenningum, sögulegt yfirlit. Það er bók upp á 144 bls. og hefur að geyma, sýnist mér, verulegan fróðleik um þessi mál, þróun þeirra og umræðu varðandi þau fram að þessum tíma sem þetta efni er saman tekið. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Einstök atriði frv. geta vissulega þurft nánari skoðunar við og eðlilegt að þau fái athugun í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar.