13.03.1984
Sameinað þing: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3676 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

185. mál, greiðslur ríkisfyrirtækja til Vinnuveitendasambandsins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Út af spurningu hv. þm. Svavars Gestssonar get ég tekið það fram að ekki var gerð nein sérstök ályktun um þetta mál í þingflokki Framsfl., enda kom það ekki fram í máli forsrh. áðan. En það var greint frá þessu máli í þingflokknum og komu ekki fram alvarlegar aths. eða mótmæli við málinu. Ég tel að það sé skynsamlegt fyrirkomulag að launþegar hafi sem víðtækast samflot í kjarasamningum og jafnframt viðsemjendur þeirra. Slíkt er líklegra til að stuðla að samræmdri launastefnu í landinu og líklegra til þess að stuðla að launajöfnuði því að hann er af hinu góða. Með aðild sinni að VSÍ öðlast umrædd opinber fyrirtæki náttúrlega áhrif innan VSÍ.