27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4196 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Virðulegur menntmrh. hefur kosið að flétta fjölskyldumál sín mjög inn í vörn sína í þessu máli og verður það að vera hennar val að gera það. (Menntmrh.: Á þá Þjóðviljinn bara að fá að skrökva upp á fólk í friði alveg eins og honum sýnist?) Nei, nei, við skulum ræða það hér fyrst hæstv. ráðh. hóf að gera það í salnum. Hins vegar segir sagan að það hafi verið Framsfl. og Tíminn sem skrifað hafi meira um Helga Tómasson en Alþb. Ef hæstv. ráðh. er á annað borð að rifja upp þau samskipti hér í þingsölum held ég að Framsfl. og Tíminn og forráðamenn þess flokks eigi þar stærsta sögu.

Ástæðan fyrir því að Þjóðviljinn birti bréf J. Ingimars Hanssonar var það að Þjóðviljinn hafði haldið því fram að þeir rekstrarráðgjafar sem störfuðu hjá Rekstrarstofunni væru jafnframt eigendur fyrirtækisins og rækju fyrirtækið. J. Ingimar Hansson sendi hins vegar blaðinu bréf þar sem að hann bar það til baka og sagði að fyrirtækið væri algert einkafyrirtæki sitt. Þess vegna hefðu einstakir rekstrarráðgjafar, þótt þeir væru tilgreindir í bréfhaus, ekkert með fyrirtækið að gera. Þjóðviljinn vakti hins vegar athygli á því á sama hátt og hæstv. ráðh. hefur ítrekað vitnað í símaskrána lögskýringum sínum til stuðnings að Rekstrarstofan er einnig tilgreind við nafn bæði Helga Þórssonar og annarra ráðgjafa í símaskránni. Mér sýnist hæstv. ráðh. hafa hér í umr. haldið nákvæmlega því sama fram og Þjóðviljinn gerði. Þess vegna sé engin ástæða fyrir okkur að deila um það. Hæstv. ráðh. greindi frá því hér hvað eftir annað að Gunnar Guðmundsson sem sjálfstæður rekstrarráðgjafi hefði unnið þetta verk en ekki Rekstrarstofan sem fyrirtæki. Það er einmitt það sem Þjóðviljinn hélt fram, að það væru einstakir rekstrarráðgjafar sem skráðir eru á bréfhaus þess fyrirtækis sem væru aðilar að rekstrinum og stæðu saman um hann. Það liggur alveg ljóst fyrir að þar er ekki mikill ágreiningur á milli.

Ég vil síðan, herra forseti, að lokum vekja athygli á því að hæstv. ráðh. svaraði ekki ýmsum mikilvægum spurningum sem til hennar var beint varðandi þetta mál. Hæstv. ráðh. svaraði því ekki hvers vegna ekki hefði verið gerður verksamningur við Rekstrarstofuna um þessa úttekt. Hæstv. ráðh. svaraði því ekki hver hefði skrifað bréfið um úttektina til Rekstrarstofunnar og hvort hún væri reiðubúin að birta það bréf svo að þingið gæti skoðað þau fyrirmæli sem Rekstrarstofan fékk. (SalÞ: Á hvaða þskj. er sú fsp.?) Það er venja hér í fyrirspurnatíma til að greiða götu mála, að hæstv. ráðh. svari einföldum spurningum bara með já-i eða nei-i. Ég held að í þessu máli mundi það greiða mjög fyrir. En greinilegt er að í Sjálfstfl. eru fleiri en ráðh. á því að best sé að reyna að tefja meðferð þessa máls sem mest. Að lokum svaraði hæstv. ráðh. því ekki heldur hvort hún væri reiðubúin að birta þinginu þá skýrslu sem hér um ræðir svo að þingið geti sjálft fengið að dæma um þau vinnubrögð sem hún vék að.

En frá hinu getur ekki hæstv. ráðh. hlaupist að að dómi færustu manna er hér tvímælalaust um lögbrot að ræða. Hér er um að ræða pólitísk mistök sem hafa ekkert með það að gera að Sólrún Jensdóttir sé kona ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. Það sýnir kannske best hve lélegan málstað hæstv. ráðh. hefur að verja í þessum málum efnislega að hún skuli þurfa að skjóta sér á bak við tilhöfðun til kvenna til að verja stöðu sína. Það sem verið er að gagnrýna hér er að manneskja, sem kom inn í rn. sem pólitískur trúnaðarmaður og pólitískur ráðgjafi ráðh., er síðan með brotum á lögum Stjórnarráðs Íslands gerð að skrifstofustjóra. Það hefur ekkert með það að gera hvort um karl eða konu er að ræða heldur að manneskja, sem kom inn í rn. sem pólitískur trúnaðarmaður, sem pólitískur fulltrúi ráðh., er gerð embættismaður með þeim hætti sem hér hefur verið rætt um.