21.03.1984
Efri deild: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3960 í B-deild Alþingistíðinda. (3374)

42. mál, orkulög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það vill svo til að í þessu máli hef ég komist að sömu niðurstöðu og hæstv. iðnrh., en ég þori ekki að ábyrgjast að ástæður okkar séu endilega hinar sömu.

Í fyrsta lagi er ég á móti brbl. Ég tel þau andlýðræðisleg og þess vegna og jafnvel eingöngu þess vegna mundi ég greiða atkv. móti þessum lögum.

Annars vegar geng ég ekki þeirrar trúar að ríkisstjórnir séu ímynd skynseminnar bara vegna þess að þær séu ríkisstjórnir og trúi þess vegna ekkert frekar á þeirra forsjá í þessu efni en í mörgu öðru umfram forstjóra eða ráðamenn fyrirtækja, hvort sem það eru ríkisfyrirtæki eða önnur fyrirtæki.

Að bera Landsvirkjun saman við Póst og síma og Ríkisútvarp finnst mér ekki við hæfi, því að tengsl neytenda og ríkisvalds eru í þessu sambandi algerlega bein þar sem ríkið rekur viðkomandi fyrirtæki og enginn milliliður er þar á milli neytandans og ríkisins. Á annað borðið er þar líka um þjónustu að ræða sem er bæði innt af hendi og verðlögð nánast eins og þegar um skatta er að ræða.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. benti á að Landsvirkjun væri ekki í samkeppni við einn eða neinn. Það er að vísu alveg rétt. Uppbygging Landsvirkjunar, þ. e. stjórnunar hennar, er reyndar sú, eins og hann þekkir náttúrlega, að hún er sameignarfyrirtæki ríkis og sveitarfélaga. Sagan hefur kennt okkur að orkufyrirtæki eru reyndar í ákveðinni samkeppni við ríkisvaldið. Ríkisvaldið hefur tilhneigingu til þess, þegar það þarf að innheimta meira fé af landsmönnum, að skrúfa niður í fjárþörf þessara fyrirtækja með því að hlutast til um gjaldskrár þeirra og koma í veg fyrir að þau keppi við ríkið um peninga landsmanna.

Að hér sé um að ræða a. m. k. tilraun til höggs á hv. 5. þm. Austurl., fyrrv. iðnrh., getur vel verið, en sá maður gekkst þá allavega undir þá áhættu þegar hann fór út í það mjög hæpna verk að setja þessi brbl. í fyrra og hlýtur að hafa gert sér gjörsamlega grein fyrir því sem eftirleikurinn kynni að hafa í för með sér.