20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (3353)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hafði um það stór orð að hv. 2. þm. Austurl. skyldi láta sér það til hugar koma að hæstv. ráðh. hefði uppi áætlanir um að breyta röð virkjana. Hafði ráðh. um það mikil ásökunarorð. Mig minnir í þá veru að það væri þvættingur einn. Það vill svo til að þessi sami hæstv. iðnrh. skrifaði stjórn Landsvirkjunar bréf í haust og óskaði sérstaklega eftir því að stjórn Landsvirkjunar undirbyggi hið snarasta fullbúið frv. um Búrfellsvirkjun II. Í stjórn Landsvirkjunar var af hálfu fulltrúa ráðh., sem þar situr, sérstaklega rekið mjög á eftir því að þetta frv. yrði fullgert. Var ekki annað að skilja á ýmsum fulltrúum stjórnarflokkanna í stjórn Landsvirkjunar og fulltrúa ráðh. en að ráðh. hefði fullan hug á að leggja þetta frv. um nýja virkjun á Þjórsársvæðinu fyrir Alþingi um leið og það kæmi saman. Slíkur var eftirreksturinn í stjórn Landsvirkjunar af hálfu fulltrúa ráðh. sjálfs á því að þetta frv. yrði smíðað.

Stjórn Landsvirkjunar smíðaði síðan þetta frv. fyrir ráðh. skv. hans sérstöku ósk. Það hefur legið í rn. síðan. Það er alveg ljóst að í iðnrn. liggur fullbúið frv. um nýja stórvirkjun á Þjórsársvæðinu sem ráðh. óskaði sérstaklega eftir sjálfur að yrði smíðað. Ráðh. ætti þess vegna að spara sér stóryrði og stærilæti í garð þm. Hann gerir það kannske í krafti þess að í þingsalnum sé ekki til vitneskja um athæfi ráðh. utan þingsala.