31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild til hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í frv. þessu er farið fram á heimild til að hækka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 43.5 millj. sérstakra dráttarréttinda (SDR) í 59.6 millj. Jafnframt er Seðlabanka Íslands falið að leggja fram það fé sem nauðsynlegt er til hækkunar kvótans.

Síðast þegar hækkun sem þessi var til meðferðar hér á Alþingi var hún samþykkt með lögum nr. 38 frá 26. maí 1979.

Samkv. frv. mun kvóti Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hækka um 16.1 millj. SDR, úr 43.5 í 59.6. Sérstök dráttarréttindi eru alþjóðlegur gjaldmiðill og ræðst verðgildi hans af verðgildi helstu viðskiptagjaldmiðla heims. Miðað við gengisskráningu hinn 20. sept. s.l. eru sérstök dráttarréttindi verðmeiri en Bandaríkjadalur, þannig að hækkun á kvóta Íslands samsvarar því 16.9 millj. dala eða 390 millj. kr. Er hér um að ræða hlut Íslands í áttina til almennrar hækkunar kvóta í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Af hækkuninni er fjórðungur greiddur í sérstökum dráttarréttindum, en 3/4 hlutar í íslenskum krónum. Seðlabanki Íslands greiðir þann hluta kvótaaukningar sem greiddur er í SDR og myndar hann sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá sjóðnum og telst áfram til gjaldeyrisforða Seðlabankans. Þátttaka Íslands í þessari almennu reglubundnu kvótahækkun eykur möguleika Íslands á hagstæðum lántökum hjá sjóðnum um margfalt þá upphæð sem lögð er fram í SDR. Er að mati viðskrn. okkur í hag að Ísland taki þátt í þessari hækkun.

Að því er varðar samskipti Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vil ég nefna að Ísland var meðal annars aðili að stofnun sjóðsins og hefur ætíð haft gagnleg tengsl við hann. Það var þó ekki fyrr en árið 1960 að Ísland tók lán hjá sjóðnum, 6.8 millj. Bandaríkjadala, í tengslum við efnahagsaðgerðir þær sem gripið var til á því ári. Síðan hefur Ísland þrisvar tekið lán hjá sjóðnum vegna gjaldeyrisjafnaðarerfiðleika, fyrst á árinu 1967– 1968 að upphæð 15 millj. dala, síðan á árunum 1974– 1976 að upphæð 62.2 millj. SDR, eða sem svarar 65.2 millj. dala, og loks árið 1982 jöfnunarlán að fjárhæð 21.5 millj. SDR eða 22.6 millj. dala og jafnframt 9 millj. SDR eða 9.4 millj. dala af gjaldeyrisinnstæðu Seðlabankans hjá stofnuninni. Öll lán sem tekin voru til og með 1976 hafa verið að fullu greidd. Skuldir frá 1982, 30.5 millj. SDR eða 32 millj. Bandaríkjadala, skal endurgreiða á næstu 3–5 árum.

Í þessu sambandi má nefna að undanfarin ár hefur aðalstarfsemi sjóðsins verið fólgin í því að greiða úr greiðslujafnaðarerfiðleikum aðildarríkja hans.

Ég vil ekki hafa fleiri orð um þetta frv. og leyfi mér, herra forseti, að leggja til að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vildi mega vekja athygli nefndarinnar á því, að hér er um að ræða staðfestingu og þyrfti málinu að vera lokið fyrir lok nóvembermánaðar.