26.03.1984
Neðri deild: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4136 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram hér í umr., þá má skipta ákvæðum þessa frv. í grófum dráttum í tvennt. Það eru atriði sem varða einstaklinga og síðan eru atriði sem varða fyrirtæki. Af þeim atriðum sem einstaklingana varðar, þá skipta mestu máli þau sem eru í sambandi við fjárfestingu í atvinnurekstri. Við höfum raunar gert þau að umtalsefni í umr. hér fyrr í dag og ég sé ekki ástæðu til að bæta þar við neinu. Hin atriðin í þessu samhengi varðandi arð af hlutabréfum. Þar er lagt til að arður af hlutabréfum verði frádráttarbær til tekjuskatts allt að 25 þús. kr. Þetta er hvatning til aukinnar fjárfestingar í atvinnulífi og var áður. Nú eru hins vegar tölur hækkaðar. Hér er því engin nýlunda á ferðinni. Í þriðja lagi kemur hér undir þennan haus skattfrelsi hlutabréfaeignar til eignarskatts allt að 250 þús. kr. Hér er um það að ræða að þessi sparnaður eða ávöxtunarleið fjár njóti jafnræðis við sparifé í bönkum. Ég álít því ekki að þetta sé út af fyrir sig sérstakrar umfjöllunar vert.

Það sem menn hafa kannske meiri áhuga á í þessu máli eru þær breytingar sem varða fyrirtækin sjálf. Það sem má kalla mesta nýlundu þar er að taka upp fjárfestingarsjóði sem eigi að koma á vissan hátt í stað varasjóðs. Það sem skiptir þar mestu máli er í fyrsta lagi að framlög í fjárfestingarsjóði eiga að geta numið mest 40% af hreinum tekjum og þeir eru verðtryggðir. Framlög í varasjóði gátu einungis numið um 25% en þeir voru hins vegar ekki verðtryggðir. Það er erfitt að segja nákvæmlega um það hvernig þetta mun koma út í framtíðinni í praxís með þeim ákvæðum sem um þetta gilda, en þetta mun kannske á einhvern hátt leiða til frestunar skattgreiðslna. Verðtryggingarákvæðið varðandi þennan lið er mjög mikilvægt og ætti að metast í raun. Undir þennan lið koma líka fyrningar. Þar er um að ræða breytingar á fyrningum sem í raun og veru eru aðlögun að raunveruleika sem við þekkjum vegna breyttra atvinnuhátta, vegna breyttrar tækni. Þetta er aðlögun að staðreyndum nútímans um úreldingu gamalla tækja og gamalla aðferða og þeirri staðreynd að til þess að vera samkeppnisfær þarf atvinnuvegurinn í örara og ríkari mæli en áður að taka upp nýjar aðferðir og afla sér nýrra tækja. Þessar breytingar um fyrningarnar eru því sjálfsagðar í ljósi þeirra staðreynda, sem við okkur blasa um aðferðir og tækni í atvinnulífi.

Sú deila sem um þetta stendur er í fyrsta lagi hver tekjulækkun ríkissjóðs kann að verða af þessum aðgerðum. Það hefur komið fram í nefnd að þessa lækkun er erfitt að meta. Eins og ég vék að áðan, þá frestast sköttun kannske að einhverju leyti með ákvæðum frv. Það verður því að líta á þetta til lengri tíma þeirra hluta vegna. Það verður sömuleiðis að líta á þetta til lengri tíma vegna þess að ef markmiðið með þessum breytingum næst, sem er efling atvinnulífs, þá mun þetta væntanlega skila sér síðar í auknum sköttum. Þetta er um hugsanlegar breytingar eða hugsanlega tekjulækkun ríkissjóðs af þessum völdum.

Annað sem náttúrlega hlýtur að hvarfla að okkur, ekki síst í dag, er hvort við höfum efni á eða hvort skilyrði séu til að lækka á þennan hátt, þó kannske til skamms tíma sé, skatta á fyrirtækjum. Það er gengið hart að einstaklingum í þjóðfélaginu og menn spyrja sig hvort núna sé rétti tíminn til að gera þessar breytingar. Því er vafalaust vandasamt að svara. Okkur mun líklega aldrei finnast nákvæmlega rétti tíminn til að gera svona breytingar. Okkur mun væntanlega aldrei finnast skilyrði svo sérstaklega góð að við höfum efni á einhverjum sérstökum aðgerðum í þessum málum. Það er vandasamt að bregðast við lækkuðum tekjum í þjóðfélaginu og það vandasamasta er kannske að finna þær aðgerðir sem til framtíðar geta rifið okkur upp úr þeim lægðum sem við lendum í. Út af fyrir sig er ekki vandasamt að gera niðurskurð. Það er hægt að gera niðurskurð á einstökum atriðum og fresta hlutum. Það sem er vandasamast og þarf stundum hugrekki til er að gera þær breytingar sem við vitum og vonum að muni til frambúðar bjarga okkur. Menn fórna stundum manni í erfiðri stöðu til þess að ná betri stöðu síðar í taflinu. Ég held að við verðum að líta svo á, að þær fórnir sem við kannske færum í augnablikinu, á þessu ári og næsta, með tekjulækkun ríkissjóðs af þessum völdum, sú fórn skili sér og við græðum á henni þegar til lengdar lætur.

Það sem ég held að sé líka rétt að minnast á í þessu sambandi er að samfara því að löggjafinn gerir þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að skapa eðlileg vaxtarskilyrði fyrir atvinnulíf og fyrir fyrirtæki í landinu, þá hlýtur það alltaf að vera umhugsunarefni fyrir þann sama löggjafa að búa svo um hnútana að launþegar geti á hverjum tíma sótt réttlátan skerf sinn til þessara sömu atvinnufyrirtækja. Þá á ég við samningsaðferðir á vinnumarkaði. Eins og það tíðkast núna, þá eru viðurkennd þau rök að atvinnufyrirtæki í landinu, sem eru gífurlega ólík að afkomu og aðstöðu, eigi að greiða laun, sem eru meðaltal af afkomu og afkomuleysi fyrirtækja á landsvísu, meðaltal sem er reiknað upp á Rauðarárstíg. Ég tel þetta algerlega ófullnægjandi. Ég tel að á nákvæmlega sama hátt og það er verðugt viðfangsefni að búa svo um hnútana að atvinnufyrirtækin geti blómstrað bæði í nútíð og framtíð sé það líka verðugt viðfangsefni fyrir löggjafann að setja þann ramma um samningamál aðila á vinnumarkaði að launþegar geti sótt það sem þeir kalla réttlátan skerf til atvinnufyrirtækjanna. Og ég tel það betri leið og drýgri og öllum til ánægju og yndisauka að atvinnufyrirtækin skili á þann hátt gagnsemi í þjóðarbúið. En til þess að það geti gengið eins og við höfum séð að undanförnu, þá verða menn að líta nýjum augum á samningaprósessinn. Menn geta kannske spurt sig hvort hægt sé að draga einhverja lærdóma af því sem við höfum séð núna undanfarið, þar sem viðbætur í launamálum fengust ekki með samfloti eða meðaltölum á landsvísu heldur með því að semja í minni einingum eins og Dagsbrún og þeir Vestmanneyingarnir gerðu.

Ég held að það sé allt í lagi fyrir hv. þm. að dusta í kolli sínum rykið af tillögum okkar Bandalagsmanna í þessu efni þar sem við leggjum til að samið sé á grundvelli einstakra fyrirtækja, þar sem upplýsingarnar um afkomuna eru til staðar, þar sem stjórnendur, þar sem eigendur, þar sem launþegar geta tekist á á heimavelli vitandi um aðstæður í fyrirtækinu og vitandi vel um rekstrarafkomu. Á þennan hátt munu fyrirtækin í landinu skila betri og réttlátari arði til þjóðfélagsins en á þann hátt sem nú gerist.

Ég skrifaði undir meirihlutaálit vegna þessa frv. með fyrirvara. Sá fyrirvari er vegna þess að ég tel í raun og veru óalandi og óferjandi að setja lög um skattamál sem verka svona eftir á. Við erum búin að sjá þetta endurtekið á undanförnum vikum. Þetta er í hróplegu ósamræmi við stefnu ríkisstj. sem þykist leggja áherslu á skipulag og festu í fjárhagsmálum, bæði sjálfra sín og annarra. Þess vegna geri ég þann fyrirvara um þetta frv. Hins vegar kýs ég að taka efnislega afstöðu til þess og þeirra tillagna sem það ber varðandi skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja og þess vegna stend ég að áliti meiri hl.