27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4179 í B-deild Alþingistíðinda. (3562)

429. mál, samanburðarkannanir á launakjörum kvenna og karla

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í þeirri fsp. sem hér er fram borin er þeirri spurningu beint til forsrh. hvort stjórnvöld séu með ákveðnum aðgerðum tilbúin til að stuðla að því að launajafnrétti kynjanna verði virt í þjóðfélaginu.

Ég tel rétt að rifja upp í nokkrum orðum það tregðulögmál sem virðist ríkja í þessu máli og rökin fyrir nauðsyn þess að löggjafarvaldið beiti sér í þessu máli, en sitji ekki hlutlaust hjá þegar svo augljóst er að launamisrétti kynjanna á sér stað víða í þjóðfélaginu.

Eftir því sem næst verður komist er það fyrst árið 1948 sem frv. er lagt fram á Alþingi sem lýtur að því að uppræta það launamisrétti kynjanna sem upphaflega var á vinnumarkaðnum og fram kom í mismun á launatöxtum kynjanna. Í ár og áratugi höfðu konur þá haft forgöngu um að ná fram þessu launajafnrétti með eðlilegum hætti á vinnumarkaðnum án íhlutunar löggjafans. Árið 1953 er frv. um launajafnrétti kynjanna lagt fram á nýjan leik, síðan 1954 og loks 1961 var lagt fram frv., sem að lögum varð, um að launajafnrétti skyldi nást fram í áföngum á sex árum. Áður hafði orðið að lögum frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem m. a. kveða á um að konur og karlar hjá hinu opinbera skyldu hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.

Af þessari upptalningu má sjá að um 20 ár líða frá því að málinu er fyrst hreyft á Alþingi þar til löggjafinn sér ástæðu til að taka af skarið og samþykkja lög sem kveða á um launajafnrétti kynjanna. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að þau lög voru sett, sem að fullu komu til framkvæmda 1967, hafa síðan verið sett lög um jafnlaunaráð frá 1973, lög um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf og lög um jafnrétti kvenna og karla frá 1976. Nú, 20 árum eftir að lög sem taka áttu af öll tvímæli um það að ekki mætti mismuna kynjunum í launum á vinnumarkaðnum og 40 árum eftir að málið er fyrst lagt fram á Alþingi, stöndum við enn í svipuðum sporum. Enn á sér stað mikil mismunun í launum og kjörum kvenna og karla á vinnumarkaðnum. Það er raunar með ólíkindum hvað konur hafa verið þolinmóðar þó lítið hafi þokast í þessum málum.

Reyndin er einnig sú, að eftir að lögin frá 1961 eru sett voru taxtarnir að vísu leiðréttir en launamisréttinu hefur verið við haldið með öðrum hætti, t. a. m. yfirborgunum, stöðuheitum, bílastyrkjum, ómældri yfirvinnu og öðrum duldum greiðslum og fríðindum á vinnumarkaðnum. Fyrir nokkru var rætt hér á Alþingi um skýrslu þá sem lögð var fram, þar sem fram kemur hvernig ómæld yfirvinna og greiðsla fyrir afnot af starfsmannabílum skiptist milli kynja. Þar kemur fram mjög mikill mismunur, að karlmenn hafa 92–95% af greiðslum sem greiddar eru hjá ríkinu fyrir ómælda yfirvinnu og afnot starfsmanna af bílum meðan konur hafa aðeins 5–8%. sú fsp. sem nú er lögð fyrir forsrh. er svohljóðandi: „Er forsrh. tilbúinn til að beita sér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að samanburðarkannanir verði gerðar á launakjörum kvenna og karla í öllum starfsstéttum, jafnt á launatöxtum sem öðrum kjaraþáttum, og að niðurstöður liggi fyrir í lok samningstímabils á vinnumarkaðnum?“

Við sem berum fram þessa fsp. til hæstv. forsrh. teljum það algjöra forsendu fyrir að hægt sé á raunhæfan hátt að taka á þessu máli að stjórnvöld hafi forgöngu um að upplýsa um stöðuna í þessum málum hjá öllum starfsstéttum til að hægt sé að leita raunhæfra leiða til að taka á þessu máli og að niðurstöður liggi fyrir þegar næst verður samið á vinnumarkaðnum. Þegar allar kannanir sem gerðar hafa verið staðfesta ótvírætt að lög um launajafnrétti kynjanna séu brotin í jafnríkum mæli og raun ber vitni ber Alþingi skýlaus skylda til að grípa í taumana og gera það sem í þess valdi stendur til þess að lögin séu í reynd virt í samfélaginu. Það eru ekki eingöngu í húfi mannréttindi kvenna í samfélaginu, heldur og virðing Alþingis, sem ekki er stætt á að sitja lengur hjá eins og allt sé í stakasta lagi þegar lög og samþykktir, sem það hefur gert, hafa í a. m. k. tvo áratugi ekki verið virt í samfélaginu, að ekki sé talað um þau ósköp, ef það er raunin, sem margt bendir til, að lögin séu virt að vettugi hjá framkvæmdavaldinu og í opinberum stofnunum jafnt og á almenna vinnumarkaðnum.

Það hefur orðið mikil umræða um þessi mál í þjóðfélaginu og eins og flestum er kunnugt hafa konur tekið höndum saman, bæði í stéttarfélögum, stjórnmálaflokkum og kvennasamtökum, um að leita leiða til úrbóta í þessum málum. Konur hafa í áratugi sýnt mikið langlundargeð, en nú er þolinmæðin þrotin. Við krefjumst raunhæfra aðgerða og krefjumst þess að ríkisvaldið leggi sitt af mörkum til þess að þessi mannréttindi verði virt í samfélaginu. Af því tilefni er þessi fsp. fram borin og um leið og ég vænti þess að hæstv. forsrh. gefi skýr svör við þessari fsp. vil ég afhenda honum samantekt um stöðuna í launamálum kvenna sem gerð hefur verið á vegum framkvæmdanefndar um launamál kvenna. Þær staðreyndir sem þar koma fram eru ótvíræð staðfesting þess að lög í landinu um jafnrétti kynjanna til launa eru brotin. Því er það skýlaus skylda framkvæmdavaldsins að sjá um að þessi lög sem og önnur séu virt í samfélaginu, kannske ekki síst þegar margt bendir til að hið opinbera virði ekki heldur þessi lög sem Alþingi hefur sett.