26.03.1984
Neðri deild: 64. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Suðurl., frsm. meiri hl. n., felast í þessu frv. margvíslegar tillitiðranir og ívilnanir að því er varðar skattskyldar tekjur. Þær varða annars vegar einstaklinga, þ. e. heimild þeirra til að nýta sér frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, sbr. það mál sem var til umr. áðan, og hins vegar ýmsar skattaívilnanir til fyrirtækjanna í landinu og reyndar til hlutafjáreigenda.

Að því er varðar skattaívilnanir til fyrirtækjanna í landinu er í tengslum við það gert ráð fyrir að framlög í svonefnda fjárfestingarsjóði komi í stað varasjóðstillaga.

Varðandi frádráttarheimildir vegna fjárfestingar í atvinnurekstri skv. 160. máli, sem var hér til umr. rétt áðan, vísa ég til þess sem ég þar sagði um þá mismunun sem greinilega felst í því frv. í þeim búningi sem það hefur nú og þeirrar afstöðu minnar að vegna þeirra galla sem á því eru ætti að nýta tímann til að endurskoða það frv., enda um öll ákvæði þess svo ástatt að ekki er gert ráð fyrir að þau taki gildi fyrr en um næstu áramót.

Ég vil líka í þessu sambandi taka sérstaklega til umræðu það sem varðar fjárfestingarsjóði. Ég tel að hér sé um mjög athyglisverða hugmynd að ræða, þ. e. þá hugmynd að láta fjárfestingarsjóði koma í stað varasjóðs og varasjóðstillaga. En hitt verður að segjast að framkvæmdin er nokkuð flókin. Þegar skattstjóri Reykjavíkur kom á fund n. hafði hann af því verulegar áhyggjur, lét í ljós kvíða sinn, að eins og þetta væri úr garði gert í frv. eins og það liggur fyrir mundi það þýða mjög vaxandi vinnuálag á starfsfólki skattstofunnar, það þyrfti að fylgjast með mjög mörgum þáttum og jafnvel úrskurða um atriði eftir að eðlilegur tími til slíks úrskurðar væri á enda runninn, þar sem um svo margar mismunandi viðmiðanir væri að ræða. Þó að þetta atriði sé mjög athyglisvert held ég að um það gildi hið sama og ég benti á að því er varðaði 160. mál, að skynsamlegt væri að skoða þetta mál nánar og leita einföldunar á þessum atriðum þannig að framkvæmdin mætti ganga snurðulaust fyrir sig og það væri ekki hætta á því að menn lentu í villum vegna þess hversu flókið þetta væri í framkvæmd.

Önnur atriði frv. en þessir tveir þættir, sem ég hef hér sérstaklega rakið, varða annars vegar lækkun á skattlagningu hlutafjár í eigu einstaklinga og hins vegar lækkun á sköttum fyrirtækjanna. Það gerist með því að úthlutaður arður verður frádráttarbær hjá hlutafélagi allt að 10% af nafnverði hlutafjár og reyndar af viðskiptum við samvinnufélög allt að 7% af viðskiptum upp að marki sem er verulega hækkað frá því sem hefur verið í gildi að undanförnu. Það gerist með því að hlutabréf og stofnfjárinnstæður verða eignarskattsfrjáls allt að 250 þús. kr. hjá einstaklingi og 500 þús. kr. hjá hjónum. Þá fer nú að verða fátt eftir sem verður eignarskattstofn nema fasteignir einar. Menn ættu þá að íhuga hvort þeir séu ekki komnir á það rólið að ætla sér eingöngu að vera með fasteignaskatt sem skiptist á milli sveitarfélaga og ríkis.

Þetta gerist líka með þeim hætti að það eru hækkuð skattfrelsismörk fyrir arð sem menn fá af hlutafélögum og reyndar af færslum í stofnfjársjóði samvinnufélaga líka. Og loks er um það að ræða að skattskyldar tekjur fyrirtækja verða lægri vegna þess að fyrningarheimildir eru rýmkaðar og hækkaðar.

Fyrir utan þá tvo þætti sem ég gerði fyrst að umtalsefni er ljóst að hér er fyrst og fremst um að ræða að lækka skatt á fyrirtækjum og atvinnurekstri og reyndar af hlutafjáreign. Það eru vitaskuld engin skilyrði til þess nú, þegar launafólk hefur fórnað fjórðungi kaupmáttar síns og þannig jafnframt verið fluttir stórfelldir fjármunir til fyrirtækjanna, að bæta ofan á það sérstakri skattalækkun til fyrirtækja og hlutafjáreigenda. Þetta er þeim mun ankannalegra þar sem nú er nýafgreidd frá þinginu önnur sérstök skattalækkun til fyrirtækjanna, þar sem gert er ráð fyrir að skattprósenta þeirra verði mun lægri en hjá einstaklingum, og er þar vikið frá reglu sem hefur verið í gildi hér áratugum saman. Fólkið í landinu, hið venjulega launafólk, almenningur allur, hefur þegar tekið á sig miklar byrðar á undanförnum mánuðum í kjörum sínum og reyndar með þeim skattalögum sem hér hafa þegar verið samþykkt um skattlagningu á almenning. Við þessar aðstæður verða fyrirtækin vitaskuld líka að axla sitt.

Að lokum þetta: Ég er sannfærður um að skattlagning fyrirtækja og atvinnurekstrar þarfnast margvíslegrar endurskoðunar til þess að gera hana skilvirkari og réttlátari, en ég held ekki að skattlagning fyrirtækjanna í heild í landinu sé þeim ofviða eða sé of há. Þegar ríkisstj. nú gerir það samtímis að tilkynna mikla fjárvöntun ríkissjóðs og sérstaka skattalækkun á fyrirtækjum verður að segjast að það kemur mér a. m. k. mjög spánskt fyrir sjónir.

Að endingu má svo benda á að þau ákvæði sem eru í þessu frv. eru eiginlega afturvirk, og hefur þó verið mjög talað gegn afturvirkum ákvæðum með því að þau varða tekjur s. l. árs, og allt stendur nú á blístri í framtalsgerð fyrirtækjanna vegna þess að fyrir höndum sé að samþykkja þessa afturvirkni sem hér um ræðir.

Með tilliti til þess sem ég hef þegar sagt og að það er engin aðstaða til þess nú að lækka enn og aftur skattlagningu á fyrirtækjum í landinu, en jafnframt með tilvísun í þá afstöðu sem hefur komið fram varðandi 160. mál hjá mér og fjárfestingarsjóðina, þá er það mín skoðun að ekki sé um annað að ræða en að fella þetta frv. Í samræmi við þetta hefur minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. skilað áliti sem við stöndum að saman, eða sá sem hér tala og Svavar Gestsson. Þar leggjum við til að það frv. sem hér er til umr. verði fellt.