21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3981 í B-deild Alþingistíðinda. (3411)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er eðlilegt að hv. 2. þm. Reykv. skuli vilja hafa sem minnsta umr. um þetta frv.

Það hefur ríkt við meðferð þessa máls dæmalaus hringlandaháttur af hálfu ríkisstjórnarliðsins hér á hv. Alþingi. Fyrst var lögð fram till. á haustdögum um ákveðna skattaprósentu í frv.-formi hér í hv. Nd. Stjórnarliðar lögðu þá ofurkapp á að afgreiða málið strax og það fyrir áramót og var ekki laust við að kenndi þykkju í máli þeirra sumra þegar þeir voru að kenna stjórnarandstöðunni um að hafa tafið það þarfa mál og afgreiðslu þess fyrir hátíðarnar. En eftir á að hyggja mátti stjórnarliðið þakka stjórnarandstöðunni fyrir að hafa tafið málið, ef sökin var hjá stjórnarandstöðunni í þessu efni, því að rann upp fyrir stjórnarliðinu ljós í kringum hátíðarnar, að skattana þyrfti að lækka aðeins, og var flutt till. um skattalækkun frá þessari upphaflegu till. ríkisstj. — Það var kafli númer tvö í meðferð málsins á hv. Alþingi, en í millitíðinni hafði Nd. tekið út úr upphaflegu frv. ríkisstj. nokkra þætti sem varða álagningu skatta á árinu 1984.

Þriðji þátturinn gerðist svo uppi í Ed. Það kom till. frá ríkisstj. um að hækka skattaprósentuna aftur upp í það sem hún hafði verið í öndverðu. Það var vegna þess að runnið hafði upp fyrir þeim annað ljós en það sem þeir sáu um hátíðarnar, sem sé að nú hefðu tekjur manna í landinu hækkað svo óbærilega mikið vegna kjarasamninganna, hinna hóflegu kjarasamninga sem þeir kölluðu sumir því nafni. Vegna þess að verkalýðurinn í landinu og almenningur hafði fengið þessa gífurlegu kauphækkun upp á heil 5% varð að taka allt aftur og ríkisstj. flutti aftur till. um að hækka skattana. Svo fór að jafnvel manni eins og Ólafi Jóhannessyni, sem kallar nú ekki allt ömmu sína í stjórnmálareynslu liðinna áratuga, varð bumbult við að gleypa skattahækkunartillögur Alberts Guðmundssonar, hæstv. fjmrh., sem auk þess hafði nokkrum sólarhringum áður lýst því yfir að hans mundi aldrei, þessi vinur litla mannsins í þjóðfélaginu, hækka skatta. Hann hafði varla sleppt orðinu fyrr en hann smeygði sér inn í hv. Ed. og lét hækka skatta, sömu skatta og þeir þóttust af velvild vilja lækka í Nd.

Rökin, sem stjórnarliðið ber fram í málinu og hv. 2. þm. Reykv. lét sér sæma að endurtaka áðan, eru þau, að verið hafi gerðir kjarasamningar og nauðsynlegt sé að plokka af launafólkinu eitthvað af þeim hækkunum sem það fékk í kjarasamningunum nú á dögunum. Hér er komið með býsna svívirðilegum hætti aftan að verkalýðshreyfingunni í landinu. Forráðamenn hennar höfðu gert kjarasamninga, sem er verið að greiða atkv. um í verkalýðsfélögunum, m. a. í BSRB, þessa dagana, og þeir treystu því að þeir kjarasamningar byggðu á ákveðnum forsendum. Þær forsendur hafa verið teknar aftur. Stjórnin hefur sagt upp sínum þætti samninganna við verkalýðshreyfinguna í landinu. Stjórnin hefur með þessu frv., sem er hér til 7. umr. á hv. Alþingi, sagt upp sinni hlið kjarasamninganna. Blekið er ekki þornað á kjarasamningum, hinum hóflegu kjarasamningum í landinu, þegar ríkisstj. riftir þeim að sinni hálfu undir forustu hv. þm. Þorsteins Pálssonar, nýkjörins formanns Sjálfstfl., og hæstv. fjmrh. sem m. a. var kosinn til Alþingis vegna þess að hann var búinn að lýsa yfir því aftur og aftur að það ætti að lækka skattana.

Þessi framkoma, þetta siðleysi gagnvart verkalýðssamtökunum í landinu er auðvitað algjörlega dæmalaust. Það er útilokað annað en að þessir sendimenn skattahækkananna hér á Alþingi, boðberar skattahækkunarinnar hér á Alþingi, geri grein fyrir máli sínu, hvað svona framkoma á að þýða.

Kannske verkalýðshreyfingin hafi vitað að þessi skattahækkun væri væntanleg og að menn uni við þessa hækkun og forustumenn verkalýðssamtakanna séu sáttir við þá skattahækkunarstefnu sem hér er verið að hrinda í framkvæmd. Nei, það er nú eitthvað annað. Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafa í dag sent öllum þingflokkunum bréf, dags. 21. mars 1984, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Efri deild Alþingis hefur nú samþykkt að hækka tekjuskatt frá því sem Nd. gerði ráð fyrir, er þar var afgreitt stjfrv. um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, 129. mál. Tilgreindar ástæður þess meiri hl. sem samþykkti breytingarnar í Ed. eru þær, að laun skv. nýlega gerðum kjarasamningum hækki að meðaltali um meira en 4% á árinu 1984. Við viljum eindregið mótmæla þeirri aukningu á skattheimtu sem meiri hl. þm. Ed. hefur samþykkt. Í þessu sambandi skal vísað til þess, er skýrt kom fram í viðræðum um kjarasamning ASÍ og VSÍ, að ekki væri gert ráð fyrir aukinni skattheimtu. Þá voru og gefnar skýrar yfirlýsingar af hálfu fulltrúa fjmrh. í samningaviðræðum við BSRB um að auknar tekjur ríkissjóðs vegna almennra launahækkana næðu langleiðina til að brúa bilið á milli áætlaðra útgjalda ríkissjóðs vegna launahækkana skv. fjárlögum og aukinnar hækkunar skv. þeim samningi sem undirritaður var 29. febrúar s. l. Við lítum á þá auknu skattheimtu sem meiri hl. þm. Ed. samþykkti sem hreina ögrun við launafólk og skorum á ríkisstj. og Alþingi að falla frá þessari breytingu.

Virðingarfyllst.

Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ.

Kristján Thorlacius formaður BSRB.“

Þessir forustumenn stærstu stéttasamtaka í landinu segja nú við 2. umr. málsins hér á Alþingi að ríkisstj. sé með þessari skattahækkun að ögra verkalýðssamtökunum. Og ég spyr: Ætlar ríkisstj. og þingmeirihluti hennar hér á Alþingi að láta sig hafa það að ögra verkalýðssamtökunum með þessum hætti? Ætla þeir menn, sem hingað eru kosnir og eru jafnframt eða hafa verið trúnaðarmenn verkalýðssamtakanna, að una þessari skattahækkun? Ætla hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson eða hv. þm. Pétur Sigurðsson, að samþykkja þessa skattahækkun, sem hér er á ferðinni, í trássi við viðhorf yfirgnæfandi meiri hluta launamanna og þeirra heildarsamtaka sem þar fara fremst í forsvari?

Er það kannske svo, að innan um í liði framsóknar hér í deildinni leynist einn eða tveir sem þora að feta í fótspor hv. þm. Ólafs Jóhannessonar? E. t. v. eru fleiri þm. Framsfl. sem hafa löngun í sér til að rísa upp gegn ofríki ríkisstjórnarliðsins og segja: Hingað og ekki lengra, þegar ríkisstj. er gagngert að stofna sambúðinni við launþegasamtökin í landinu í stórfellda hættu og ögra verkalýðssamtökunum. Er það þannig að allir þm. Framsfl. hér í hv. Nd. ætli að hlíta handjárnunum 100% í bak og fyrir og gefast upp eða ætla menn að fara að fordæmi Ólafs Jóhannessonar, sem kallaði frv. sem hér er á dagskrá skollaleik?

Frv. til l. um skollaleik ætti það að heita því hér er auðvitað verið að hækka skatta. Hér er auðvitað verið að storka verkalýðssamtökunum í landinu.

Það var athyglisvert að hv. frsm. n. skyldi ekki sjá sóma sinn í því að lesa bréfið frá verkalýðssamtökunum áðan. Hann gerði það ekki. Ég heyrði ekki að hann nefndi það í nokkru. Ætlaði varaformaður Sjálfstfl. að fela þetta viðhorf forustumanna tveggja stærstu stéttarsamtaka í landinu? Átti að stinga því undir stól eins og fleiru hér í vinnubrögðum hv. meiri hl. Alþingis?

Grunsemdir hljóta að vakna um það og hlýtur að vera eðlilegt að ég gagnrýni það mjög harðlega, m. a. við hæstv. forseta Nd., þegar mikilvægum málsskjölum er stungið undir stól af frsm. nefnda. Frsm. n. er skylt að halda til haga megingögnum í málum eins og þessum. Þess vegna var það ósmekklegt af hv. 2. þm. Reykv. að gera ekki grein fyrir bréfi forseta Alþýðusambandsins og formanns BSRB í ræðu sinni áðan. Það var í fyllsta máta ósmekklegt af honum til viðbótar við þá storkun og það siðleysi sem felst í framkomu ríkisstj. gagnvart verkalýðssamtökunum, þar sem ríkisstj. er að rifta sinni hlið á því samkomulagi sem um var talað og undirritað var 21. febrúar s. l. og stjórnarliðið taldi eftir atvikum sæmilegt samkomulag, og var ekki laust við að sumir þeirra væru að hrósa sér af því úr ræðustólnum á hv. Alþingi.

Með hliðsjón af þessu, herra forseti, hefur minni hl. fjh.- og viðskn. lagt fram brtt. við frv. þetta, þ. e. brtt. við frv. eins og það kemur frá 3. umr. í Ed. Við leggjum til að það verði gerðar nokkrar breytingar á álagningarprósentum og endurflytjum till. sem við áður höfðum flutt hér við meðferð málsins í Nd. Minni hl. n. er því andvígur frv. eins og það kemur hér fyrir og þeirri skattahækkun sem í því felst.

Samkvæmt útreikningum Reiknistofnunar og ríkisskattstjóra verður verulegur fjöldi launafólks fyrir nokkurri eða verulegri skattþyngingu skv. till. meiri hl., jafnframt því sem gerð er till. af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um mikla skattalækkun á fyrirtækjunum. Í þessu frv. felst skattalækkun á fyrirtækjunum. Minni hl. n. gerir till. um að álagningarprósenta á félög skuli vera áfram hin sama og hæsta jaðarprósenta tekjuskatts á einstaklinga eins og verið hefur undanfarin ár, en jafnframt verði skattbyrði einstaklinga létt sem sömu fjárhæð nemur. Skv. þessu yrðu prósentur á skattstiga einstaklinga skv. okkar till. 22.75%, 29.75% og 44%.

Jafnframt standa nm. að tveimur öðrum brtt. Eru þær annars vegar um að milda áhrif af tekjumissi vegna atvinnubrests eða af sérstökum tekjubresti vegna t. d. aflasamdráttar. Hins vegar er till. sem tekur til þess að rétta hag hinna allra verst settu í þjóðfélaginu með útgreiðslu persónuafsláttar sem nýtist ekki til skattalækkunar eða greiðslu skatta og fellur því ónýttur við núverandi fyrirkomulag. Slík útgreiðsla næði þó að hámarki til hálfs persónuafsláttar og einungis til þeirra sem væru yfir tvítugt og störfuðu ekki við eigin atvinnurekstur skv. nánari skilgreiningu í lagagr. í brtt.

Undir nál. minni hl. rita auk mín hv. þm. Guðmundur Einarsson og Kjartan Jóhannsson. Guðrún Agnarsdóttir, hv. þm. Samtaka um kvennalista, er samþykk þeirri afstöðu minni hl., sem gerð er grein fyrir á þskj. 480, og stendur að þeim brtt. sem þar eru fluttar á þskj. 481

Ég tel, herra forseti, í tilefni af þessari umr., sem hér stendur yfir, óhjákvæmilegt að rifja nokkuð upp hver verður heildarskattbyrði á þessu ári. Samkvæmt áætlun frá Þjóðhagsstofnun, sem er dags. 12. mars 1984, er gert ráð fyrir að álagðir skattar verði alls á þessu ári 13.7% af tekjum þessa árs. Ég hef fyrir framan mig tölur fyrir árið 1975–1983. Þetta er hæsta hlutfall sem sögur fara af. 1975 er hlutfallið 11.7%, 1976 er það 12.8%, 1977 er það 10.8%, 1978 er það 12.4%, 1979 er það 13.1%, 1980 er það 12.9%, 1981 er það 12.4%, 1982 er það 12.9%, 1983 er það 12.5%, en 1984 er það 13.7%

Það fer m. ö. o. ekki milli mála að hér er um að ræða hæsta hlutfall álagðra skatta opinberra aðila af tekjum greiðsluárs sem um getur allt frá árinu 1975. Hér er ekki um að ræða tölur sem eru fengnar annars staðar og frá ómerkari aðila en Þjóðhagsstofnun, sem leggur til megingögn í ákvarðanatökum ríkisstj. í skatta- og efnahagsmálum.

Ríkisstj. heldur því fram að till. hennar nú geri ráð fyrir að álagðir skattar í hlutfalli við tekjur greiðsluárs, þ. e. til ríkisins, verði þeir sömu og á árinu 1983. Áður hafði ríkisstj. sýnt fram á að lægri skattstiginn væri sá sami og var á árinu 1983. Nú er fullyrt að hærri skattstiginn þýði sama hlutfall af tekjum greiðsluárs og á árinu 1983 vegna þess að menn eru að seilast eftir hugsanlegum ávinningi þeirra kjarasamninga sem nú hafa verið gerðir. Venjan hefur verið sú, að menn hafa tekið skatta í ríkissjóð eftir á og menn hafa skattlagt kauphækkanir eftir á með tilteknum hætti. Núverandi ríkisstj. hugsar sér að breyta þessu. Hún ætlar ekki einasta að skattleggja menn eftir á, svo sem gert hefur verið, heldur á að hremma samstundis þann litla ávinning sem liggur fyrir af þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið. Við skulum gera okkur grein fyrir að hér er farið inn á algerlega nýja braut, eins og hv. þm. Ólafur Jóhannesson gerði grein fyrir í Ed. á dögunum. Hér er þess vegna um að ræða óviðfelldinn rökstuðning af hálfu stjórnarliðsins, að ætla sér að hrifsa þannig til sín skatttekjur á þessu ári.

Með tilliti til þess að hér er gert ráð fyrir að skattbyrði þyngist á þessu ári, með tilliti til þess að hér er um að ræða skattahækkunarfrv. og með tilliti til þess að hér er gert ráð fyrir beinni ögrun við verkalýðssamtökin, hér er stofnað í hættu þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið, þá telur minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. óhjákvæmilegt að lýsa fullri andstöðu við það frv. sem hér er á dagskrá.