21.03.1984
Neðri deild: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (3400)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. viðskrh. hefur gefið þá yfirlýsingu sem hann hér greindi frá, þó að ég hefði hins vegar kosið að inn í lögin sjálf hefði komið ákvæði þessa efnis. Ég hef enga ástæðu til að ætla að hæstv. núverandi viðskrh. standi ekki við þessa yfirlýsingu. Það er nú svo samt að ráðherraskipti verða, enginn veit hvenær, og spurningin er því sú, ef slíkt kæmi fyrir, sem ég veit að hæstv. viðskrh. reiknar ekki með eða vill ógjarnan, hvort tryggt væri að þessi yfirlýsing, sem gerir ráð fyrir ákveðnum vinnubrögðum, héldi gildi sínu og Hagstofan ynni skv. henni þrátt fyrir það að sá ráðh. sem yfirlýsinguna gaf væri hugsanlega horfinn úr stóli. Ég hefði þess vegna kosið að það hefði verið ótvírætt sett inn í löggjöfina. En ég geri ekki alvarlegar aths. þar við. Ég fagna því að hæstv. ráðh. hefur tekið jákvætt í málið og ég veit að hann mun fylgja því fram og treysti því að áframhaldið fari eftir því sem hans yfirlýsing gefur tilefni til að ætla.