27.02.1984
Efri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

63. mál, sjóntækjafræðingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft þetta frv. til l. um gler­augnafræðinga til umfjöllunar síðan síðla á haustdögum. Nefndin hefur haft samband við Apótek­arafélag Íslands. Jafnframt hefur verið leitað upplýs­inga hjá Ingimar Sigurðssyni deildarstjóra í heilbr.- og trmrn. varðandi þetta mál, en hann var formaður nefndarinnar sem samdi þetta frv.

É.g þarf ekki að taka það fram hversu brýnt er að lögfesta starfsréttindi fjölmargra starfshópa í þjóðfé­laginu, enda hefur það verið gert á undanförnum árum.

Allir nm. rita undir þetta nál. Það var einhugur um málið. En á sérstöku þskj., þskj. 375, eru brtt. við frv. 1. brtt. er á þann veg að nefndin leggur til að í stað heitisins gleraugnafræðingur komi: sjóntækjafræðingur. Þessi breyting á fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að mönnum þótti gleraugnafræðingur heldur þröngt heiti, þrengra en heitið sem varð ofan á í þessari umfjöllun, þ.e. sjóntækjafræðingur.

2. brtt. er á þá lund að í 4. gr. komi á eftir orðunum „ótakmarkað starfsleyfi“: að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr. Þessi breyting varðar fyrst og fremst leyfisveitingu á grundvelli starfsreynslu, og sú leyfisveiting verður í höndum ráðh. eins og gert er ráð fyrir í frv., en einnig þarf til að koma umsögn sömu aðila og nefndir eru í 2. gr. frv.

3. brtt. er ekki stórvægileg. Þar gerum við ráð fyrir að 6. gr. orðist á þessa lund: heimilt er að ráða til hvers konar sjóntækjafræðistarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi skv, lögum þessum.

Í fjórða og síðasta lagi leggjum við til að heiti frv. breytist og verði frv. til l. um sjóntækjafræðinga.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að fjalla um þetta frekar. Eins og ég sagði var einhugur um þessa málsmeðferð í nefndinni.