20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 395 flyt ég fsp. um ráðstöfun gengismunar. Hæstv. sjútvrh. hefur verið svo vinsamlegur að útbýta skriflegu svari við þessum fsp. mínum, m. a. vegna þess að margar tölur koma þar fram sem verður betra fyrir hv. þm. að átta sig á þegar þeir fylgjast með málinu.

Ég get þó ekki látið hjá líða að geta þess af hverju ég flyt þessa fsp. Það er m. a. í framhaldi af því sem mér ásamt fleiri þm. úr stjórnarflokkunum var falið á s. l. sumri að vinna þegar eftir að brbl., sem vitnað er til, voru sett. Gengismunurinn verður m. a. til vegna þessara ráðstafana sem hér er rætt um. Við áttum að gera tillögur til okkar þingflokka og hæstv. sjútvrh. um ráðstöfun þessara fjármuna.

Nú getum við deilt um það lengi hvernig eigi að skipta þessu fé þegar á heildina er litið til vinnslu, útgerðar og sjómanna. Mörgum hefði þótt eðlilegt að sjómenn hefðu fengið þriðjung þessa, en ég gerði tillögu um að það yrði ekki minna en 10% sem hefði þýtt að 55 millj. kr. hefðu farið til lífeyrissjóða sjómanna og annarra velferðarmála þeirra. Þegar þetta svar er gefið er, eins og menn sjá, búið að greiða 15 millj. kr. af heildarupphæðinni eða um 4% til lífeyrissjóða sjómanna en ekki til annarra hagsmunamála sjómanna.

Nú liggur það fyrir að þessar tekjur munu verða meiri en í svarinu kemur fram. Þær verða meiri en 555 millj. kr. og er talað jafnvel um 580 millj. kr. Auk þess er ljóst að miklar vaxtatekjur munu verða af þessum gengishagnaði eða kannske allt að 40 millj. kr.

Ég hef vakið máls á hv. Alþingi á þeim voða sem dunið hefur yfir íslenska sjómannastétt á liðnum misserum og enn varðandi slys á sjó og mannslát. Ég gat um það í umr. utan dagskrár fyrir stuttu að frá síðasta sjómannadegi hefðu 26 sjómenn farist vegna slysa á sjó og mætti hafa þá tölu hærri eftir því hvernig slys væru flokkuð eða jafnvel fast að 30. Ég er þeirrar skoðunar — og reyndar var tekið undir það í þeirri umr. — að Alþingi þyrfti að grípa hér í taumana með aðgerðum sem ættu uppruna sinn hér á Alþingi. Ég er sannfærður um að það verður ekki gert öðruvísi en fjármunir séu til staðar. Ég hef gamla og því miður slæma reynslu af því og bendi á það. Fyrir rúmum 20 árum flutti ég fyrst þáltill. um rannsókn á reki gúmmíbjörgunarbáta. Það tók mörg ár að fá hana samþykkta, en eftir að hún var samþykkt fékkst hún ekki framkvæmd í langan tíma vegna fjárskorts.

Sama má segja um tilkynningarskyldu fiskiskipa. Ég flutti það mál fyrst inn á Alþingi en það kom lengi vel ekki til framkvæmdar vegna fjárskorts.

Benda má á svona mál, m. a. liggur nú fyrir að sjóslysanefnd getur ekki látið framkvæma nauðsynlegar rannsóknir vegna fjárskorts. Ég mun því í framhaldi af þessu svari hæstv. sjútvrh. koma því í tillöguformi eða frumvarpsformi til hv. Alþingis að öllum þeim vaxtagróða sem verður til af gengismun ásamt auknum tekjum sem þegar eru til staðar verði markaður bás til þessara mála, til öryggismála sæfara, til rannsókna og til fyrirbyggjandi aðgerða. Það var ætlan mín að koma þessu á framfæri við hv. alþm. í framhaldi af svari hæstv. ráðh. varðandi tryggingamál sjómanna, bæði lífeyrissjóði og aðrar nauðsynlegar líftryggingar, sem allir borgarar landsins njóta ef þeir eru á landi án þess að greiða fyrir sérstaklega en ef þeir eru á sjó geta ekki notið. Þessu á að mæta með auknum tryggingum sjómanna og það á að sjálfsögðu að gera með þeim tryggingarsjóði sem var settur upp sem slíkur, þ. e. Aflatryggingarsjóður. En það er annað mál.