01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

28. mál, afnám bílakaupafríðinda embættismanna

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt fimm öðrum þm. Alþfl. að flytja hér till. til þál. um afnám bílkaupafríðinda embættismanna. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsrh. að hlutast til um að felldar verði úr gildi þær reglur sem nú kunna að gilda um fríðindi hliðstæð þeim, er ráðherrar hafa notið varðandi bifreiðakaup, gagnvart yfirmönnum ríkisstofnana, svo sem ríkisbanka og Framkvæmdastofnunar.“

Í grg. segir m.a. á þá leið að þau fríðindi sem ráðh. hafa notið, að geta keypt bifreiðar án þess að greiða af þeim aðflutningsgjöld til ríkissjóðs, eins og almenningur verður að gera, hafi verið mjög til umræðu að undanförnu í fjölmiðlum. Jafnframt segir að ljóst sé að þessi fríðindi stangist á við réttarvitund almennings á Íslandi og frá því er greint að flutt hefur verið frv. til l. um breytingu á tollskrá, sem gerir ráð fyrir að þessi fríðindi til ráðh., þ.e. að þeir geti flutt inn bíla án þess að greiða af þeim aðflutningsgjöld, skuli felld niður. Fyrir því frv. var mælt í hv. Ed. í gær. Frv. er í rauninni endurflutt stjfrv. frá árinu 1979, sem ríkisstj. stóð þá að, og var frv. afgreitt frá Nd. en dagaði einhverra hluta vegna uppi í fjh.- og viðskn. Ed. á allra síðustu dögum þings þá um vorið. En samhliða því sem gerðar eru ráðstafanir til að fetla niður þessar reglur sem varða ráðh. er auðvitað eðlilegt að niður verði felldar hliðstæðar reglur sem kunna að vera í gildi varðandi aðra embættismenn.

Það þarf ekki, herra forseti, að fara um þetta mörgum orðum. Þessi mál hafa verið mjög til umr. með ýmsum hætti í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Enginn hefur dregið í efa að ráðh. ættu að hafa bifreið og bílstjóra til umráða. Hins vegar held ég að menn þurfi ekki að fara í neinar grafgötur um það að þessi fríðindi, sem ráðh. hafa notið, að geta flutt inn bifreiðar til einkaeignar án þess að greiða af þeim aðflutningsgjöld, stangast á við réttarvitund alls þorra almennings á Íslandi og þess vegna eigi að fella þau niður.

Ég ætla ekki að svo stöddu, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð en legg til að þáltill. verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn.