29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í framhaldi af ákvörðun fiskverðs nú fyrir skömmu og vegna hinnar alvarlegu stöðu varðandi .afla á þessu ári hefur þótt nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir í sjávarútvegi. Er þetta frv.flutt vegna þess í því skyni að lækka útflutningsgjald af saltfiski sem er framleiddur á árinu 1984, en þessi útflutningsgrein hefur átt við mikla erfiðleika að etja upp á síðkastið. Og það er augljóst að þeir erfiðleikar verða einnig á árinu 1984, eins og glöggt kemur fram í áætluðu rekstraryfirliti frystingar og söltunar í febrúar 1984 eftir að fiskverðsákvörðun fór fram.

Ég vil einnig taka það fram að lækkun á útflutningsgjaldi af saltfiski er í reynd forsenda þess að það tókst að ná samkomulagi um fiskverð. Þeir aðilar sem standa í forsvari fyrir þessari útflutningsgrein fóru þess á leit að útflutningsgjald yrði lækkað verulega og minna gjarnan á það, að hér áður fyrr var afkoma þessarar greinar mun betri og þá var gripið til þess ráðs að hækka útflutningsgjald á saltfiski og skreið. Var því mun hærra útflutningsgjald af þessum greinum en af freðfiski.

Það er að mínu mati mjög óæskilegt að slík mismunun eigi sér stað. Hins vegar verður það að viðurkennast að þessi grein á við sérstök, vonandi tímabundin, vandamál að stríða og þess vegna eðlilegt að taka tillit til þess. Hér er þó ekki um mikla lækkun að ræða, aðeins 1.5% af framleiðslu ársins 1984 sem nemur 38 millj. kr. Eftir sem áður mun þessi grein útflutnings eiga við mikinn hallarekstur að stríða og ekki er fyrirsjáanlegt hvernig henni muni takast að brúa það. Hins vegar má gera ráð fyrir því að söltun á fiski muni dragast saman og aukin áhersla verði á frystingu. Nú þegar má sjá þess mörg merki.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langt mál um þetta einstaka frv. það skýrir sig sjálft og er einfatt að gerð. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.