19.03.1984
Efri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3869 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

226. mál, birting laga og stjórnvaldaerinda

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti allshn. Ed. um breyt. á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Eins og nál. ber með sér mælir allshn. með því að frv. verði samþykkt.

Frv. fjallar um birtingu staðbundinna gjaldskráa og gerir ráð fyrir að um birtingu þeirra verði tekin upp nýr háttur, þ. e. að horfið sé frá því að birta slíkar gjaldskrár eins og verið hefur í B-deild Stjórnartíðinda, en í stað þess látið nægja að geta þess í B-deild Stjórnartíðindanna hvenær þessar gjaldskrár hafi verið útgefnar og hvar þær liggi frammi eða hvar þær séu birtar innan þeirra staðartakmarka sem þær eiga að gilda fyrir.

Fjöldi staðbundinna gjaldskráa hefur farið mjög vaxandi, þannig að birting þeirra hefur tekið æ meira rúm í B-deild Stjórnartíðinda og er nú svo komið að þar er ekkert hóf á. Þess vegna þykir eðlilegt að fella niður birtingu þeirra í B-deildinni. Það horfir til sparnaðar, hagræðingar og birting í Stjórnartíðindum virðist óþörf vegna réttaröryggis. Það er hægt að fullnægja því skilyrði allt eins vel með því að birta gjaldskrá, hvort sem það er hafnargjaldskrá eða hitaveitugjaldskrá o. s. frv., á staðnum.

Ég endurtek svo, virðulegi forseti, að allshn. Ed. mælir með samþykkt frv.