15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2889 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. fyrsta frv. hæstv. ríkisstj. til lánsfjárlaga og jafnframt fyrsta frv. til lánsfjárlaga sem ráðherra Sjálfstfl. leggur fram síðan Matthías Á. Mathiesen vann sér það til frægðar að verða mesti skuldakóngur í röðum íslenskra fjmrh. Það er ljóst að þetta frv. staðfestir að allar yfirlýsingar forustumanna Sjálfstfl. á undanförnum árum um hvaða stefna yrði tekin upp í ríkisfjármálum þegar þeir fengju völdin í sínar hendur hafa reynst rangar. Það er ekki aðeins að þetta frv. beri það með sér að ríkisstj., sem skerti kjörin í landinu um fjórðung með tilvísun til þess að nauðsyn væri að takmarka erlendar skuldir, leggur nú fram frv. til lánsfjárlaga sem staðfestir stórfellda aukningu erlendra skulda, heldur er hér einnig á ferðinni staðfesting á því að stórfelldur halli á ríkissjóði og peningaprentun í Seðlabankanum eiga að setja svip sinn á efnahagsstjórnina á árinu 1984.

Í þessu frv. er hvergi að finna minnsta vott um þá nýju atvinnustefnu sem talsmenn Sjálfstfl. voru að kalla á á árum áður. Þvert á móti felst í þessu frv. veruleg uppgjöf varðandi nýsköpun í atvinnumálum landsmanna. Það er t.d. ærið sérkennilegt að eftir öll stóru orðin um nauðsyn þess að brjóta í blað í orkuframkvæmdum og hefjast nú handa um stórfelldar virkjanir, sem ættu að skapa þjóðinni mikinn auð um ókomna framtíð, er ljóst að á fyrsta heila valdaári Sjálfstfl. í iðnrn. og fjmrn. verður mun minna um orkuframkvæmdir en á undanförnum árum. Öll stóru orðin, sem fyrrv. formaður Sjálfstfl., sem núv. iðnrh., sem núv. viðskrh. og aðrir talsmenn Sjálfstfl. á undanförnum árum hafa haft um nauðsyn þess að hefja nú stórt átak í orku- og iðnaðarmálum fatla dauð með þessu frv. Hér er stigið verulegt sport aftur á bak hvað snertir ný tök á þessum málaflokki.

Er að finna í þessu frv. grundvöll að nýrri fjárfestingarstefnu í sjávarútvegi? Nei. Er að finna í þessu frv. grundvöll að nýrri fjárfestingarstefnu í landbúnaði? Nei. Er að finna í þessu frv. grundvöll að nýrri fjárfestingarstefnu í iðnaði? Nei. Er að finna í þessu frv. einhvern minnsta vott þess að ríkisstj. ætli að leggja grundvöll með atvinnustefnu sinni og fjárfestingarstjórn að betri þjóðarauði og meiri þjóðartekjum á seinni hluta kjörtímabilsins? Svarið er einnig nei. Ekkert slíkt er í þessu frv. Þetta er einfaldlega frv. um aukningu erlendra skulda, um staðfestingu á óbreyttu ástandi í fjárfestingarstjórn landsins og það sem meira er: staðfesting á uppgjöf Sjálfstfl. við að standa við allar stóru yfirlýsingarnar um orku- og iðnaðarmálin á undanförnum árum.

Herra forseti. Ríkisstj. knúði í gegn með lagasetningu slíka kjararýrnun að þúsundir Íslendinga búa nú við sára fátækt. Dæmin um fjölskyldur sem eiga ekki fyrir mat, sem geta ekki kveikt á sjónvarpi á heimili sínu, kveikt ljós eða hitað grjónagraut vegna þess að þær hafa ekki efni á að greiða rafmagnið svo að aftur verði opnað fyrir rafmagnið á heimilum þeirra eru fjölmörg. Dæmunum um börnin sem þurfa að spyrja foreldra sína hvers vegna ekki er boðið upp á venjulegan hollan mat á þeirra heimill fjölgar í hverri viku. Þessi mikla kjaraskerðing var gerð fyrst og fremst með tilvísun til þess að þjóðin hefði safnað svo miklum erlendum skuldum að það yrði að snúa þessari þróun við. Hæstv. fjmrh. skuldar Alþingi og þjóðinni svör við þeirri spurningu hvernig standi á því að í kjölfar þessarar miklu kjaraskerðingar leggur hann hér fram frv. sem felur í sér stórfellda aukningu á erlendum skuldum. Hæstv. ráðh. hefur gefið yfirlýsingu um að verði erlendar skuldir 60% af þjóðartekjum eða meir muni hann fara frá, þá eigi ríkisstj. að fara frá, þá sé stjórnarstefnan svo gjaldþrota að ríkisstj. eigi umsvifalaust að fara frá, svo vitnað sé orðrétt í hæstv. fjmrh. Þetta frv. ber með sér að nú skortir aðeins, á árinu 1984, örfá prómill upp á að þessu marki verði náð, þessu hættustigi verði náð og ríkisstj. verði skv. orðum hæstv. fjmrh. tafarlaust að segja af sér. Þetta er nú allur árangurinn. Þetta er öll réttlætingin. Og er ekki eðlilegt að spurt sé: Ef hin mikla kjaraskerðing var gerð til að draga úr erlendum skuldum og niðurstaðan er stórfelld aukning erlendra skulda, er þá ekki ljóst að aðferðin hefur verið röng, að hæstv. ráðh. hafa leitt þjóðina inn á braut kjaraskerðingar án þess að ná nokkrum árangri eftir þeim mælikvarða sem þeir sjálfir hömpuðu mest þegar þeir knúðu í gegn þvingunarlögin á launafólk í landinu?

Herra forseti. Þegar Sjálfstfl. fór með fjmrn. á árunum 1974–1978 safnaði hann stórfelldum skuldum. Núv. fjmrh. ætlar að halda fast við þessa stefnu Sjálfstfl., skuldastefnuna, hallastefnuna. Fróðlegt væri að fá útskýringar á því hjá hæstv. fjmrh. hvers vegna skuldastefnan og hallastefnan er svona góð, að um leið og Sjálfstfl. fær fjmrn. í sínar hendur er umsvifalaust horfið að því ráði að hlaða upp skuldum ríkissjóðs og reka fjárhagsbúskap ríkisins með þeim hætti að seðlaprentun er eina leiðin til að reka trippin.

Þetta er sérstaklega brýnt í ljósi þess, að sú seðlaprentun sem fjmrh. beitir sér fyrir er í rauninni ígildi erlendrar skuldasöfnunar hvað afleiðingar fyrir efnahagskerfið snertir. Þess vegna er kannske skiljanlegt, þegar hæstv. fjmrh. er farinn að dansa á 60% markinu hvað snertir hina erlendu skuldasöfnun og ráðherrastólarnir eru farnir að riða á afturfótunum samkv. .hans eigin skilgreiningu, að hann bregði þá á það ráð, til þess að geta setið áfram í stólnum, að blekkja efnahagsstjórnina með því að safna skuldum við Seðlabankann og knýja á um innlenda seðlaprentun.

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessum umr. að mikið skortir á að frv. til lánsfjárlaga veiti tæmandi mynd af lánsfjárvanda atvinnuveganna. Inn í þetta frv. vantar verulegar upphæðir sem nauðsynlegar eru í samræmi við þarfir höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Einnig er ljóst að hæstv. fjmrh. byggir þá veiku grind sem í frv. felst á tveimur forsendum sem alls ekki munu standast.

Annars vegar á bankakerfið að leggja meira af mörkum til að leysa fjármögnunarvanda atvinnuveganna. Hæstv. fjmrh. hefur ekkert í höndunum sem bendir til þess að svo verði. Ef hann hefur náð í eitthvað slíkt töframeðal væri mjög æskilegt að hann lýsti því hér í ræðustól svo að þingheimur hefði tækifæri til að meta á trúverðugan hátt hvort þetta er rétt.

Í öðru lagi dró hæstv. ráðh. í efa að fjármögnunaráætlun til húsnæðislána mundi standast, sagði beinlínis hér að þá yrði að endurskoða alla húsnæðisstefnuna — eða m.ö.o.: sú húsnæðisstefna sem ráðh. hafa kappkostað og keppst um, forsrh., félmrh. og fjmrh., að lýsa sem glæsilegast á undanförnum mánuðum hvílir á svo veikum grunni að hæstv. fjmrh. er ekki einu sinni sannfærður um það hér og nú að hún kunni að standast. Það væri mjög fróðlegt ef forustumenn Sjálfstfl., sem lofuðu þjóðinni í síðustu kosningum 80% lánveitingu, gæfu skýringar á því hvernig stendur á því að jafnvel hinar takmörkuðu efndir sem þeir reyndu að koma í framkvæmd á því loforði á síðasta ári séu nú jafnhæpnar og hæstv. fjmrh. lýsti áðan.

Það er þess vegna ljóst, herra forseti, að þetta frv. þarfnast vandlegrar athugunar í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar, einkum og sér í lagi í ljósi þess að sú venja var ekki viðhöfð nú, eins og oftast áður, að fjh.og viðskn. beggja deilda ynnu saman að þessu máli. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að fjh.- og viðskn. gefi sér góðan tíma til að skoða það hrófatildur sem hæstv. fjmrh. hefur hér mælt fyrir. Þó hefur það þegar komið í ljós — á fundi n. í morgun — að í þessu frv. felst ein stefnunýjung. Það er mjög merkilegt á hvaða sviði hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl. hefur talið nauðsynlegt að brjóta í blað í þessu efni.

Biskupinn yfir Íslandi og kirkjuráðið gjörvallt komu á fund fjh.- og viðskn. í morgun og tilkynntu n. að í þessu frv. fælust einhver mestu samningssvik sem um getur í samskiptum ríkis og kirkju á undanförnum áratugum og þetta frv. væri í reynd aðför að frjálsu kirkjustarfi í landinu. Það hafði verið gerður samningur milli ríkisins og kirkjunnar í tíð Jóhanns Hafstein, sem ég veit að hæstv. fjmrh. metur mikils, þess efnis að Kristnisjóður fengi í sinn hlut ígildi launa prestakalla sem ekki eru setin. Allar ríkisstj. síðan og allir fjmrh. hafa staðið við þennan samning. Allir hafa viljað halda í heiðri þetta grundvallarlögmál í samskiptum ríkis og kirkju. En nú kemur sjálfstfl., sjálfskipaður útvörður guðs á Íslandi og þjóðkirkjunnar, og ríður á vaðið með að taka Kristnisjóð í fyrsta sinn inn í lánsfjárlög til þess eins að staðfesta með formlegum hætti að samningurinn sem Jóhann Hafstein gerði við biskupinn yfir Íslandi verði svikinn. Það kom greinilega fram á þessum fundi, að ýmsir þeir menn í kirkjuráðinu íslenska sem hafa tekið trúanlegar yfirlýsingar Sjálfstfl. um stuðning hans við kristni og kirkju voru slegnir forundran yfir þeirri aðför sem í lánsfjárfrv. felst. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hér: Hvernig stendur á því að hann telur svo nauðsynlegt að gerast nú á þessu eina sviði frumkvöðull, þ.e. rifta helgum samningi ríkis og kirkju um Kristnisjóð? Hér er ekki um neinar stórar upphæðir að ræða. (Gripið fram í.) Sú upphæð sem Kristnisjóður hefði átt að fá er litlar 3.8 millj. Það er ekki stór upphæð. Ætli það sé ekki aðeins meira en hæstv. iðnrh. varði til að framkvæma Hagvangsathugunina á Rafmagnsveitum ríkisins. En engu að síður, þó að þetta séu nú bara 3.8 millj., taldi fjmrh. nauðsynlegt að rjúfa þennan samning. Og ég spyr hér og óska eftir því að fjmrh. svari því strax við þessa umr.: Hvernig stendur á því að hann fyrstur allra íslenskra fjmrh. rýfur þann samning sem Jóhann Hafstein gerði við þjóðkirkjuna á Íslandi?

Herra forseti. Fram kom ein athyglisverð yfirlýsing í ræðu hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. var fyrir rúmri viku mjög stóryrtur opinberlega og hér í þinghúsinu um 4% ramma fjárlaganna varðandi launasamninga. Sjónvarpið birti viðtal, sem tekið var í hliðarsal Alþingis, þar sem ráðh. sat ábúðarmikill og alvarlegur og spurði fréttamanninn: Hvenær hefur þú vitað til þess að ég gengi á bak orða minna? Ráðh. endurtók svo í fjölmiðlum að allar tilraunir til að fara fram úr þessum 4% ramma væru tilraunir til að reka hann úr ríkisstj. Morgunblaðið, spurði hann álits á ummælum forsrh. og iðnrh. um þetta efni. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að það liti svo út sem þessir tveir hæstv. ráðh. væru að gera tilraun til að reka hann úr ríkisstj. Þetta voru stór orð og mikil. Einsdæmi er í sögu íslenskra stjórnmála að einn ráðh. hafi lagt embætti sitt að veði fyrir slík prósentumörk. Síðan hefur verið þögn um þetta mál, mikil þögn. Hæstv. fjmrh. hefur ekki sagt orð. Hæstv. iðnrh. hefur ekki sagt orð. Og það sem er öllu merkilegra: hæstv. forsrh. hefur ekki heldur sagt neitt um málið. En nú gerist það hér að hæstv. fjmrh. laumar einni lítilli setningu inn í framsöguræðu sína. Hann sagði „að kjarasamningar yrðu í sem mestu samræmi við þá stefnu sem ríkisstj. hefði markað“. — Í sem mestu samræmi. Undanhaldið er hafið. Ráðherrastóllinn er heitur, mjúkur og góður og það á ekki að fórna honum fyrir einhver prósent fram yfir 4%. Fjmrh., blessaður, er byrjaður að undirbúa uppgjöf sína — merkilegt nokk — og hefur yfirlýsing forsrh. og iðnrh. reynst marktækari í þessu efni og þeim hefur tekist á þessum þagnardögum að fá hæstv. fjmrh. til að sjá að sér. Nú ætlar hann ekki lengur að standa við stóru yfirlýsingarnar, heldur er búinn að búa til formúlu sem á að nægja honum til að sitja áfram hvað sem gerist í kjaramálunum. Nú er það ekki lengur klippt og skorið við 4%. Nú er það ekki lengur alvöruþrunginn ráðh. sem birtist á sjónvarpsskermi og segir: Hvenær hefur þjóðin vitað til þess að ég gengi á bak orða minna? Nú er það hógvær og lítillátur ráðh. sem er hér í ræðustól byrjaður að tala um að kjarasamningar „verði í sem mestu samræmi við“. Þetta minnir á fræga yfirlýsingu Ólafs Jóhannessonar, „Stefnt skal að“, sem er orðin fræg að endemum í íslenskri stjórnmálasögu fyrir möguleika til að teygja hana og túlka í allar áttir. Auðvitað má þetta, „í sem mestu samræmi við“, hljóta sömu meðferð. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða tölur er hann með í huga í þessu efni? Eru það 6% sem forsrh. nefndi? Eru það 7% eða 8% eða 5%? Hvar er sá rammi, svo notað sé þekkt orð, sem er „í mestu samræmi við“ 4% rammann?

Herra forseti. Ég hef hér beint nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh. Hann hefur haft það fyrir venju hér í þinginu — og það er góð venja — að svara öllum þeim spurningum sem til hans er beint. Ég vænti þess að svo verði einnig hér og nú í kvöld og tel fullvíst að svör hans verði til að greiða fyrir framgangi málsins í hv. fjh.- og viðskn.