06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

434. mál, jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. beinir tveimur fsp. til mín, í fyrra lagi hvaða niðurstöður liggi fyrir um jarðhitarannsóknir við Grafarlaug í Dalasýslu sem framkvæmdar voru s. l. haust og hvort þeim rannsóknum verði haldið áfram á þessu ári.

Við því er það að segja að við Grafarlaug í Miðdölum var haustið 1983 boruð fyrir framlag úr Orkusjóði 170 metra djúp rannsóknarhola. Byrjað var á annarri holu en henni varð ekki lokið áður en ófært varð á borstað vegna snjóa. Lokið verður við borunina strax og fært verður á staðinn aftur. Ekki er tímabært að draga ályktanir af þessum rannsóknum fyrr en þeim er lokið, en það verður nú í vor eða sumar.

Í öðru lagi spyr hv. 1. þm. Vesturl. hver sé áætlun Orkustofnunar um jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi. Þar er skemmst frá að segja að Orkustofnun hefur ekki uppi áætlanir um verulegar jarðhitarannsóknir á Snæfellsnesi á árinu 1984. Varðandi þéttbýlisstaðina norðan á nesinu er ekki ástæða til bjartsýni um hitaveitu, því miður, miðað við niðurstöður af jarðhitaleit sem fram fór á árunum 1975–1981 og fól m. a. í sér alldjúpar rannsóknarboranir nálægt Grundarfirði og Stykkishólmi sem kostaðar voru af Orkusjóði. Vitað er um jarðhita á einum stað norðan á nesinu í sjó fram undan Berserkseyri. Einna helst mætti hugsa sér að sá jarðhiti gæti nýst Grundfirðingum í tengslum við brúargerð yfir Kolgrafarfjörð, sem hins vegar er ekki á döfinni. Hagkvæmni slíkrar hitaveitu hefur verið skoðuð og liggur fyrir grg. þar um í skýrslu um húshitunaráætlun frá Orkustofnun á bls. 21–25, þar sem fjallað er um hitaveitu fyrir Stykkishólm og Grundarfjörð.

Öll þessi sjónarmið eru héraðsbúum vel kunn og voru m. a. rækilega kynnt og rædd á fjölmennum fundi sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi efndu til í Stykkishólmi vorið 1982.

Á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Hnappadal er jarðhiti á nokkrum stöðum. Má þar nefna Lýsuhól, Kolviðarneslaug og Landbrotalaug við Hafnfjarðará. Á einum þessara staða, Lýsuhóli, er lokið rannsóknum til undirbúnings borunar. Hagkvæmniáætlanir hitaveitu frá Landbrotalaug á nálæga bæi í Hnappadal og Kolbeinsstaðahreppi eru í vinnslu hjá jarðhitadeild Orkustofnunar. Hitaveitulögn frá Kotviðarneslaug á nálæga bæi hefur verið athuguð en virðist óhagkvæm. Um frekari rannsóknir og boranir á þessu svæði fer eftir áhuga þeirra nýtingaraðila sem fyrir eru á hverjum stað.

En ég vil svo að lokum segja í þessu sambandi að ég hef áhuga á og mun beita mér fyrir jarðhitarannsóknum á þessu svæði.