27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég tel þennan atburð, innrás Bandaríkjamanna í eyríkið Grenada, vera hörmulegan atburð. E.t.v. vitum við ekki gjörla alla málavexti þar sem fréttaflutningur er óljós en atburður sem þessi hlýtur að vera og verður að teljast hörmulegur hvað sem öllu öðru líður. Mér er ekki kunnugt um það hvort hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, hefur eitthvað rætt við hæstv. utanrrh. um yfirlýsingu hans í Þjóðviljanum sem vitnað var til hér í upphafi þessara umr. en hæstv. utanrrh. hefur hins vegar lýst því hér að málið hafi ekki verið tekið fyrir í ríkisstjórninni en ég vil leyfa mér að taka undir orð hæstv. forsrh. sem höfð eru eftir honum í Þjóðviljanum í dag og fordæma persónulega þessa innrás eins og allar innrásir í sjálfstæð ríki hvar sem er í heiminum.