06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3422 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

189. mál, fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Bragi Michaelsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er á ferðinni, þ. e. að koma á fót fríiðnaði hér á landi, er góð hugmynd. Öll viðleitni okkar til að stuðla að auknum atvinnumöguleikum, hvort sem er á Suðurnesjum eða annars staðar hér á landi, hlýtur að vera ofarlega í hugum þm. um þessar mundir þegar sjávarútvegurinn skilar ekki lengur þeim arði til þjóðarbúsins sem hann hefur gert að undanförnu. Fríiðnaður hlýtur að vera eitt af því sem við lítum til. Ég tek undir það með hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni að Suðurnes eru álitlegt svæði í þeim efnum vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll og hafnarsvæði, bæði í Straumsvík annars vegar og Keflavík hins vegar. Þá er og mjög stutt til Reykjavíkurhafna eftir að Reykjanesbraut hefur verið lögð, og þar af leiðandi allir möguleikar til að koma þessari vöru á alþjóðlegan markað mjög góðir.

Eins og vikið er að í till. eru nú að koma á vinnumarkaðinn hér á landi stórir hópar ungs fólks sem stundar nám. Þetta unga fólk hefur aflað sér þekkingar á erlendum vettvangi, bæði á sviði tækni og iðnaðar, sem getur rennt fleiri stoðum undir að unnt verði að koma hér á fót iðnaði sem ekki hefur verið fyrir hendi. Ég veit einnig að hér hafa verið fyrirtæki, sem hafa flutt vöru á erlendan markað, sem mundu án efa vilja hafa starfsemi sína á fríiðnaðarsvæði, t. d. í Keflavík. Alla möguleika á þessu sviði hljótum við að skoða alvarlega þegar til lengri tíma er litið.

Ég tek undir það að Suðurnes eru ákjósanlegur staður fyrir fríiðnað.