23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Alþb.-menn hafa verið mjög reiðir hér í dag. Þeir hafa flutt hverja stríðsræðuna eftir aðra og skammað ríkisstj. og vinnu­veitendur fyrir þá samninga sem búið er að gera. Þeir samningar hefðu aldrei verið gerðir ef Ásmundur Stefánsson hefði ekki skrifað undir þessa samninga. Hvern eru þeir þess vegna raunverulega að skamma?

Þeir eru fyrst og fremst að skamma forseta ASÍ, Ásmund Stefánsson, blóðugum og miskunnarlausum skömmum, svo miskunnarlausum að það má merkilegt heita að mönnum detti í hug að taka hann ekki heldur fyrir á heimavelli og ræða við hann en að velja þingsalina til þess þar sem hann á enga möguleika til að verja sig. Þetta er athyglisvert.

Hvað er það sem gerir þá svona rosalega reiða? Jú, þeir hafa alllengi haldið fram ákveðinni kenningu. Ekki er hægt að stjórna landinu án okkar þátttöku. Þetta er búið að glymja í eyrum alveg miskunnarlaust. En til þess að þetta dæmi gengi upp þurftu þeir menn sem eru í lykilstöðum Alþb. í verkalýðshreyfingunni að hlýða Svavari Gestssyni, hv. 3. þm. Reykv., en þeir gerðu það ekki. Vegna þess að þeir hlýddu ekki tryllist liðið í dag.

Spurningin er aðeins þessi: Sveik forseti ASÍ Alþb. eða sveik hann alþýðu landsins sem hann var fulltrúi fyrir? Annað hvort hefur gerst. Það liggur ljóst fyrir skv. þeirri túlkun sem foringjar Alþb. hafa haldið hér uppi í dag. Þess vegna er fróðlegt að heyra hvað hann sjálfur hefur um þetta mál að segja í Þjóðviljanum þar sem hann er spurður og örlítið af efni blaðsins, mjög lítil klausa, er notuð til að koma á framfæri sjónarmiðum forseta ASÍ. Það er ekki mikið rúm í blaðinu sem fer í að koma þessum sjónarmiðum Ásmundar Stefánssonar á framfæri. Það er engin mynd höfð við hliðina af honum. En með leyfi forseta vil ég lesa það sem hann segir:

„Við hrópum ekki húrra fyrir þessum samningum. En það var mat okkar að þessi kostur væri betri en að efna til átaka á vinnumarkaðinum. Ég vil taka það fram að þessi samningur felur ekki í sér mat á hinum réttmæta hlut launafólks í þjóðartekjunum að okkar mati. En hann á að tryggja óbreyttan kaupmátt frá síðasta fjórðungi ársins 1983,“ sagði Ásmundur Stefáns­son á blaðamannafundi í gær. „Þá er hér gerð alvarlegri tilraun en áður hefur verið gerð til þess að rétta hlut þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu sérstaklega.“

Hann fullyrðir að verið sé að gera alvarlegri hluti en áður hafi verið gerðir til að rétta hlut hinna verst settu í þjóðfélaginu. Þetta eru athyglisverð tíðindi. Skyldi þá ekki fjmrh. sem situr yfir því tafli að koma þar inn í málin vera fulltrúi Alþb. í þingsölum? Merkilegt er að sú úttekt skuli vera gerð á störfum fyrrv. fjmrh. og þess sem nú er að forseti ASÍ lýsi því blákalt yfir að núna sé verið að gera alvarlegri tilraun en áður. Þetta eru stórar fréttir. Er þetta e.t.v. skýringin á því hvers vegna skothríðin á hæstv. fjmrh. hefur verið slík hér í húsinu í dag að það er eins og það sé grundvallaratriði að koma honum úr stólnum? Er það þessi samanburður á fjármálatíð hans og forvera hans í starfi, hvað viðhorf til láglaunafólksins í landinu snertir, að skothríðin er svona hörð?

Hver man ekki eftir samningum hæstv. fyrrv. fjmrh., Ragnars Arnalds, við læknastéttina? Var það viðhorfið til láglaunafólksins sem þar birtist? Ætli það hafi ekki verið láglaunafólkið sem fékk að borga? Það eru nefnilega stórir hlutir sem hér eru sagðir. Ég hygg að menn megi hugleiða í fullri alvöru að verið er að gera alvarlegri tilraun til að rétta hlut láglaunafólksins en áður hefur verið gert. Það hefur nefnilega yfirleitt ekki tekist, öll hækkun hefur farið upp í gegnum launastig­ana. Þannig hefur ástandið verið þegar við höfum áður glímt við þessi mál.

En hvert er álit formanns Alþb. á því sem verið er að gera? Einnig er farið út í að hafa viðtal við formanninn og spyrja hann ráða til að hafa alveg á hreinu hver stefnan eigi að vera, hvað fólkið í verkalýðsfélögunum, sem fer til að greiða atkvæði um þessa samninga, eigi að gera. Línan verður að vera skýr frá Moskvu, það dugar ekkert rusl í þessum efnum. Ekki dugar að Ásmundur Stefánsson segi fyrir um það hvað eigi að gera. Nei, línan verður að koma frá manninum sem hefur valdið. Myndastyttan er sett á stall og, það sem meira er, hann er ekki hafður í jakkanum en skyrtan er hvít og bindið á sínum stað. Það er breytingin sem varð miðað við verkalýðsforingjana, miðað við þær myndir sem við höfum áður séð.

Og hvað segir svo foringinn? Með leyfi hæstv. for­seta: „Hér er teflt á ystu brún með kjör verkafólks og einingu verkalýðssamtakanna. Niðurstaða mín er því sú að nú þurfi að leggja allt kapp á að ná annarri samningsniðurstöðu sem tryggi í sér enn betri kjör verkafólks og treysti fremur einingu þess en mér sýnist þessi samningur gera,“ sagði Svavar Gestsson formaður Alþb. m.a. er Þjóðviljinn leitaði álits hans á samkomu­lagi ASÍ, VSÍ og ríkisstj.

Ekki fer á milli mála að Ásmundur Stefánsson hefur brugðist. Hann er ekki nógu góður til að stýra þessum málum. Það verður að fara í bakvarðarsveitirnar, það verður að fara til verkalýðsins sjálfs, setja nýjan á stall og fylkja liðinu aftur. Það er ekki jarðfræðimenntun sem sá maður hefur sem samdi fyrir hönd verkalýðsins. Ég hygg að ég muni það rétt að hann sé hagfræðingur að menntun. En það má vel vera að þegar svona ákvarðanir eru teknar, sem er leiðsögn hv. formanns Alþb. Svavars Gestssonar, fari svo að þeir sem hafa lært jarðfræði standi honum nær í túlkun en þeir sem hafa kynnt sér hagfræði.

Hv. þm. Svavar Gestsson hefur staðið lengi í stólnum í dag og engu að síður hefur hann ekki komið öllu á framfæri sem hann vildi sagt hafa. Ástæðan er sú að erfitt er að ætla að halda því fram hér að forseti ASÍ hafi brugðist sínum umbjóðendum. Það er erfitt verk, það gengur ekki upp að láta það komast til skila á skiljanlegri íslensku ef rökfræði er notuð. Þess vegna standa málin þannig að hinn almenni verkamaður hefur fengið fyrirmælin um að fella samningana.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefur oft staðið í stríði við gáfumannafélagið í Alþb. En að þessu sinni reyndist gamli maðurinn merkilega klókur. Hann ákvað að bíða. Gott og vel. Ef hinir spjöruðu sig ætlaði hann ekki að láta taka sig einan fyrir eins og oft hefur verið gert og ráðast á sig fyrir að hann hefði brugðist foringjanum, hv. 3. þm. Reykv., að þessu sinni. Hann ákvað að bíða. Nú stendur hann aftur á móti frammi fyrir því vali hvort hann með sinni afstöðu ætlar að koma í veg fyrir alvarlegri tilraun en áður hefur verið gerð til að rétta hlut láglaunafólksins í landinu. Ætlar hann að koma í veg fyrir það? Það er það val sem hv. þm. og verkalýðsforingi, Guðmundur J. Guðmunds­son, stendur frammi fyrir.

Vissulega er erfitt að þjóna tveimur herrum. En það kemur mér mjög á óvart ef hann í þessari stöðu tekur ekki þá ákvörðun að bíða enn, athuga hvort fyrirmælin sem hafa farið á prent á Þjóðviljanum um að fella samningana verða virt í verkalýðsfélögunum úti um landið. Ef þau verða ekki virt og menn samþykkja að taka þátt í því sem er alvarlegri tilraun en nokkurn tíma áður til að rétta hlut láglaunafólksins í landinu er ekkert vafaatriði hvað Guðmundur J. telur að rétt sé að gera gagnvart sínum umbjóðendum. Þess vegna hafa foringj­ar Alþb. í dag hellt úr skálum reiði sinnar vegna þess að þeir óttast að kjörorðið sem þeir hafa notað, „það er ekki hægt að stjórna þessu landi án okkar þátttöku“, verði blekking. Þeir óttast að þeir menn sem bera ábyrgð á kjörum fátæks fólks telji það nær sínum trúnaði að standa þannig að málum að velja þann kost sem þeir telja bestan fyrir það en telji að hitt verði að vera víkjandi hvort það sé alveg í samræmi við stefnu foringja Alþb.