20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3925 í B-deild Alþingistíðinda. (3357)

437. mál, undirbúningsframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun

Ólafur Ragnar Grímsson:

Greinilegt er að það hefur komið mjög illa við hæstv. iðnrh. að það skyldi verða skýrt frá því á Alþingi að meðal hans fyrstu verka í embætti var að krefjast þess að fá fullunnið frv. um nýja stórvirkjun á Þjórsársvæðinu. Nú kemur hæstv. ráðh. með miklu stærilæti skv. venju og segir að það hafi örugglega engum öðrum en mér dottið í hug að hann hefði í huga að breyta virkjanaröð. Ég get upplýst ráðh. um það að ráðuneytisstjóra hans datt það í hug, samanlagðri fulltrúasveit ríkisstjórnarflokkanna í stjórn Landsvirkjunar datt það í hug. Sérstökum fulltrúa ráðh. sjálfs, sem situr í forsæti í þessari sömu stjórn, datt það einnig í hug. Ég var reyndar eini maðurinn í stjórn Landsvirkjunar sem dró það í efa að hæstv. ráðh. mundi flytja slíkt frv. Allir aðrir í stjórninni voru fylgjandi því að reka á eftir málinu eins og óskað var eftir af hálfu rn. svo að iðnrh. gæti í upphafi þings, þess sem nú stendur yfir, haft fullbúið frv. um nýja stórvirkjun á Þjórsársvæðinu. Rétt er að segja ráðh. frá því að sá sem hér stendur — svo að hans orðalag sé notað — var eini maðurinn í stjórn Landsvirkjunar sem dró í efa að ráðh. myndi flytja þetta frv. Allir aðrir í stjórninni voru þeirrar skoðunar að fyrst ráðh. ræki svona á eftir því að frv. væri smíðað — og sérstakur fulltrúi hans í stjórninni gerði það hvað eftir annað — og neitað var sérstökum óskum um að fresta málinu í stjórn Landsvirkjunar þá hlyti málið að vera þannig vaxið að ráðh. ætlaði sér að flytja frv.

Nú upplýsti ráðh. það hins vegar að það hafi aldrei hvarflað að sér og efast um að nokkur maður nema ég gæti látið sér detta það í hug sem var þó eini maðurinn í stjórn Landsvirkjunar sem stóð frekar með ráðh. hvað þetta snertir, eins og fundargerðir Landsvirkjunar sýna greinilega.

En það væri fróðlegt að hæstv. ráðh. upplýsti það, fyrst honum kom aldrei í hug að flytja þetta frv., hvers vegna í ósköpunum þessi eftirrekstur var í haust með að hafa þetta frv. fullbúið í upphafi þings. Ef ráðh. hefði aldrei ætlað sér annað en að fylgja þeirri virkjanaröð sem Alþingi hefði ákveðið lá ekkert á því að fara að vinna þetta frv. fyrr en árið 1987.