22.03.1984
Neðri deild: 63. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4089 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. 1. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur þegar fengið meðferð í hv. Ed. þar sem minni hl. fjh.- og viðskn., þm. sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Ragnar Arnalds og Eiður Guðnason, skilaði ítarlegu nál. á þskj. 355 þar sem gerð er grein fyrir þessu máli með þeim hætti sem ég tel að geri því fullnægjandi skil.

Við meðferð málsins í hv. Nd. hefur komið fram að frv. byggist á því að flytja fjármuni frá fólkinu í landinu til fyrirtækjanna. Það er sláandi að þetta mál skuli vera tekið fyrir á sama degi og samþykkt var skattahækkunarfrv. ríkisstj. sem breytt hafði verið í Ed. nú fyrir fáeinum dögum. Á sama degi og skattahækkunarfrv. ríkisstj. er tekið hér fyrir, skattahækkun á fólkinu í landinu, er hér lagt fram og lagt kapp á að afgreitt verði frv. um skattalækkun handa fyrirtækjunum. Nú er það svo að samkv. lögum um efnahagsmál o. fl. nr. 13/1979 er skýlaust ákvæði um að frv. af þessum toga eiga að fylgja upplýsingar um hvaða kostnað þau hafa í för með sér fyrir ríkið. Það hefur hins vegar farið svo með þetta frv. að embættismenn fjmrn. og talsmenn stjórnarliðsins hafa ekki treyst sér til að segja af eða á um hversu mikið tekjutap þetta frv. hefði í för með sér fyrir ríkissjóð. Það mun vera næsta einstakt að mál séu afgreidd með þessum hætti, eins og hér er gerð till. um, að menn ætti að kasta sér út í algera óvissu með jafnflókið mál og hér er á ferðinni. Það er jafnframt ljóst varðandi þetta frv. að þær reglur sem hér er gerð till. um eru mjög flóknar í framkvæmd. Skattstjórinn í Reykjavík og formaður Félags endurskoðenda gerðu grein fyrir því á fundi í fjh.- og viðskn. Nd. að mörg ákvæði þessa frv. væru afar flókin, erfið og þung í framkvæmd. Þess vegna er hér verið að flækja skattakerfið, gera það enn þá flóknara og ógagnsærra og erfiðara fyrir atmenning en þegar er orðið. Þótti þó flestum nóg um í þeim efnum. En jafnframt er hér um að ræða frv. um forréttindi þeirra sem kunna á kerfið, þ. e. forréttindi þeirra sem hafa möguleika á því af einhverjum ástæðum að setja sig sérstaklega inn í hið flókna skattakerfi í þessu landi. Hér er verið að opna möguleika fyrir slíka aðila til að finna fleiri og fleiri löglegar smugur á kerfinu til að troða peningunum sínum í á sama tíma og það er látið í veðri vaka að tilgangur frv. sé að hjálpa almenningi að eignast hlut í fyrirtækjum. Auðvitað er það endemis fjarstæða. Litli maðurinn með bogna bakið, sem er fræg persóna síðustu sólarhringana, á engan afgang um þessar mundir til að leggja í fyrirtækin, hann á engan afgang til þess. Maður sem er með 10 eða 20 þús. á mánuði hefur ekki tök á því að nota sér þau forréttindi sem þetta frv. býður upp á.

Af þeim ástæðum, herra forseti, að hér er um að ræða frv. um forréttindi þeirra sem kunna á kerfið, hér er um að ræða frv. um skattalækkun á sama tíma og ríkið stendur frammi fyrir stórfelldum halla á ríkissjóði og fleiri ástæðum, þá hef ég lagt hér til í nál. á þskj. 474 að þetta frv. verði fellt. Þetta frv. er eins konar fáni íhaldsins í þeirri ríkisstj. sem nú situr hér í landinu, eins konar sigurfáni, sigurflagg ákveðinna frjálshyggjuafla framan í Framsfl. Sumir mundu kalla það níðstöng frjálshyggjunnar framan í Framsfl. Hér er um að ræða frv. til l. um að framkvæma hugmyndir ofstækisfyllstu frjálshyggjupostulanna í Sjálfstfl. og það er kannske engin tilviljun að einn af höfuðhugmyndafræðingunum settist hér að í alþingishúsinu einmitt í dag, sá sem hefur skrifað langar og lærðar greinar um þann vanda sem blasir við þeim mönnum sem vilji selja ömmu sína, svo ég vitni í greinar sem voru birtar fyrir nokkru, en það var eins og kunnugt er ekki hægt vegna þess að viðkomandi hafði ekki þinglýst eignarhald á ömmunni.

Þetta frv. var sent til umsagnar m. a. hjá alþýðusamtökunum og niðurstaða þeirra var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. var sent Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til umsagnar. Hvor tveggja samtökin hafa svarað og lýst yfir andstöðu sinni við frv. Umsagnir ASÍ og BSRB eru birtar hér sem fskj.“

Í lokaorðum umsagnar miðstjórnar ASÍ, sem samþykkt var einróma á fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins 2. febr. s. l., segir svo:

„Umsögnin er einföld: Tillögurnar eru eðlilegur þáttur í þeirri samfelldu stefnu ríkisstj. að gera þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari. Alþýðusambandið getur ekki gert þá stefnu að sinni.“

Hér er að mínu mati, herra forseti, komið að kjarna þessa máls. Þess vegna tel ég að miklu brýnna væri að bæta kjör lágtekjufólks með breytingum á skattalögum fremur en að veita atvinnurekendum og fjármagnsöflum enn frekari skattfríðindi. Þess vegna legg ég til, herra forseti, að þetta frv. verði fellt.

Fari hins vegar svo mót vonum mínum að þetta frv. verði samþykkt vil ég að því verði haldið til haga í þingtíðindum sem formlegri ósk af minni hálfu að skattyfirvöld og fjmrn. leggi á það mjög þunga áherslu að skrá rækilega þá aðila sem nota sér þær heimildir sem þetta frv. gerir ráð fyrir og hversu miklar upphæðir er þar um að ræða hverju sinni, þannig að unnt verði fyrir stjórnvöld að fylgjast mjög nákvæmlega með þeim áhrifum sem kunna að verða af samþykkt frv. þessa fyrir atvinnulífið í landinu. Ég held að þau áhrif séu í raun og veru og verði í raun og veru ekki svo ýkjamikil fyrir atvinnulífið og fjölgun starfstækifæra. Ég held að hérna verði þvert á móti um að ræða lagareglur sem komi fjármagnseigendum fyrst og fremst til góða, án þess að það þurfi endilega að skila árangri í atvinnulífinu sjálfu. Þetta frv. er nefnilega undirbúið og flutt af aðilum sem eru mjög ókunnugir í atvinnulífinu. Þetta eru skrifborðsatvinnurekendur, eins og hv. þm. Þorsteinn Pálsson sem starfaði um skeið hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, menn sem þekkja ekkert til í atvinnulífinu sjálfu. Þess vegna hygg ég að í raun breyti þetta litlu um fjölgun atvinnutækifæra í landinu, en hins vegar geti þetta hyglað stórum fjármagnseigendum á kostnað fólksins í landinu.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um það úr þessum ræðustól á þessu stigi málsins. Það er samkomulag um það milli flokkanna hér í þinginu að nú verði mætt fyrir nál. þeirra tveggja mála sem hér um ræðir, þ. e. 159. og 160. máls, en síðan verði umr. frestað og haldið áfram á mánudag. Ég get þessa hér vegna þess að ég vil gjarnan að það sé skýrt um hvað menn eru að gera samkomulag. Ég minni á að einn aðili að meirihlutaáliti um mál þetta hefur skrifað undir nál. með fyrirvara. Hann er hins vegar fjarverandi í dag, hefur boðað veikindi, og því eðlilegt að honum verði gefinn kostur á því, svo og öðrum þm., að ræða málið nánar n. k. mánudag eða þegar hæstv. forseta sýnist rétt að taka málið til framhaldsumr.