20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3892 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Eins og vant er er stundum dálítið undarlegt að fylgjast með umr. á hinu háa Alþingi. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því hér yfir að hann og sjálfsagt aðrir ráðh. ríkisstj. hafi fullan hug á að gera eitthvað í lífeyrismátum sjómanna. Hv. þm. Karvel Pálmason sér ástæðu til þess að vera með persónulegan skæting til fyrrv. hæstv. ráðh., Svavars Gestssonar. Sannleikurinn í málinu er sá, ef þm. hefur gleymt því, að það var einmitt í hans tíð sem sett voru lög um lífeyrisréttindi sjómanna við 60 ára aldur. Það er alveg rétt að margt er ógert, en þetta var þó gert.

Nú hefur hv. þm. og fyrrv. ráðh., Svavar Gestsson, flutt, eins og hann gat um áðan, till. til þál. sem liggur fyrir þeirri n. sem m. a. ég sit í, þ. e. allshn. Sþ. Ég hlýt því að spyrja ráðh. ríkisstj., úr því að þeir eru svona áhugasamir um að þessum málum verði kippt í liðinn, hvers vegna setið hefur verið á þessu máli í þeirri n. Ég hef ekki, þrátt fyrir margar ítrekanir, fengið þetta mál, 87. mál þingsins, afgreitt eða yfirleitt rætt í hv. allshn. Hvað er þá á móti því að afgreiða það mál út úr n., svo að einu sinni kæmi nál., hið þriðja úr þeirri annars ágætu n.?

Það er afskaplega tilgangslítið að vera með persónulegt skítkast um þessi mál sem eru mikil alvörumál. Auðvitað er ýmislegt búið að lagfæra, en enn þá er fleira ógert. Lífeyrir sjómanna er til hreinnar skammar eins og nú er. Ég vænti þess að ég megi skilja þessa umr. svo, að ég megi nú biðja hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson, formann allshn. Sþ., að snara út úr n. næsta þriðjudag þessari ágætu þáltill. hv. þm. Svavars Gestssonar. Ekki virðist vera nein mótstaða gegn því í hv. ríkisstj.

Hitt er svo annað að um þessi mál mætti margt segja sem ég ætla ekki að gera hér. Aldrei verður neitt vit í lífeyrismálum landsmanna fyrr en einhver hefur þá dirfsku til að bera að setja á stofn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það er gersamlega óviðunandi að sú stétt manna, sem framleiðir mest og dregur að landi obbann af þjóðartekjunum, skuli vera verst sett eða a. m. k. með þeim verst settu þegar kemur að lífeyrismálum. Það er okkur svo sannarlega til vansæmdar.