14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3734 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er þetta mál búið að fara í gegnum hv. Ed. og hefur fengið afgreiðslu þar. Ég tek undir með hv. 3. þm. Reykv. að mig undrar nokkuð að meiri hl. á Alþingi skyldi ekki geta fallist á þær brtt. sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Ed. lögðu fram við þetta frv. Ég sé ekki neitt í þeim annað en jákvætt í þá átt að koma fram raunhæfari úttekt á því sem hér er um að ræða. Ég vænti þess að þingmeirihlutinn í Nd. verði víðsýnni en efrideildarmeirihlutinn virðist hafa verið í þessu sambandi og menn taki tillit til þess sem lagt hefur verið til í brtt. á þskj. 434 í hv. Ed.

Ég skal ekki, herra forseti, halda langa ræðu um frv. Það kemur fram í fskj. frá Ed. að miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur ekki ástæðu til að setja sig upp á móti því að hinn nýi grundvöllur verði tekinn upp, en bendir hins vegar á að hann sé orðinn um sex ára gamall og miðstjórnin hefði talið eðlilegra að byggt hefði verið á nýrri könnun en að byggja alltaf á gömlum útreikningum.

Ég vil hins vegar taka undir það sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan. Ef menn eru að reyna að komast að raunverulegri neyslu landsmanna almennt á ekki bara að taka eitthvert tiltekið landsvæði út úr og gera könnunina þar. Allra síst á þetta við nú, eins og málin standa í dag, þegar ljóst er á þeim stöðum utan þess svæðis sem menn eru fyrst og fremst að tala um að gera könnunina á hefur svo hallað undan fæti að greinilegt er að fólk mun flýja þá staði umvörpum verði ekki breyting á hugarfari stjórnvalda í þá átt að jafna kjörin, skulum við segja, milli þessa svæðis hér og staða úti á landi.

Ég fagna því, eins og hv. 5. þm. Vestf., að reiknimeistarar og spekingar skyldu hafa komist að þeirri niðurstöðu að t. d. húshitunarkostnaðurinn gæti gert þarna strik í reikninginn. Til þess hefði ekki þurft að leggja fram mikla vinnu, að mínu mati, eða útreikninga að sjá fyrir hversu gífurlega mikil áhrif sá þáttur einn hefur á könnun af þessu tagi, væri hún gerð á þeim landsvæðum sem það á við. Ég vil því beina því til hæstv. ráðh., sem þetta mál heyrir undir, þ. e. hæstv. viðskrh., að hann komi því til leiðar að fjölgað verði þeim stöðum úti á landsbyggðinni þar sem neyslukönnun á sér stað og sem teknir yrðu inn í þennan útreikning. Ég sé ekkert réttlæti í því, eins og gert var við síðustu könnun sem hér er vitnað til, að svo til allir kaupstaðirnir á höfuðborgarsvæðinu, ef við tölum um stór-Reykjavíkursvæðið í einu orði, séu allir teknir með, en svo sé tíndur út einn staður í hverjum hinna landshlutanna. Ég sé ekkert sem réttlætir slík vinnubrögð. Ég beini því mjög eindregið til hæstv. ráðh. að hann beiti sér fyrir því við meðferð málsins hér í deildinni og það komi inn í við afgreiðslu málsins að fjölga þeim stöðum utan stór-Reykjavíkursvæðisins þar sem slíkar kannanir verða gerðar, þannig að menn fái sem heillegasta og raunhæfasta mynd af þeim kostnaði sem það fólk, sem landsbyggðina byggir, býr við. Sjáist það ekki í meðferð t. d. hv. nefndar að slíkt eigi að koma fram mun ég a. m. k. íhuga tillöguflutning í þá átt við afgreiðslu málsins í deildinni að þeim stöðum verði fjölgað úti á landi sem slík könnun tæki til, þannig að menn fái raunhæfar niðurstöður af þeim kostnaði sem fólk þar ber en ekki marklaust úrtak eins og síðasta könnun leiddi í ljós.

Ég tek líka undir það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði. Ég tel að það væri skynsamlegt í alla staði og nauðsynlegt ef hægt væri að gera neyslukönnun meðal láglaunafjölskyldna hið fyrsta. Ég hef enga trú á að í því tækniþjóðfélagi sem við nú búum í sé slíkt ekki hægt og það á miklu skemmri tíma eða oftar en menn eru nú að tala um. Ég held að við hljótum að vera komin það langt í tæknivæðingu að slíka könnun sé hægt að gera með styttra millibili en menn eru hér um að tala. Ég hygg að það sé hin eðlilega, skulum við segja, mótbára kerfisins að losna við slíkt, þannig að sem lengst líði á milli, en að það séu engin rök til fyrir því að slíkt sé ekki hægt.

Ég vildi gjarnan, herra forseti, og það skulu vera mín lokaorð að sinni, fá að heyra frá hæstv. viðskrh. hvort hann er því ekki hlynntur, hvort hann muni vilja beita sér fyrir því, og hann skal fá dyggan stuðning minn til þess og ég hygg fleiri, að við afgreiðslu málsins hér í deildinni verði gerð breyting þannig að fleiri staðir úti á landsbyggðinni komi inn í þær kannanir sem gerðar verða með það í huga að þær verði marktækar og menn fái heildarmynd af því, sem menn eru, að ég hugsa, að leita eftir, hver neyslan sé á hverjum tíma.