29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

182. mál, umferðarlög

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vil taka undir umr. um víðtækar aðgerðir til varnar umferðarslysum. En ég verð að láta í ljós það álit mitt vegna reynstu af miklum akstri um allt land, á þjóðvegum sem í þéttbýli, að mér finnst hægt að treysta fólki fyrir þessum þáttum í akstrinum. Mér finnst óþarft að setja lögboð sem slíkt á bifreiðastjóra þessa lands. Ökumenn sýna mikla tillitssemi um allt land í umferðinni varðandi notkun ljósa. Það á við bæði í þéttbýli sem strjálbýli. Mér finnst virðingarvert hvað ökumenn eru fljótir að kveikja ljós þegar þess er þörf. Það eru sem betur fer margir bjartir dagar í okkar landi og engin ástæða til að kveikja ljós á bifreiðum þá. Mér finnst að þarna eigi fólk að velja sjálft. Ég tel ástæðu til að treysta því til þess. Þetta finnst mér grundvallaratriði í málinu.