20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3889 í B-deild Alþingistíðinda. (3308)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Vegna orða hæstv. sjútvrh. vil ég taka fram að ég hef ekki neinar till. uppi um að skerða það sem þegar hefur verið ákveðið og þá ekki heldur þær 37 millj. sem voru ákveðnar til velferðarmála sjómanna og hafa að nokkru verið eyrnamarkaðar af þeim sjálfum. Það sem ég er að tala um er, svo það komist kannske enn betur til skila frá mér, að ef afgangur verður fram yfir áður markaða veitingu og vextir sem ekki var búið að ráðstafa verði því fé ráðstafað á þann hátt sem ég hef þegar getið um.

Ég þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir að taka undir það sem ég sagði um þessi mál og vil endurtaka það, sem hlýtur að vera meginmál, að ef það er vilji Alþingis að ráðast gegn þessum vanda verður ekki ráðið fram úr honum öðruvísi en hafa fjármuni til staðar. Við vitum vel hvernig staðan er í þjóðarbúinu í dag, en hér eru til staðar fjármunir sem siðferðilega og jafnvel enn frekar má telja að sjómenn eigi rétt á, og ég tel eðlilegt að þeim fjármunum verði varið eins og ég lagði til.

Að sjálfsögðu þakka ég svo hæstv. sjútvrh. fyrir að hafa gefið þm. og mér sem fyrirspyrjanda þær greinagóðu upplýsingar sem hér var útbýtt skriflega.