13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3669 í B-deild Alþingistíðinda. (3077)

424. mál, notkun sjónvarpsefnis í skólum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það vinni mjög gegn eðlilegri framþróun þessara mála hvernig staðið hefur verið að samningum um höfundarrétt í landinu. Það er ekki rétt að mínu viti að standa þannig að málum að ef Ríkisútvarpið kaupir einhvern þátt og hefur flutningsrétt á honum eigi endalaust að vera hægt að heimta greiðslur ef viðkomandi þáttur er sýndur. Það er meginregla hér á landi að greiða mönnum einu sinni kaup fyrir það sem þeir vinna. Ef ríkisvaldið hefur borgað fullar greiðslur fyrir ákveðna vinnu, sem innt hefur verið af hendi, vil ég líta svo á að það eigi þá vinnu. Ég tel mjög óeðlilegt að þetta tvöfalda greiðslukerfi standi í vegi fyrir því að hægt sé að nota það efni, sem er í sjónvarpinu, í skólum landsins.

Mér er fullkomlega ljóst að það eru margir alikálfar í þessu landi sem vilja viðhalda þessu kerfi og vilja standa þannig að málum að þeir séu að mjólka þegnana endalaust ef ákveðið efni er notað. En það er spurning hvort við eigum sérstaklega að stuðla að því að tryggja að höfundarrétturinn sé eins og þarna er verið að leggja til og verið hefur í framkvæmd, hið eina rétta í þjóðfélaginu. Ég hef ekki orðið var við, þegar teknar eru og slitnar í sundur athugasemdir stjórnmálamanna og birtar í dagblöðum landsins, að við fáum einhverjar greiðslur fyrir höfundarrétt. Það er kannske rétt að fara að stefna blöðunum og heimta af þeim stórfé fyrir höfundarrétt í þessum efnum. En það hlýtur að vera spurning, herra forseti, hvort það er til farsældar að geyma jafnmikið af þörfu efni eins og til er hjá Ríkisútvarpinu og sjónvarpi og koma í veg fyrir að það sé notað í skólum landsins. Ég tel það alveg fáránlegt.