06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3423 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

189. mál, fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Af því að ég er meðflutningsmaður að þessari till. tel ég mér skylt að gera örlitla grein fyrir mínum skoðunum í þessu máli, sérstaklega vegna orða hv. 7. landsk. þm.

Ég hef alltaf litið á þessa fríiðnaðarhugmynd sem möguleika sem hægt væri að beita víðs vegar um landið, ef góð raun hlýst af, og styð þessa till. einfaldlega vegna þess. Hún er áður fram komin og hefur hlotið nokkuð ítarlega meðferð hér á þingi. f tilviki Keflavíkurflugvallar og reyndar einnig Straumsvíkur er hægt að benda á ákveðin skilyrði sem ákjósanleg væru og hægt væri að ganga að vissum aðstæðum gefnum, en frekari reynsla þyrfti að skera úr um hvar væri hugsanlega hægt að koma upp slíkum svæðum annars staðar í kringum landið.

Það sem einnig vakir fyrir með hugmyndum sem þessum er að sú andstaða sem þær hafa mætt hingað til virðist nær eingöngu byggjast á ákveðinni bölsýni eða vantrú á að þetta sé hægt, án þess að menn hafi nein endanleg rök fyrir því fram að færa. Þvert á móti er hægt að benda á að svona starfsemi gengur allvel víðs vegar í veröldinni og alls ekki úr vegi, langt í frá, heldur mjög ákjósanlegt að kanna hvort ekki er möguleiki á slíkri starfsemi hér á landi. Ef við Íslendingar eigum eftir að ganga líka vegu og nágrannar okkar megum við búast við því að ef ekkert verður að gert til að undirbúa framtíðina beri okkur einhvern tíma upp á það sker að hér verði orðið atvinnuleysi sem að kveður. Því ber okkur hreint og beint skylda til að koma í veg fyrir með fyrir fram undirbúnum aðgerðum að slíkt ástand geti nokkurn tíma skapast hér á landi. Þó að það stuðli hugsanlega að einhvers konar þenslu á vinnumarkaði, sem margir telja af hagrænum ástæðum frekar óheppilega, er sú þensla mörgum sinnum betri en það böl sem af atvinnuleysi getur hlotist.