20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3903 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

426. mál, fjármögnun húsnæðismála

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Þessi fsp. varðandi húsnæðismál er reyndar lögð fram fyrir nokkuð löngu síðan. Síðan hafa farið fram miklar umr. um fjármögnun húsnæðiskerfisins í tengslum við lánsfjárlög. Það er óþarfi að rifja upp í löngu máli það sem þar var um að ræða. Í örstuttu máli má segja að þar sé annars vegar um að ræða það að skv. lánsfjárlögum á að afla 1 050 millj. kr. til húsnæðiskerfisins á árinu 1984 eftir ýmsum leiðum, þ. e. a. s. frá lífeyrissjóðum 690 millj. kr., með láni frá Atvinnuleysistryggingasjóði upp á 115 millj. kr., 45 millj. kr. eiga að skila sér úr skyldusparnaði og 200 millj. kr. á að afla á innlendum lánsfjármarkaði með sölu skuldabréfa. Þetta eru sem sagt 1 050 millj. kr. sem á að afla skv. lánsfjárlögum. Margsinnis hefur komið fram hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar og þeim sem hafa tekið til máls úr stjórnarandstöðunni að verulegar ástæður eru til að ætla að þessar 1 050 millj. kr. náist ekki.

Þarna standa sem sagt annars vegar þessar 1 050 millj. kr. sem á að afla skv. lánsfjárlögum. Hins vegar stendur síðan áætlun Húsnæðisstofnunar frá 7. febr. s. l. sem gerð er skv. bráðabirgðaumsóknum skv. gildandi lögum og reglugerðum um kvaðir kerfisins. Sú áætlun sýnir fjárvöntun upp á einar 300–400 millj. kr. þó að þessar 1 050 millj. kr. fengjust þannig. Jafnvel þótt 1 050 millj. kr. skiluðu sér, sem gert er ráð fyrir skv. lánsfjárlögum, yrði um fjárvöntun að ræða í kerfinu og einhver niðurskurður húsnæðisbygginga frá því sem ætlað hefur verið.

Fsp. mín var á þann hátt hvort ráðh. teldi að á fullnægjandi hátt væri sinnt þörfum kerfisins í fjárlögum og lánsfjárlögum. Þessi fsp. stendur enn þá, ekki síst í ljósi yfirlýsinga sem komu fram í gær frá hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. sem hvorugur vildi lýsa ábyrgð ríkisstj. á því að útvega þessar 1 050 millj. kr. jafnvel þó að hæstv. félmrh. hafi lýst skoðun sinni í þeim efnum. Hæstv. fjmrh. og forsrh. létu sér nægja að lýsa yfir trú og trausti á áætlunum um fjáröflunina. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir að málið nyti forgangs hjá ríkisstj. en hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að menn yrðu bara að bíða með að byggja ef bréfin ekki seldust. Með tilvísun til þeirra umr. sem hér hafa farið fram síðustu vikuna um húsnæðismál vil ég ítreka þessa fsp. mína um það hvort hæstv. félmrh. telji að þetta sé fullnægjandi úrlausn þessara mála.