22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3070 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er nú til umr. hefur hlotið meðferð í hv. Ed. og því fylgir annað frv., sem einnig er á dagskrá þessa fundar í hv. Nd. í dag. Þetta frv. er í rauninni einn veigamesti þátturinn í frumvarpsformi sem fram hefur komið í stefnu ríkisstj. vegna þess að frv. gerir ráð fyrir því að færa í lög mjög þýðingarmikil atriði í stefnu Sjálfstfl.

Það er athyglisvert að einmitt um þessar mundir, á sama tíma og rætt er um að skera niður þjónustu við almenning á vegum ríkisins, leggja skatt á sjúklinga, kemur hæstv. heilbrrh. og mælir fyrir eins konar neikvæðum skatti handa fyrirtækjunum, þ.e. því að fyrirtækin í landinu fái peninga úr ríkissjóði nánast endurgreidda meðan menn sveitast í blóðinu við það í kerfinu þessa dagana að finna leið til að leggja skatta á þá sem þurfa að kaupa hina félagslegu þjónustu í landinu. Þannig er frv. táknrænt. Það er eins og flagg dregið við hún af núv. ríkisstj. Hér er stefna íhaldsins komin í frumvarpsbúningi skýrari en — já, ég vil leyfa mér að halda fram nokkurs staðar annars staðar.

Og það er athyglisvert að þegar kemur að þessu máli er allt látið lönd og leið í sambandi við ríkissjóð og afkomu hans. Það er sagt í ræðu hæstv. ráðh.: Það er erfitt að áætla nákvæm fjárhagsleg áhrif. Það er ljóst hins vegar, sagði hæstv. ráðh., að frv. hefði í fram­kvæmd einhver áhrif til skemmri tíma til lækkunar á tekjum ríkisins. Það kemur sem sagt fram að hér er ekki verið að tíunda hlutina nákvæmlega eins og þegar kemur að hinni félagslegu þjónustu. Hér er sullað upphæðum út úr ríkissjóði til að framkvæma stefnu ofstækisfyllstu stuðningsmanna Sjálfstfl. — Ég veit að vísu að samflokksmenn hæstv. fjmrh. láta sér það margir í léttu rúmi liggja hvernig ríkissjóður kemur út hjá honum um þessar mundir og það er bersýnilega ekki verið að taka tillit til afkomu þjóðarkassans þegar verið er að leggja þetta frv. hér fram.

Hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram nokkur frv. á þinginu í vetur og fékk nokkur frv. afgreidd núna fyrir áramótin. Það hefur ekki verið mikill hraði á þingstörfum að undanförnu, en beðið er um að þetta frv. fái alveg sérstakan forgang vegna þess að það liggi í rauninni líf á að hægt sé að taka tillit til þessa frv. og áhrifa þess, ef samþykkt verður, við álagningu skatta á árinu 1984. Þetta er með öðrum orðum forgangsmálið, hið stóra hugsjónamál íhaldsins í frumvarpsbúningi sem menn leggja ofurkapp á að fá hrint í framkvæmd. Og það er táknrænt fyrir þessa ríkisstj. að hún skuli vera svo smekklaus að láta hæstv. heilbr.- og trmrh., sem er að beita sér fyrir niðurskurði á félagslegri þjónustu, mæla fyrir þessu frv. í fjarveru hins mikla rammasmiðs, hæstv. fjmrh. Það er sláandi um hvaða áherslur þessi ríkisstj. leggur á málin.

Það fylgir þessu frv. engin grg. um hvaða áhrif þetta frv. hefur á afkomu ríkissjóðs, eins og ég gat um. En það er fleira sem vantar. Það liggur ekkert fyrir um það í þessu frv., hvorki í grg. þess né framsöguræðu hæstv. ráðh., hvaða áhrif þetta frv. hljóti að hafa á atvinnu­reksturinn. Hvaða áhrif eru það nákvæmlega sem frv. mun hafa á atvinnureksturinn í landinu? Hvernig mun það efla iðnaðinn í fyrsta lagi, sjávarútveginn, úr­vinnslugreinar landbúnaðarins? Hvernig kemur það fram gagnvart versluninni? Það liggja ekki svo mikið sem fyrir hugleiðingar um það frá hæstv. ríkisstj. hvaða áhrif þetta muni hafa á atvinnureksturinn í landinu. Ég held þó að það hefði átt að vera unnt fyrir ríkisstj. að fá á því eitthvert mat hvaða áhrif svona frv. gæti í framkvæmd haft á atvinnulífið. Ég mun fara fram á það í þeirri n. sem þetta mál fær til meðferðar að Þjóðhags­stofnun og Framkvæmdastofnun, eftirlætisstofnanir ríkisstj., einkum sú síðarnefnda, geri á því ítarlega úttekt hvaða áhrif lög af þessum toga mundu hafa á atvinnureksturinn í landinu. Hvaða áhrif mun það hafa á störf og hvaða önnur áhrif hefur slíkt frv., ef samþykkt verður, á atvinnureksturinn í landinu?

En það er fleira sem hæstv. ríkisstj. verður að svara áður en þetta frv. fer í gegnum þingið. Það er líka spurt: Hvaða áhrif telja menn að samþykkt svona frv. muni hafa á sparifjármarkaðinn í landinu? Hvaða áhrif mun svona frv. hafa á þá hörðu samkeppni sem nú er uppi og harðnandi samkeppni um lánsfé í landinu? Það er alveg greinilegt að ríkisstj. beitir nú svo að segja öllum atvinnugreinum í landinu samanlögðum á sömu milljónirnar. Það er svo grimm samkeppni um fjármuni í landinu þessa dagana að það hefur aldrei verið annað eins. Það er verið að ræða um það í fullri alvöru að lífeyrissjóðirnir hafi betra upp úr því að leggja sitt fé inn á bankabækur, almennar sparisjóðsbækur, en að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, Byggingarsjóði verkamanna og Framkvæmdasjóði. Það er sem sagt búið að gera fjármagnsmarkaðinn þannig að hann er þrengri en nokkru sinni fyrr. Hann er ofbeittur, eins og það var orðað. Auðvitað er samþykkt svona frv. innlegg í baráttuna um spariféð í þessu landi. Það er alveg ljóst. Og það er mát sem líka á að skoða.

Í þessu frv., eins og það liggur hér fyrir, felast stórkostleg fríðindi fyrir ákveðna þætti fjármagnsins í landinu. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að einstakling­ar sem fá greiddan arð af hlutafjáreign, sem njóta þegar nokkurs skattaafsláttar, fái nú um tvöfalt hærri afslátt en verið hefur. Þessi tala, sem hefur verið 12 750 kr., fari í 25 000 kr. hjá einstaklingum og 50 þús. kr. hjá hjónum. Og hverjir eru það sem leggja fé í hlutafjár­kaup af þessum toga? Ætli það séu einstæðar mæður eða einstæðir foreldrar? Ætli það sé iðnverkafólk sem lifir á tekjutryggingunni einni? Þessi tala, sem þarna á að gefa skattfrjálsa, er tvöföld sú tala hjá einstaklingum sem gert er ráð fyrir að tekjutryggingin nemi samkv. því samningsuppkasti sem forseti Alþýðusambandsins og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins hafa undirritað. Tvöföld sú upphæð á hér að vera skattfrjáls þegar kemur að því marki að kaupa hlutafé. Ætli það sé þetta fólk sem á afgang í þessu skyni? Auðvitað ekki. Auðvitað er þetta frv. ekkert annað en liður í þeirri stefnu ríkisstj. að hampa fjármagninu á kostnað fólks­ins, vegna þess að núv. ríkisstj. telur að fjármagnið sé upphaf og endir alls sem gera skal og gera þarf og vinnan og þeir sem hana inna af hendi skipti litlu eða engu máli. Hér er komið að grundvallarátökunum í íslenskum stjórnmálum, grundvallardellunni annars vegar um vinnu og hins vegar um fjármagn. Það er ekki að furða þó að Alþýðusamband Íslands sendi frá sér mjög harðorð mótmæli út af þessu frv. Það segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Greinilegt er að umrædd frv. eru skýrt og markvisst framhald af fyrri ákvörðun stjórnvalda um tilflutning fjár í þjóðfélaginu. Stefnan hvílir öll á þeirri forsendu að fátækur maður, sem fær fé í hendur, sé líklegur til að nýta það í mat, klæði eða annað það sem þjóðfélaginu verður að litlu gagni. Sá ríki, sem lifir í vellystingum praktuglega, sé líklegri til að veita því í þjóðfélagslega nytsama framkvæmd.

Umsögnin er einföld: Tillagan er eðlilegur þáttur í þeirri samfelldu stefnu ríkisstj. að gera þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari. Alþýðusambandið getur ekki gert þá stefnu að sinni.

Reykjavík, 3. febrúar 1984.

Ásmundur Stefánsson.“

Hér er komið að kjarna málsins. Hér er komið að þeim kjarna málsins sem ég gat um áðan varðandi áherslu á fjármuni og fjármagn annars vegar og vinnu og virðingu fyrir þeim sem skapa verðmæti með vinnu sinni hins vegar.

En í öðru lagi, fyrir utan arðinn af hlutafjáreign, er ætlunin að veita mönnum veruleg skattfríðindi út á fjárfestingu í atvinnurekstri. Hjón sem leggja fram 40 þús. kr. til fjárfestingar í eigin atvinnurekstri fá stóran hluta af þessari fjárhæð úr ríkissjóði í formi skattalækk­unar, jafnvel allt að 40% ef þau hafa verulegar tekjur. Sama gildir um kaup á hlutabréfum í stórum hlutafé­lögum svo og um framlög starfsmanna í sérstaka fjár­festingarsjóði, svonefnda starfsmannasjóði, og hluta­bréfakaup í fjárfestingarfélögum.

Í þriðja lagi gerir þetta frv. um fríðindi fyrirtækjanna ráð fyrir því að eignarskattur á hlutabréfaeign verði stórkostlega lækkaður.

Í fjórða lagi er opnuð leið til þess í öllum fyrirtækjum, jafnt þeim sem rekin eru í félagsformi sem í nafni einstaklinga, að leggja 40% af skattskyldum hagnaði ársins til hliðar í svonefnda fjárfestingarsjóði og kemur sú upphæð ekki til skatts á því ári. Þessi heimild kemur í staðinn fyrir núgildandi varasjóðsheimild sem er nú að hámarki 25% af skattskyldum hagnaði og nær aðeins til fyrirtækja í félagsformi.

Í fimmta lagi eru fyrningarheimildir í atvinnurekstri verulega hækkaðar, fyrningarhlutfall véla hækkar úr 12% í 15–20%, skipa úr 8% í 10% og fasteigna úr 2­6% í 2–10%.

Minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. var skipaður fulltrúum allra stjórnarandstöðuflokkanna og niðurstaða minni hl. varð sem hér segir, eins og fram kemur á þskj. 355:

„Við undirritaðir nm. fjh.- og viðskn. Ed. teljum að miklu brýnna væri að bæta kjör lágtekjufólks með breytingum á skattalögum fremur en að veita atvinnu­rekendum enn frekari skattfríðindi. Við leggjum því til að frv. þetta verði fellt.“

Undir þetta rituðu Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ragnar Arnalds og Eiður Guðnason. Og undir þetta sjónarmið tökum við að sjálfsögðu.

Hér er um að ræða frv. sem er gjörsamlega fráleitt að samþykkja miðað við núverandi stöðu hér í þessu landi. Frv. gerir ráð fyrir tilflutningi fjármagns til fjár­magnseigenda frá þeim sem síst skyldi á sama tíma og uppi eru hugmyndir um að leggja skatta á þá sem þjónustunnar njóta á vegum opinberra aðila í þessu landi.

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, mun ég við meðferð málsins óska eftir nokkrum grg. frá opinberum aðilum þannig að það liggi m.a. fyrir hvaða fjárhagsleg áhrif frv. þetta, ef samþykkt verður, mun hafa á hag ríkissjóðs. Ég mun óska eftir upplýsingum um hvaða áhrif frv. þetta, ef samþykkt verður, mun hafa á atvinnulífið almennt og ég mun einnig óska eftir sér­stakri úttekt á áhrifum þessa frv., ef samþykkt verður, á lánsfjármarkaðinn í landinu og sparifjármarkaðinn.

Ég vil að lokum leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. tveggja tæknilegra spurninga:

Í fyrsta lagi varðandi 4. gr. d- lið. Þar er gert ráð fyrir að við 3. málsgr. bætist nýr málsl. er orðist svo: „Útleiga manns á íbúðarhúsnæði telst ekki til at­vinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi í þessu sam­bandi nema því aðeins að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis í eigu hans í árslok nemi 4 millj. kr. eða meiru, ef um einstakling er að ræða, en 8 millj. kr., ef hjón, sbr. 63. gr., eiga í hlut.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því - það gengur ekki fram af þeim gögnum sem hér liggja fyrir - hvernig sú upphæð er fundin sem þarna er miðað við.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðh. þeirrar spurning­ar: Hvernig er ætlunin að framkvæma það ákvæði að íbúðarhúsnæði í atvinnurekstri verði fyrnanlegt? Í grg. frv. á bls. 7 og 8 í þskj. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Íbúðarhúsnæði í atvinnurekstri er ekki fyrnanlegt skv. gildandi lögum. Hefur þetta þótt óeðlilegt. Eru í því sambandi nefndar vistarverur starfsfólks fiskiðju­vera úti um land og íbúðir sem leigðar eru út af félögum eða öðrum í atvinnurekstrarskyni. Lagt er til að á þessu verði breyting, en þó er ekki gert ráð fyrir að íbúðarhús­næði í eigu manna verði almennt fyrnanlegt og eru sett ákveðin mörk í frv. um þetta efni. Eftir þessa breytingu gilda að sjálfsögðu ákvæði 11.–13. gr. laga um tekju­skatt og eignarskatt um söluhagnað af fyrnanlegu íbúðarhúsnæði.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því hvernig ætlunin er að framkvæma þann greinarmun sem þarna á að gera á milli íbúðarhúsnæðis sem er fyrnanlegt annars vegar og þess sem ekki er fyrnanlegt hins vegar. Og ég vit spyrja hæstv. félmrh. að því hvernig ætlunin er að fara með þessar íbúðir gagnvart lögum um Húsnæðisstofnun ríkis­ins. Er gert ráð fyrir að út á þessar íbúðir, sem byggðar eru og verða síðar fyrnanlegar skv. þessum lögum, sé hægt að fá almenn lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins?

Í frv. ríkisstj. um húsnæðismál, sem liggur fyrir hv. félmn., er gert ráð fyrir að félögum verði heimilt að reisa íbúðarhúsnæði, jafnvel til útleigu. Spurningin er þá sú: Er beint samband á milli þessara tveggja frv.? Er gert ráð fyrir að jafnframt því sem fyrirtæki byggi slíkt húsnæði í stórum stíl, 10, 20 eða 30 íbúðir, geti þau hin sömu félög fengið lán úr Byggingarsjóði verkamanna, eins og gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj., en um leið verði það íbúðarhúsnæði fyrnanlegt, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.? Það er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir því hvaða tengsl eru á milli þessara tveggja frv. hennar.

Hv. formaður félmn. Nd., 1. þm. Suðurl., hefur frv. um húsnæðismál nú til meðferðar og sé ég að hann er einn af höfundum þessa frv. þannig að það kann að vera að hérna sé beinlínis kominn partur af húsnæðisstefnu ríkisstj. í grg. á bls. 7 og 8 í þskj. 230.

Ég tel óhjákvæmilegt, herra forseti, að þessum tæknilegu spurningum verði einnig svarað áður en umr. lýkur, en ég endurtek: Þetta frv. er fyrst og fremst til marks um þá áherslu sem núv. ríkisstj. leggur á að fjármagnið hafi allan forgang umfram vinnuna og þá sem verðmætin skapa í þessu landi.