01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3338 í B-deild Alþingistíðinda. (2864)

111. mál, áfengt öl

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni gamalt mál í nýjum umbúðum, þ.e. flutningsmenn þessa máls leggja ekki á það höfuðáherslu lengur að þeir vilji fá áfengt öl inn í landið eða það verði framleitt hér heldur hitt að þjóðin skuli láta í ljós álit sitt í almennri atkvæðagreiðslu. Ef það er hugleitt að almenn atkvæðagreiðsla kemur að sjálfsögðu til greina um þetta mál eins og annað hljótum við fyrst að spyrja hvort málið sé svo mikilvægt að eðlilegt sé að það sé tekið upp í almennri atkvæðagreiðslu. Væri þá t.d. ekki fróðlegt að fá það upp í almennri atkvæðagreiðslu hvort mönnum finnst ekki eðlilegt að ef menn vinna sömu störf hlið við hlið beri þeim sama kaup? Ég er hér um bil viss um að það lægi alveg ljóst fyrir.

En það er athyglisvert að varaformaður Sjálfstfl. hefur hér umr. um bjórinn sem þjóðarnauðsyn á eftir umr. utan dagskrár um það atriði sem ég vék að áðan og hleypti greinilega þó nokkrum hita í marga hér í salnum. Ég vil byrja á að segja að mér sýnist að hugmyndir um beint lýðræði, á þann hátt að þjóðin segi álit sitt í almennri atkvæðagreiðslu eigi varla mjög mikla framtíð. Á Vesturlöndum er búið að gera ýmsar tilraunir til að leysa þetta á auðveldari hátt með skoðanakönnunum og það væri miklu nær undir öllum svona kringumstæðum, að mínu viti, að setja lög um skoðanakannanir og beita þeim svo miklu oftar til að átta sig á þjóðarvilja en að taka upp þá almennu reglu að demba mjög mörgum málum inn í almenna atkvæðagreiðslu.

En e.t.v. er hugsunin á bak við þetta á þann veg að þar sem ekki hafi tekist að koma þessu máli í gegnum þingið nú um alllangan tíma og þm. almennt talið önnur mál merkari beri nú að fara þá leið að leggja höfuðkapp á að fá fram almenna aðkvæðagreiðslu um áfengt öl. Ég hygg að sú kenning sem kom hér fram hjá flm., hv. 2. þm. Reykv., að aðalatriðið væri að draga úr eftirspurninni og með því móti ætti að takmarka áfengisneyslu reyndar minntist hann á fræðslu í skólum og margt fleira — sé vissulega rétt svo langt sem hún nær. Hins vegar mun það samt vera svo að fordæmið skiptir þar mestu máli og það er athyglisvert sem Einstein sagði um uppeldið þegar hann var spurður hvað skipti þar mestu máli. Hann sagði að það væri í fyrsta lagi fordæmið, í öðru lagi fordæmið og í þriðja lagi fordæmið.

Ef við höfum fylgst með þeim áhrifum sem sjónvarp og kvikmyndir hafa haft á venjur manna, m.a. glæpahneigð, fer ekki á milli mála að fordæmið er mjög mótandi í allri samfélagslegri hegðun. Ég er sannfærður um að ef Alþingi Íslendinga fer að leggja áherslu á áfengt öl sem einhvern bjargvætt fyrir þessa þjóð mun æska þessa lands að sjálfsögðu taka mið af því. Fyrst þm. telji svo mikilvægt að ölið sé bruggað og selt hljóti þeir að hafa gert ráð fyrir því að það yrði drukkið. Mér finnst dálítið mikil einfeldni í því annars vegar að leggja áherslu á frelsið varðandi söluna og varðandi það að brugga ölið ef menn vilja svo í sömu ræðu leggja áherslu á það hvernig þeir ætli að koma í veg fyrir að of mikið sé í umferð af þessari vöru með þeirri kenningu að draga eigi úr eftirspurn.

Ég sé fram á það að þetta mál mun að sjálfsögðu koma til allshn. Þar er allmikið af málum fyrir og að sjálfsögðu mun n. gefa sér tíma til að skoða þetta mál vel og vandlega þegar þar að kemur. En ég vænti þess að þingheimur geri sér grein fyrir því að hérna er raunverulega gerð tilraun til að fara inn um hliðardyr af því að aðaldyrnar voru lokaðar.