12.03.1984
Efri deild: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3635 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

134. mál, alþjóðasamningar um varnir gegn mengun frá skipum

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Tilefni þessa frv. er þáltill. sem samþykkt var á Alþingi á s. l. ári um staðfestingu alþjóðasamnings um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 og bókunar frá 1978. Frv. sama efnis var flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Um ítarlega grg. fyrir frv. þessu skal vísa til athugasemda við þáltill. og einnig athugasemda um þetta lagafrv.

Með þáltill. voru tvö fskj., Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum 1973 og viðbótarbókanir varðandi hann frá 1978. Þetta frv., ef að lögum verður, er hugsað sem heimild til þess að unnt sé að framfylgja samningnum um varnir gegn mengun frá skipum. Einnig er ætlunin að lögin geri kleift að staðfesta breytingar á samningnum, svo og aðra samninga um sama efni sem kunna að verða gerðir.

Í viðauka við samninginn eru allítarlegar reglur um varnir gegn mengun frá skipum. Flestar þeirra snerta ekki íslenska skipaflotann nema að mjög litlu leyti en rétt þykir að fara þá leið hér að setja reglur um þau atriði sem geta varðað íslensk skip sérstaklega og til þess að geta fylgt ákvæðum samningsins og bókunarinnar gagnvart erlendum skipum í íslenskri lögsögu.

Þá má einnig geta þess í þessu sambandi að fram kemur að innan efnahagslögsögunnar hafi Ísland lögsögu að því er varðar verndun hafsins.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. samgn.