06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3425 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

189. mál, fríiðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, einkum út af þeirri ræðu sem hv. 7. landsk. þm. hélt áðan. Mér fannst þar gæta nokkurs misskilnings. Í fyrsta lagi held ég að það sé í eðli slíkra fríiðnaðarsvæða að þau eru yfirleitt, þar sem þeim er komið á fót, staðsett við stór og yfirleitt alltaf alþjóðleg samgöngumannvirki, annaðhvort flugvelli eða hafnir. Það er í eðli þeirrar starfsemi sem þarna er ætlast til að fari fram. Þess vegna er ákaflega eðlilegt að hér sé gerð till. um að rannsaka hvort hagkvæmt sé að koma á fót slíku svæði við Keflavíkurflugvöll þar sem slíkt svæði, eins og háttar í dag, væri áreiðanlega best komið.

En svo er annað, herra forseti, sem mér þykir afskaplega einkennilegt og vildi helst fá skýringu á hér og nú. Ég minnist þess að í síðustu kosningabaráttu töluðu frambjóðendur Samtaka um kvennalista hart gegn stóriðju, sögðust vilja hvers konar smáiðnað. Hér er verið að flytja till. um að fara nýjar og mjög athyglisverðar leiðir til að laða hingað smáiðnað og byggja upp smáiðnað á Íslandi af ýmsu tagi og kannske iðnað í allstórum mæli líka, en enga stóriðju. Þá kemur þm. Kvennalista í þennan ræðustól og finnur þessari till. — ég segi ekki allt til foráttu, en ýmislegt er við hana að athuga. Nú spyr ég: Er það svo að þm. Samtaka um kvennalista séu alfarið á móti iðnaði? Í kosningabaráttunni börðust þessir frambjóðendur gegn stóriðju og hafa talað gegn stóriðju á hinu háa Alþingi. Nú kemur fram till. um eflingu smáiðnaðar og þá er líka snúist gegn henni. Er kannske hinn gamli pólitíski málflutningur endurvakinn í Kvennalistanum um að vera á móti tillögu af því að einhver annar er með hana? Þetta þykir mér svolítið furðulegt, herra forseti.

Svo vildi ég aðeins að lokum geta þess að mér þykir þess hafa gætt í vaxandi mæli hér í allan dag að þm. fylgi ekki 35. gr. þingskapalaga og vænti þess að forseti geri ráðstafanir þær sem þarf í þeim efnum.