28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3244 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

151. mál, fylgirit með ríkisreikningi

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hvernig skiptast eftirfarandi tveir liðir milli kynja (samkvæmt fjölda og fjárhæð) í fylgiriti með ríkisreikningi fyrir árið 1982:

a) föst yfirvinna

b) starfsmannabílar?

Sundurgreina skal þessar upplýsingar samkvæmt ráðuneytum og stofnunum, sé þess kostur.

2. a) Hverjar eru launagreiðslur, bifreiða-, risnu- og ferðakostnaður þeirra stofnana sem taldar eru upp í skýringum ríkisbókhalds í fylgiritinu, tl. 6?

b) Eru þessar stofnanir undanþegnar þeirri upplýsingaskyldu sem kveðið er á um í lögum nr. 31/1982, um breyting á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreikninga og fjárlaga, nr. 52/1966?

Skriflegt svar óskast.

Svar við 2. tölulið a)

Upplýsingar um þau atriði, sem talin eru upp í a lið, liggja ekki fyrir í ríkisbókhaldi.

Svar við 2. tölulið b)

Aðilar, sem skiluðu ekki ríkisbókhaldi upplýsingum í fylgirit með ríkisreikningi fyrir árið 1982, voru níu að tölu. Af þeim hafa fjórir ekki skilað ársreikningum til ríkisbókhaldsins á liðnum árum. Þeir telja starfsemina ekki falla undir ákvæði laga um stofnanir og fyrirtæki ríkisins. Í samræmi við þá afstöðu skiluðu þeir ekki upplýsingum í fylgiritið. Þeir eru: Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins, Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands ásamt Veiðistjóra.

Tveir aðilar, Síldarútvegsnefnd og Brunabótafélag Íslands, hafa haft hliðstæða afstöðu. Þeir hafa þó skilað ríkisbókhaldi ársreikningum sínum og hafa þeir verið birtir í ríkisreikningi. Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða skila ársreikningum til birtingar en þessum sérstöku upplýsingum í fylgiritið fyrir árið 1982 skiluðu þeir ekki. Skálholtsskóli skilaði hvorki ársreikningi fyrir árið 1982 né þessum sérstöku upplýsingum.

Eins og að framan greinir telja sex af þessum níu aðilum starfsemi sína ekki falla undir ótvírætt ákvæði laga um stofnanir og fyrirtæki ríkisins, en þrír skiluðu ekki umbeðnum upplýsingum án þess að slík afstaða kæmi fram.