20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 21/1983, um breyt. á þeim lögum, í fjarveru fjmrh.

Með frv. þessu er stefnt að því að ná því markmiði, sem sett var með fjárlögum, að skattbyrði tekjuskatts til ríkisins verði á árinu 1984 í heild hin sama sem hlutfall af tekjum greiðsluárs og var á árinu 1983. Í þessu felst að þær lækkanir á sköttum ársins 1983 sem ákveðnar voru með brbl. við valdatöku núverandi ríkisstj. haldist áfram á árinu 1984.

Þegar skattbyrði tekjuskatta ríkisins er metin dugar ekki að líta á ákvæði laga um tekju- og eignarskatt ein sér. Í því sambandi verður að hafa í huga sjúkratryggingagjaldið. Miðað er við i frv. sem hér er til umr. að heildarálagning tekjuskatts og sjúkratryggingagjalds nemi sömu fjárhæð og reiknað er með í fjárlögum.

Í launaforsendum fjárlagafrv. var áætlað að meðaltekjur manna hækkuðu um 20% milli áranna 1983 og 1984. Þetta frv. var því upphaflega við það miðað að nettóálagning tekjuskatta ríkisins hækkaði í nákvæmlega sama mæli, en um 21% að meðtalinni fjölgun gjaldenda. Í því sambandi er nauðsynlegt að taka það enn á ný sérstaklega fram að við mat á skattbyrði milli ára er hér sem endranær, þegar þessi mál eru til umr., átt við skattbyrði þeirra gjaldenda sem standa í skilum við ríkissjóð með gjöld sín.

Í fjárlögum er hins vegar ætíð miðað við áætlanir um heildarfjárhæð innheimtra skatta og koma þá innheimtar eftirstöðvar fyrri ára inn í myndina. Vegna minnkandi verðbólgu munu óinnheimtar eftirstöðvar fyrri ára augljóslega vega hlutfallslega meira í heildarinnheimtu ársins 1984 en verið hefur á undanförnum árum. Verðbólgan mun því ekki lengur liðsinna þeim sem lent hafa í vanskilum með skattgreiðslur sínar. Er það skýringin á því að í fjárlögum er reiknað með meiri hækkun á innheimtum tekjuskatti milli ára.

Eftir að þetta frv. var upphaflega lagt fram vann Þjóðhagsstofnun að endurskoðun á áætlunum um tekjubreytingar milli áranna 1983 og 1984. Niðurstaðan af þeirri endurskoðun er sú, að áætlaðar tekjur á mann á árinu 1984 verði 16.5% hærri en tekjur voru á s.l. ári, en ekki 20% eins og áður hafði verið áætlað. Hér er um að ræða meðaltalstölur að sjálfsögðu, sem auðvitað geta verið breytilegar frá einum einstaklingi til annars. Þetta eru samanlagðar tekjur allra vinnandi manna eins og þær koma fram í skattskýrslum. Í framhaldi af þessum breyttu forsendum flutti meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. brtt. við frv. þannig að það næði hinu upphaflega markmiði um að tekjuskattur til ríkissjóðs yrði á árinu 1984 óbreytt hlutfall af tekjum greiðsluárs frá því sem verið hafði 1983. Þessar till. náðu fram að ganga í Nd. Í stórum dráttum verður dreifing skattbyrðar eftir breytingarnar mjög svipuð því sem að var stefnt með upphaflegu frv. Þó lækkar skattbyrði flestra undir meðaltekjum nokkuð á kostnað hinna tekjuhæstu í samræmi við þá stefnu sem ríkisstj. fylgdi þegar hún lagði frv. fram í upphafi, og tekur það mið af efnahagsástandinu.

Í umr. um þetta frv. hér á Alþingi hefur mikið verið karpað um hvort í því felist hækkun eða lækkun á skattbyrði gjaldenda í heild eða í einstökum tekjubilum. Hefur í þessum deilum af hálfu stjórnarandstöðu verið þyrlað upp nokkru moldviðri talna um verulega hækkun skattbyrði á næsta ári og hafa þær fullyrðingar byggst á vægast sagt vafasömum forsendum í mörgum tilvikum.

Í fyrsta lagi hafa menn á stundum miðað við að tekjuþróun frá meðaltekjum ársins 1983 til meðaltekna ársins 1984 verði önnur og minni en við er miðað í forsendum þessa frv. Um þetta er það að segja að frv. þetta byggir á traustustu áætlunum sem völ er á um þetta efni. Að sjálfsögðu eru þær áætlanir ekki óbrigðular fremur en aðrar spár um framtíðarþróun. Hins vegar er ekkert það fram komið sem bendir til þess að tekjuaukning milli ára verði minni en áætlað er í endurskoðaðri þjóðhagsspá.

Í öðru lagi hafa þm. stjórnarandstöðu haldið á loft reiknuðum dæmum um skattbyrði einstakra ímyndaðra gjaldenda og talið að þau sýndu fram á að skattbyrði hækkaði milli ára. Er það sammerkt með öllum þessum dæmum að í þeim er miðað við sem lágmark 10% frádrátt gjaldenda. Að sjálfsögðu er gildi slíkra einstakra dæma mjög takmarkað. Hið eina raunhæfa mat á áhrifum frv. í heild fæst með því að beita því á úrtak gjaldenda sem sýnir raunverulegt vægi frádráttarliða hjá einstökum gjaldendum og skiptingu gjaldenda í tekjuflokka. Hefur þetta verið gert af hálfu fjmrn. og þá miðað við úrtak 10% gjaldenda í framtölum 1983. Sýnir niðurstaða þess úrtaks svo ekki verður um villst að í heild stendur skattbyrði tekjuskatts til ríkisins óbreytt milli áranna 1983 og 1984. Hafa þessir útreikningar verið framkvæmdir af Reiknistofnun Háskóla Íslands og vil ég sérstaklega benda á að algjörlega hliðstæðir útreikningar hafa legið til grundvallar við mat á áhrifum flestallra skattalagabreytinga síðustu 10 ár og hafa ætíð reynst gefa mjög góða mynd af áhrifum þeirra. Hafa margir hv. þm. stjórnarandstöðu, sem nú vilja beita öðrum aðferðum máli sínu til stuðnings, ekki borið brigður á spásagnargildi fyrrnefnds úrtaks á liðnum árum, þegar þeirra flokkar hafa staðið að ríkisstj., enda sýnir reynslan að því má treysta fullkomlega.

Í þriðja lagi hefur af hálfu stjórnarandstöðunnar oft verið gripið til þess ráðs að leggja saman útsvör, er til sveitarfélaganna renna, og beina skatta til ríkisins þegar áhrif þessa frv. eru metin. Um þetta efni þarf ég ekki að orðtengja. Hér er til umr. frv. til l. um tekju- og eignarskatt til ríkisins en ekki till. til breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaganna.

Vissulega er það rétt, að þegar þessir tvenns konar skattar eru lagðir saman getur komið fram nokkur hækkun á greiðslubyrði. Hún stafar þó ekki af þeim till. sem í þessu frv. felast, heldur af því að mörg sveitarfélög hafa ekki treyst sér til að lækka útsvör jafnmikið og lagt er til að gert verði varðandi beina skatta til ríkissjóðs með þessu frv.

Á grundvelli þess sem ég hef nú þegar sagt vísa ég á bug öllum fullyrðingum um að af samþykkt þessa frv. muni leiða almenna þyngingu á skattbyrði til ríkisins. Hitt er rétt, að af þessu frv. mun leiða nokkra þyngingu á skattbyrði þeirra sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu, en þeirri skattahækkun fylgir sambærileg skattalækkun þeim til handa sem minna mega sín.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að gera það að till. minni að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.