26.03.1984
Neðri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4128 í B-deild Alþingistíðinda. (3522)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. um frv. til l. um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt.

Þetta mál er flutt samhliða því frv. sem var til umr. fyrr í dag og er í órjúfanlegu samhengi við þá stefnumörkun sem þar er fram sett. Það kom fram í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstj. að hún vildi að gerðar yrðu sérstakar breytingar á skattalögum í því skyni að örva fjárfestingu og eiginfjármyndun í atvinnulífinu, en það má öllum ljóst vera að öflugt atvinnulíf er forsenda bættra lífskjara. Frv. eru bæði tvö flutt til að koma í framkvæmd þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstj.

Í frv. er um að ræða breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt er lúta bæði að einstaklingum og atvinnufyrirtækjum. Að því er einstaklingana varðar er hér um þrjá meginþætti að ræða.

Í fyrsta lagi er um að ræða arð og færslur í stofnsjóði, en gert er ráð fyrir að fenginn arður af hlutabréfaeign verði frádráttarbær hjá einstaklingum allt að 10% af nafnverði einstakra hlutabréfa eða hluta, en þó að hámarki 25 þús. kr. hjá einstaklingi og 50 þús. kr. hjá hjónum. Hliðstæð ákvæði hafa verið og eru reyndar enn í gildandi lögum, en mörkin eru allmiklu lægri en hér er kveðið á um.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir að frádráttarbær hámarksupphæð, sem færð er félagsmanni í samvinnufélagi til tekna í stofnsjóð vegna viðskipta hans við félagið, hækki úr 5% í 7%.

Annar þátturinn lýtur að fjárfestingu einstaklinga í atvinnurekstri. Þar er um að ræða nýmæli þar sem einstaklingum er heimilað að draga frá tekjum sínum árlega aukningu á fjárfestingu í atvinnurekstri, allt að 20 þús. kr. hjá einstaklingi og 40 þús. hjá hjónum. Það er einmitt þetta ákvæði sem ætlað er að örvi beina þátttöku almennings í atvinnurekstrinum.

Það eru fjórar meginleiðir sem unnt er að fara að þessu marki: Í fyrsta lagi myndun bundinna stofnfjárreikninga í bönkum og sparisjóðum. Í öðru lagi er um að ræða fjárfestingu í hlutabréfum hlutafélaga, þar sem hlutafé er ekki undir 10 millj. kr. og hluthafar eru eigi færri en 50. Við þetta atriði hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. flutt brtt. varðandi 160. mál, þar sem gert er ráð fyrir að takmörkin verði færð niður í 5 millj. kr. að því er hlutafé varðar og 50 hluthafa. Í þriðja lagi er um að ræða tillög í starfsmannasjóði sem sérstaklega eru myndaðir til kaupa á hlutabréfum í hlutafélögum sem þeim eru tengd. Og í fjórða lagi er um að ræða fjárfestingu í hlutabréfum í sérstökum fjárfestingarfélögum sem mynduð yrðu til kaupa á áhættufé atvinnufyrirtækja og skuldabréfum þeirra.

Í frv. á þskj. 251, 160. máli, er kveðið á um með hvaða hætti þessum frádráttarliðum verður komið fyrir. Þriðji þátturinn lýtur svo að hlutabréfaeign og stofnfjárinnstæðum, en þar er lagt til að hlutabréfaeign og innstæður á stofnfjárreikningum einstaklinga verði heimilt að draga frá eignum einstaklinga við ákvörðun á eignarskattsstofni, allt að 250 þús. kr. hjá einstaklingi og 500 þús. kr. hjá hjónum.

Að því er atvinnufyrirtækin varðar er fyrst og fremst um að ræða það nýmæli að gert er ráð fyrir myndun fjárfestingarsjóðs. Einstaklingar og félög, sem hafa skattskyldar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, geta myndað fjárfestingarsjóð með frádrætti frá tekjum, allt að 40% af.skattskyldum hagnaði ársins. Helmingur af tillagi í fjárfestingarsjóð skal bundinn á reikningi í banka eða sparisjóði, sérstökum fjárfestingarreikningi.

Í öðru lagi er lagt til að úthlutaður arður verði frádráttarbær hjá hlutafélagi að fullu allt að 10% af nafnverði hlutafjár og getur frádrátturinn myndað yfirfæranlegt rekstrartap. Frádráttarbær arður af viðskiptum félagsmanna samvinnufélaga verði að hámarki 7% í stað 5% af viðskiptum félagsaðila.

Í þriðja lagi eru fyrningarreglur rýmkaðar í því skyni að örva atvinnufyrirtæki til endurnýjunar. Það skiptir miklu máli við núverandi aðstæður, öra tækniþróun og þegar ljóst er að íslenskt atvinnulíf þarf að laga sig að breytingum nútímaframleiðsluhátta.

Fjh.- og viðskn. hefur farið yfir þetta frv. og rætt það á allmörgum fundum, kallað til sérfræðinga og embættismenn til að gefa upplýsingar og yfirfarið álitsgerðir hagsmunasamtaka launþega og atvinnulífs sem fyrir n. hafa legið. Meiri hl. n., Páll Pétursson, Guðmundur Einarsson, Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson og Halldór Blöndal, mæla með því að frv. verði samþykkt. Guðmundur Einarsson skrifar undir nál. með fyrirvara og gerir sérstaklega grein fyrir honum.