22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra for seti. Ég mæli hér í fjarveru hæstv, fjmrh. fyrir frv. til l um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt nr. 75 1981, sbr. lög nr. 21 1983, um breytingu á þeim lögum, en frv. þetta hefur verið samþykkt nær óbreytt í Ed.

Þetta frv. er flutt í framhaldi af því atriði í stefnuyfir­lýsingu ríkisstj. að áhersla verði lögð á að efla atvinnu­starfsemi og atvinnuuppbyggingu til að auka hagvöxt og atvinnuöryggi, m.a. með breytingu skattalaga í þá átt að þau örvi fjárfestingu og eiginfjármyndun í atvinnulíf­inu. Frv. var samið í samvinnu fjmrn. og nefndar sem til þess verkefnis var skipuð 14. júlí á s.l. ári. Í þeirri nefnd áttu sæti þeir Ólafur Nilsson, lögg. endurskoð­andi, er var formaður nefndarinnar og auk hans Geir Geirsson lögg. endurskoðandi og alþm. Davíð Aðal­steinsson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Þorsteinn Páls­son. Nefndin vann mjög gott starf og skilaði áliti sínu í nóv. s.l. Í tengslum við þetta frv. samdi nefndin sérstakt frv. um frádrátt frá tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri og eru náin tengsl milli frv. beggja.

Á undanförnum árum hafa margar greinar atvinnu­rekstrar átt í miklum erfiðleikum hér á landi þar sem gætt hefur samdráttar og versnandi afkomu. Í þessum efnum þarf að snúa vörn í sókn og hefja nýskipun arðbærrar atvinnustarfsemi með aukinni þátttöku al­mennings. Sérstaklega þarf að auka eiginfjármyndun atvinnufyrirtækja og bæta möguleika þeirra til endur­nýjunar atvinnutækja. Hefur frv. að geyma allmargþættar tillögur til breytinga á skattlagningu einstaklinga og atvinnufyrirtækja sem allar stefna þó að þessu marki. Ég mun nú víkja að helstu tillögum frv. og snúa mér fyrst að þeim breytingum er varða atvinnu­reksturinn sjálfan.

Þar eru meginbreytingarnar þríættar. Í fyrsta lagi er lagt til að fjárfestingarsjóður verði tekinn upp í stað núverandi varasjóðs. Í öðru lagi er lagt til að breyting verði gerð á meðferð úthlutaðs arðs hjá félögum og í þriðja lagi er gert ráð fyrir breytingu á fyrningarhlut­föllum.

Skv. núgildandi lögum er félögum sem atvinnurekst­ur stunda heimilt að leggja allt að 25% af hagnaði í sérstakan varasjóð. Þessum varasjóði er einungis heim­ilt að ráðstafa til að mæta rekstrartapi. Sé sjóðnum á einhvern hátt ráðstafað á annan veg ber að telja hina ráðstöfuðu fjárhæð til tekna að viðbættu 25% álagi. Gildandi ákvæði um varasjóð hafa löngum þótt að ýmsu leyti gölluð. Sérstaklega hafa menn þó gagnrýnt ákvæðið um óheimilaða ráðstöfun hans. Það hefur reynst mjög erfitt í framkvæmd að meta hvenær vara­sjóði hefur verið ráðstafað í þessu sambandi og hvenær hann skyldi telja til tekna að viðbættu 25% álagi. Í mörgum tilfellum hefur varasjóður í raun virkað eins og lækkun á skattahlutfalli félaga. Annar megingalli við ákvæði núgildandi laga um myndun varasjóðs er að heimildin hefur verið bundin við félög. Einstaklingum hefur ekki verið heimilt að leggja fé í varasjóð þó þeir stunduðu atvinnurekstur og hefur varasjóðsheimildin skapað visst misvægi milli atvinnurekstrar eftir því hvort hann er í formi félags eða á vegum einstaklings.

Með ákvæðum frv. um fjárfestingarsjóð í stað vara­sjóðs er stefnt að raunhæfari varasjóðsmyndun í at­vinnurekstri, þ.e. stefnt að myndun varasjóðs sem ráðstafa má til frekari uppbyggingar og tekjuöflunar í rekstrinum. Í frv. er lagt til að einstaklingar og félög, . sem hafa skattskyldar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, geti myndað fjárfestingarsjóð með frádrætti frá tekjum allt að 40% af skattskyldum hagnaði ársins. Helming af tillagi í fjárfestingarsjóð skal leggja inn á bundinn reikning í banka eða sparisjóði, svonefndan fjárfestingarreikning. Reikningar þessir skulu vera verðtryggðir og bera sömu vexti og verð­tryggðir reikningar við innlánsstofnanir almennt gera. Fjárhæð, sem lögð er inn á bundinn reikning, má fyrst nota sex mánuðum eftir að innborgun hefur farið fram og skal hún hafa verið notuð innan sex ára frá því tímamarki.

Fjárfestingarsjóðurinn framreiknast árlega með verð­breytingarstuðli skv. 26. gr. tekjuskattslaganna. Verð­bætur og vextir af innstæðureikningi eru skattskyld en reikningurinn reiknast með í stofni við útreikning á verðbreytingarfærslu. Þetta þýðir raunverulega að ein­ungis ákveðnir raunvextir af þessum reikningum verða skattskyldir. Ef fjárfestingarsjóðnum er ráðstafað telst hann til skattskyldra tekna en jafnframt því er heimilt að fyrna nýjan reikning sem heimilt er að fyrna í fyrsta sinn á árinu skv. skattalögum eða eignum sem eru í smíðum og enn hafa ekki verið teknar í notkun.

Í þessum till. um fjárfestingarsjóð í stað varasjóðs felast róttækar breytingar. Horfa sumar þeirra til rýmk­unar á þeim heimildum sem nú eru í lögum en aðrar til þrengingar. Þegar þau atriði öll eru skoðuð í samhengi og metin heildarútkoma þeirra verður ekki sagt að þegar til lengri tíma er litið felist lækkun á skattlagningu fyrirtækja í þeim till. er varða fjárfestingarsjóðinn, þó að þær kunni eitthvað að rýra tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti atvinnurekstursins þegar til skamms tíma er lítið. Meginmáli skiptir þó að fjárfestingarsjóðurinn er mun raunhæfari við varasjóðsmyndun í atvinnurekstri en núgildandi ákvæði um varasjóð og hann er mun líkari en núgildandi varasjóður til að stuðla að frekari uppbyggingu og tekjuöflun í rekstri. Eru þær till. um fjárfestingarsjóð sem ég hef rakið hér að framan og frv. hefur að geyma að verulegu leyti sniðnar eftir hliðstæðri sjóðsmyndun sem heimiluð er í skattalögum flestra grannlanda okkar og þykir þar hafa gefið góða raun.

Að því er félögin varðar eru í öðru lagi gerðar tillögur um breyttar reglur um skattalega meðferð úthlutaðs arðs hjá hlutafélögum og skattalega meðferð þess fjár sem samvinnufélög greiða félagsmönnum sínum í árslok eða færa þeim til séreignar í stofnsjóði. Skv. núgildandi lögum er helmingur þeirrar fjárhæðar sem hlutafélög greiða eða úthluta í arð frádráttarbær en þó má frádráttur aldrei vera hærri en nemur 5% af matsverði hlutafjár. Hjá viðtakendum þessa arðs er hann allur skattskyldur en þó getur hver einstakur viðtakandi fært til frádráttar allt að 12 700 kr. Þessar reglur hafa leitt til þess að iðulega kemur til tvísköttun arðs þar sem arður er að hálfu leyti skattlagður í félaginu sem úthlutar honum og að verulegu leyti aftur skattlagður hjá viðtakanda.

Í frv. er lagt til að úthlutaður arður úr hlutafélagi verði frádráttarbær að fullu hjá félaginu, þó ekki umfram 10% af matsverði hlutafjár. Jafnframt eru gerðar tillögur um nokkra rýmkun á frádráttarbærni úthlutaðs arðs í höndum móttakanda og mun ég víkja að þeim síðar.

Skv. þessum till. er með öllu afnumin sú tvísköttun á úthlutuðum arði sem ríkt hefur að nokkru leyti hingað til og verður að telja að mörgu leyti mjög óeðlilega. Þá eru einnig rýmkaðar heimildir samvinnufélaga til að færa til frádráttar fjárhæðir sem greiddar eru félagsaðil­um eða færðar þeim til séreignar í stofnsjóði í hlutfalli við viðskipti þeirra á árinu.

Að því er atvinnureksturinn varðar eru loks í þriðja lagi í frv. gerðar till. um nokkra hækkun á fyrningar­hlutföllum. Þau hafa fram að þessu fyrst og fremst verið miðuð við raunverulegan endingartíma þeirra, þannig að eignin væri komin niður í niðurlagsverð að loknum endingartímanum, þó að sjálfsögðu hafi þarna verið um meðaltalsreglu að ræða. Hin síðari ár hefur borið æ meira á úreldingu eigna vegna örra tæknibreytinga þannig að endingartíminn einn ræður ekki úrslitum um þessi efni lengur.

Í ljós hefur komið að núgildandi ákvæði um fyrningar nægja ekki í nærri öllum tilvikum til að færa eignir til raunverulegs verðs á hverjum tíma af þessum sökum. Í þessu sambandi má nefna örar tæknibreytingar á sviði tölvunotkunar, á sviði vöruflutninga, t.d. á sjó, og á fjölmörgum öðrum sviðum. Hafa þessar breytingar í mörgum tilfellum gert eldri búnað úreltan eða verð­minni en ráð var gert fyrir og oft löngu áður en raunverulegum endingartíma búnaðarins í hinum hefð­bundna skilningi þess orðs var lokið.

Af þessum sökum eru gerðar í frv. till. um nokkra hækkun fyrningarhlutfalla. Þannig er lagt til að fyrn­ingarhlutföll skipa og skipsbúnaðar hækki úr 8 í 10%, að fyrningarhlutföll verksmiðjuvéla og hvers konar iðnaðarvéla hækki úr 12% í 15% og að fyrningarhlutföll véla og tækja til jarðvinnslu og mannvirkjagerðar, bifreiða, tölvubúnaðar o.fl. verði hækkuð úr 12% í 20%. Jafnframt er lagt til að fyrningarhlutföll mann­virkja verði 2–10% í staðinn fyrir 2–6% áður.

Eftir sem áður er gert ráð fyrir að fjmrh. ákveði með reglugerð fyrningarhlutfall einstakra flokka mannvirkja eftir gerð, byggingarefni o.fl. Það má því fyrst og fremst búast við að hið aukna svigrúm, sem gert er ráð fyrir í fyrningarhlutföllum mannvirkja, verði notað varðandi einstakar óvaranlegar tegundir eigna.

Skv. gildandi lögum um tekju- og eignarskatt er íbúðarhúsnæði í atvinnurekstri ekki fyrnanlegt. Í ýms­um tilvikum er þetta óeðlilegt. Má í því sambandi nefna verbúðir og vistarverur starfsfólks fiskiðjuvera víða úti um land. Þá eru einnig dæmi um að íbúðir séu leigðar út af félögum eða öðrum í stórum stíl í atvinnurekstrar­skyni. Er lagt til að á þessu verði breyting og íbúðarhús­næði sem notað er í atvinnurekstri verði almennt fyrnanlegt. Ekki er þó gert ráð fyrir að þessi breyting taki til íbúðarhúsnæðis í eigu manna nema að heildar­fyrningargrunnur slíks húsnæðis í hans eigu í árslok fari fram úr tilteknum mörkum. Slík takmörkun þykir nauð­synleg til þess að reglur um fyrningu á útleigðu íbúðar­húsnæði verði framkvæmanlegar.

Ég hef nú lýst stuttlega tillögum frv. að því er varðar atvinnureksturinn, þ.e. tillögum um fjárfestingarsjóð, arð og hækkun fyrningarhlutfalla, og mun nú snúa mér að tillögum er lúta að einstaklingum. Helstu brtt. er að einstaklingum lúta skiptast í þrjá flokka svipað og varðandi atvinnureksturinn. Í fyrsta lagi till. um með­ferð móttekins arðs og greiðslna í stofnsjóði samvinnu­félaga, í öðru lagi um fjárfestingu einstaklinga í atvinnu­rekstri og frádráttarbærni hennar með vissum skilyrð­um og innan vissra marka og loks í þriðja lagi till. varðandi breytta eignarskattsmeðferð að því er varðar hlutafjáreign og stofnfjárinnstæðu í samvinnufélögum. Ég vék hér áðan, þegar ég fjallaði um skattlagningu atvinnurekstrar og till. til breytinga á henni, að meðferð úthlutaðs arðs hjá hlutafélögum og færslna í stofnsjóði hjá samvinnufélögum. Að því er varðar skattalega meðferð þessara greiðslna hjá móttakendum eru einnig gerðar till. til breytinga í frv. því sem hér liggur fyrir. Skv. gildandi reglum er fenginn arður af hlutafjáreign frádráttarbær hjá einstaklingum sem við honum taka. Þessi frádráttarheimild sætir svo tvenns konar tak­mörkunum. Í fyrsta lagi er móttekinn arður ekki frádráttarbær nema upp að 10% af nafnverði einstakra hlutabréfa eða hluta og í öðru lagi má frádráttur aldrei vera hærri en 12 750 kr. fyrir einhleyping og helmingi hærri upphæð fyrir hjón. 1 frv. er ekki gerð till. um aðrar breytingar á þessum ákvæðum en þær að fyrr­greind fjármagnsupphæð frádráttarins hækki úr 12 750 kr. fyrir einstakling upp í 25 000 kr. og hækki samsvar­andi fyrir hjón, þ.e. lagt er til að þetta hámark frádráttarheimildarinnar tæplega tvöfaldist.

Þá gerir frv. einnig ráð fyrir því að frádráttarbær hámarksupphæð sem færð er félagsmanni í samvinnufé­lagi til tekna í stofnsjóð vegna viðskipta hans við félagið hækki úr 5% í 7%.

Kunnara er en frá þurfi að segja að atvinnufyrirtæki á Íslandi hefur mjög skort eigið fé til rekstrar síns. Hefur sáralítið kveðið að því hér á landi að almenningur legði fé til slíks rekstrar enda má segja að skattalög hafi ekki gert þann kost ýkja fýsilegan, auk þess sem almennan markað fyrir slík hlutabréf hefur skort. Í c-lið 4. gr. frv. sem hér er til umr. er að finna rammagrein sem ætlað er að gera það hagstætt fyrir almenning með tilliti til skattálagningar að festa fé sitt í slíkum rekstri og örva þar með eigin fjármyndun og fjárfestingu í atvinnu­lífinu.

Skv. þessari grein er frádráttarbært frá tekjum það fé sem varið er til aukningar í fjárfestingu í atvinnurekstri á tekjuárinu allt að 20 þús. kr. hjá einstaklingi og 40 þús. kr. hjá hjónum. Þessi aukning fjárfestingar þarf þó að fullnægja nánari skilyrðum en um þau skilyrði er fjallað í frv. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri sem ég nefndi áðan og lagt var fram sem fylgifrv. með þessu frv. og kemur hér til umr. síðar. Í því frv. er gert í stuttu máli ráð fyrir fjórum mismunandi tegundum fjárfesting­ar sem fullnægt geti skilyrðum til frádráttarbærni:

1) Myndun bundinna stofnfjárreikninga í bönkum og sparisjóðum sem verja skal til nýmyndunar eigin rekstr­ar síðar.

2) Bein og milliliðalaus fjárfesting í hlutabréfum hlutafélaga þar sem hlutafé er ekki undir 10 millj. kr., hluthafar a.m.k. 100 og viðskipti með hlutabréf eru frjáls.

3) Gert er ráð fyrir frádráttarbærni tillaga í starfs­mannasjóði sem sérstaklega eru myndaðir til kaupa á hlutabréfum í hlutafélögum sem þeim eru tengd.

4) Gert er ráð fyrir frádráttarbærni á fjárfestingu í hlutabréfum í sérstökum fjárfestingarfélögum sem mynduð yrðu til kaupa á áhættufé atvinnufyrirtækja og skuldabréfum þeirra.

Þriðja megintillaga frv. varðandi skattlagningu ein­staklinga hefur einnig þann tilgang að hvetja almenning til fjárfestingar í áhættufé. Lýtur hún að því að við ákvörðun á eignarskattsstofni einstaklinga verði heimilt að draga frá eigin innstæður á stofnfjárreikningum samvinnufélaga og hlutabréfaeign allt að 250 þús. kr. hjá einstaklingi og 500 þús. kr. hjá hjónum. Innan þessara marka gilda þá um þessar eignir sömu reglur og nú gilda um innstæður manna í bönkum og spari­sjóðum.

Ég hef nú stiklað á stóru varðandi efnisatriði og tilgang frv. sem hér er til umr. Ég hef takmarkað umfjöllun mína við meginatriði frv. Mjög nauðsynlegt er að afgreiðslu þessa frv. verði hraðað svo sem kostur er á. Ástæðan er sú að öllum ákvæðum þess öðrum en ákvæðum um frádráttarbærni áhættufjárfestinga er ætl­að að gilda við skattlagningu á þessu ári. Er fyrirtækjum og þeim sem vinna við uppgjör og framtalsgerð því brýn nauðsyn á því að ljóst verði hið fyrsta hvaða reglur gildi um skattalegt uppgjör tekna og eigna ársins 1983. Dragist meðferð málsins hér á hv. Alþingi frekar en orðið er er augljóst að það mun leiða til verulegra erfiðleika í skattkerfinu og hugsanlega svo að áhrif kunni að hafa á það hvort næst að ljúka álagningu skatta á réttum tíma.

Að lokum nokkur orð um áhrif frv. á tekjur ríkis­sjóðs. Um árabil hafa verið vélteknar upplýsingar úr framtölum einstaklinga sem hafa gert mönnum kleift að áætla fjárhagsleg áhrif einstakra brtt. í skattamálum þeirra með nokkurri nákvæmni. Sérstaklega hefur þetta gilt um till. er lúta að breytingum á skattstigum og öðrum þáttum í álagningarútreikningi skattalaganna. Slíkum véltækum upplýsingum hefur ekki verið fyrir að fara varðandi einstaka þætti í skattalegu uppgjöri at­vinnurekstrarins enda er þar um mun flóknari þátt að ræða sem erfitt er að véltaka. Af þessum sökum hefur ætíð reynst erfitt að áætla nákvæm fjárhagsleg áhrif brtt. að því er atvinnureksturinn varðar. Á þetta einnig við um till. þessa frv. Það er því ljóst að frv. þetta mun hafa einhver áhrif til lækkunar varðandi tekjur ríkis­sjóðs þegar til skamms tíma er litið. Sé hins vegar horft til lengri tíma ætti sú lækkun sem í upphafi kann að verða á tekjuskattinum að skila sér að fullu og ríflega það með öflugu atvinnulífi og auknum tekjum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.