21.03.1984
Neðri deild: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3993 í B-deild Alþingistíðinda. (3423)

Umræður utan dagskrár

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Því miður var ég að koma hérna inn á bílastæðið þegar umr. um þetta mál byrjaði og ég heyrði aðeins í frummælanda og heyrði kannske ekki nógu glöggt upphaf ræðu hans.

Ég vil segja það og taka það skýrt fram að auðvitað á að virða samkomulag sem gert er og vinna eftir því, það fer ekkert milli mála. En ég hef unnið við sjávarútveg í nokkuð mörg ár og tel mig því geta eytt stund í að fjalla um þessi mál og ég veit af reynslu minni að þar er margt sem miður hefur farið og að þar er vissulega úrbóta þörf. En það er eins og svo oft fyrr að þau málin sem hvað mestu skipta fá venjulega stystan umfjöllunartíma.

Ég geri mér grein fyrir því að tel mig geta staðfest það, að mat á fiski er misjafnt, ekki aðeins milli landsvæða heldur einnig á milli manna sem framkvæma matið. Og hvað þýðir það? Það þýðir misjafnt verð á þeirri afurð sem komið er með að landi. Mig langar þess vegna að spyrja — og þeir gætu þá kannske svarað því, hv. þm. sem hér hafa talað, einhvern tíma síðar vegna þess að tíminn er skilst mér búinn — mig langar að spyrja þá að því, hv. þm. Karvel Pálmason og Pétur Sigurðsson: Er það álit þeirra beggja að það sé misjafnt mat á þessari afurð í landinu? (KP: Ég svara strax játandi.) (PS: Það hefur enginn borið á móti því.) Nei. Þeir upplýsa, bæði hv. þm. Pétur Sigurðsson og hv. þm. Karvel Pálmason, að það sé og hafi verið misjafnt mat á ferskum fiski hér. Það er einmitt þetta sem ég ætlaði að fá fram og það undirstrikar að úrbóta er þörf. Það er misræmið sem er óþolandi. (Gripið fram í: Hvað er að?) Hvað er að? Það er ekki von að prófessorinn úr Háskólanum skilji þetta. Ef hann slægi það inn í tölvu í Háskólanum fengi hann sjálfsagt einhverja niðurstöðu í þeim efnum. En við erum hér, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, að tala um mat á ferskum fiski upp úr sjó.