21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3990 í B-deild Alþingistíðinda. (3419)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég held að það gæti nokkurs misskilnings í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Ég held að enginn maður úr röðum sjómannasamtaka, hvort sem hann semur eða sækir sjó, óski eftir því að koma með skemmdan fisk að landi. Ég vísa slíkum ummælum heim til föðurhúsanna. Ég veit ekki betur en að fulltrúar þessara samtaka hafi tekið heilshugar þátt í því að betrumbæta bæði meðferð og alla vöndun við þann fisk sem þeir draga úr sjó. Hitt verða menn að skilja, að það árar líka illa hjá þeim og líklega verr en hjá nokkurri annarri stétt í landinu. Þeir skilja hins vegar vandamálið betur en flestir aðrir, eins og ég hef áður drepið á. En þeir kæra sig ekki um að verið sé að taka upp matsreglur í samræmi við lög sem ekki hafa enn þá verið sett. Þeir hafa heldur ekki skilið það, jafnvel þótt góðir menn, sem að þessu vinna, vilji samræma gildandi matsreglur, að þá þurfi endilega að taka mið í samræmingunni af því sem lægst er metið alls staðar, af hverju það megi ekki alveg eins vera þaðan sem topparnir koma.

Það eru nefnilega margir sem ganga með þá grillu að alltaf sé hægt að ganga á hagsmuni þessara manna. Ég leyfi mér að fullyrða, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að ekki stendur á sjómannasamtökunum að stuðla að því að félagsmenn þeirra komi með góðan afla að landi. En það á líka að vera hagur þeirra og sá hagur á ekki að vera rýrður þegar í land er komið af einhverjum embættismönnum og kerfiskörlum.

Ég leyfi mér að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf áðan og fyrir að hafa brugðist strax við og gripið í taumana þegar sjómannasamtökin beindu orðum sínum og tilmælum til hans þar um.