21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2997 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

171. mál, gjaldskrá fyrir uppboðshaldara

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og ég vil fagna því að hreyfing er á þessu máli innan ráðuneytanna, að breyta því fyrirkomulagi sem gilt hefur.

Hæstv. dómsmrh. lét þess getið s.l. haust að ástæða gæti verið til að endurskoða innheimtulaun fógeta og er örugglega brýnt mál að svo verði gert. Í Dagblaðinu s.l. sumar var viðtal við borgarfógeta í Reykjavík þar sem fram kom að hann sæi á þessu fyrirkomulagi marga galla og myndi ekki standa gegn breytingum. Í þeirri sömu grein var upplýst að tekjur borgarfógeta á árinu 1982 hafi verið að jafnaði um 130 þús. kr. á mánuði á því ári eða meira en tíföld laun verkamanna.

Meginskýringin á þessum háu launum var sagt að væri innheimtulaun. Auk innheimtulauna hafa uppboðshaldarar og aðrir embættismenn sem sjá um innheimtu ríkissjóðstekna, sín föstu laun sem voru í október s.l. frá 24–32 þús. kr. Einnig er í sumum tilfellum um að ræða aðrar greiðslur. Vil ég í því sambandi vitna til svara frá hæstv. fjmrh., sem komu fram hér í vetur, við fsp. minni um innheimtulaun vegna ríkissjóðstekna. Þar kemur fram um önnur laun og kjör innheimtumanna ríkissjóðs að sýslumenn taka laun skv. BHM-launaflokki 120–124, mismunandi eftir starfsaldri. Tollstjórinn í Reykjavík og yfirborgarfógetinn í Reykjavík taka laun skv. BHM-launaflokki 125 en yfirsakadómari og yfirborgarfógeti skv. BHM-launaflokki 127.

Yfirvinnugreiðslur til þeirra eru nokkuð mismunandi. Þannig fá sýslumenn og bæjarfógetar, sem ekki hafa löglærða fulltrúa, greiddar 27 yfirvinnustundir á mánuði. Yfirvinnugreiðslur til annarra sýslumanna og bæjarfógeta — þó ekki í stærstu umdæmum — nema 15 yfirvinnustundum á mánuði. Sýslumenn og bæjarfógetar í stærstu umdæmum auk tollstjórans í Reykjavík fá hins vegar enga yfirvinnu greidda.

Jafnframt þessu hafa verið gerðir samningar við umrædda aðila um greiðslu fyrir notkun þeirra á eigin bifreiðum í þágu embættanna. Samningar þessir eru mismunandi eftir umdæmum.

Þá hafa umræddir aðilar um nokkurt skeið fengið greidd afnotagjöld af síma sem nemur fastagjaldi. Nýlega var þeim reglum breytt á þá lund að nú er þeim að auki greiddur tiltekinn hluti af umframskrefagjaldi.

Um aðrar launagreiðslur til þeirra úr ríkissjóði er ekki að ræða. Hins vegar kunna þeir embættis síns vegna að hafa tekjur af öðru sem þá er ekki greitt úr ríkissjóði. Má þar nefna umboðsstörf þeirra í þágu Tryggingastofnunar ríkisins, störf þeirra sem uppboðshaldarar, störf þeirra í þágu sýslufélaga o.fl. þess háttar. Fjmrn. hefur ekki upplýsingar um tekjur þeirra vegna þessara starfa.

Ljóst er af þessari upptalningu að um umtalsverðar tekjur er að ræða, einnig umframtekjur af uppboðum eða vegna innheimtu á ríkissjóðstekjum. Þessu fyrirkomulagi er því nauðsynlegt að breyta. Eðlilegra væri auðvitað að þessir fjármunir rynnu í galtóman ríkiskassann hjá hæstv. fjmrh. til sameiginlegra þarfa landsmanna. Það er í fyllsta mála óeðlilegt að hagnaður einstakra embættismanna aukist í réttu hlutfalli við það sem uppboðum fjölgar og neyð þeirra fjölskyldna sem lenda með eigur sínar á uppboði. Því fagna ég því að breytingar eru í vændum á þessu fyrirkomulagi. En mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram í svari hæstv. ráðh. hvenær megi vænta þess að þetta frv. verði lagt fram og hvort við megum eiga von á því, hv. alþm., að þetta nái fram að ganga á yfirstandandi þingi þannig að það verði þá lagt fram hér tiltölulega fljótlega og að þm. hafi svigrúm til þess að fjalla um þetta mál hér á hv. Alþingi.