29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

184. mál, friðarfræðsla

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan svara hæstv. menntmrh. í nokkrum orðum ef hún væri í húsinu. (Forseti.: Ég skal athuga hvort hæstv. menntmrh. er í húsinu.)

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að lýsa skoðun sinni í þessu máli. En þó verð ég að segja að afstaða hennar hryggir mig og veldur mér miklum vonbrigðum. Í máli sínu vék hún ekki einu einasta orði að þeirri miklu ógn sem mannkyninu stafar af kjarnorkuvopnum. En þessi till. beinist fyrst og fremst að því að forðast þá ógæfu sem þessi vopn geta haft fyrir mannlíf allt. Ég vil vitna í fyrri orð mín, með leyfi forseta:

„Mannkyn sem kann að smíða kjarnorkuvopn þarfnast friðarfræðslu til að kunna að forðast sinn eigin dauðadóm.“

En hæstv. menntmrh. virðist sátt við þann frið sem henni virðist ríkja meðal manna, bæði í þessu þjóðfélagi og á alþjóðavettvangi. Hún virðist trúa því að viðleitni góðs uppeldis og þau meginatriði í siðuðu þjóðfélagi sem byggist á kristinni trú séu næg til að tryggja þann frið sem heimurinn þarf á að halda, þar þurfi engu við að bæta. Henni finnst nóg að gert og engu þurfi að breyta. Á þessari forsendu vísar hún till. á bug.

Hún tekur það dæmi sem sumir aðrir hafa tekið upp í þessari umr. á undan henni, t. d. hv. þm. Árni Johnsen, Halldór Blöndal og Jón Baldvin Hannibalsson, að tekin verði upp kennsla um vopn, hernaðarbandalög og alþjóðastjórnmál á dagvistarstofnunum. Það hryggir mig að hæstv. menntmrh. skuli nota slíka röksemd. Vitanlega væri slíkt fjarstæða og vitna ég annars vegar í mín eigin orð og hins vegar í orð hv. þm. Kristínar Kvaran um þetta mál. Friðarfræðsla barna hlýtur að miða að því að gera þeim kleift að ráða friðsamlega við vandamál í nánasta umhverfi og þannig að búa þau undir lífið, en ekki að kynna þeim neinn stóra sannleika í alþjóðastjórnmálum. Það er óviturlegt að vekja fyrst og fremst ótta með litlum börnum gagnvart einhverju sem þau skilja ekki og ráða ekki við. En hversu vel sem við viljum vernda þau kemur óttinn til þeirra úr umhverfinu fyrr en síðar. En hæstv. menntmrh. hlýtur að vita, þó ekki væri nema embættis síns vegna, að ein besta vörn gegn óttanum er þekkingin og það er hún sem þarf að miðla í samræmi við þroska og getu barna til að skilja. Enginn sem að þessari till. stendur hefur svo að ég viti haldið því fram að kenna eigi um vopn, hernað og alþjóðastjórnmál til að efla friðarvitund barna á dagvistarstofnunum. En á þessari forsendu hafnar hæstv. menntmrh. líka till.

Hæstv. menntmrh. segir voðhorf og forsendur flm. þessarar till. mismunandi og telur að þeir leggi í hana mismunandi skilning. Mér dettur nú bara í hug: Þýðir þetta þá að við allar þær tillögur og öll þau frumvörp, sem menn flytja hér saman í þinginu, ríki sami skilningur? Hlýtur ekki hver að bera sinn skilning að hverju máli því að öll erum við ólík? Er þetta raunsætt?

Upplýsingar um þessa afstöðu flm. — og þar nefnir hæstv. ráðh. alla flm. — fékk hún úr viðtali við 6 flm. þessarar till. í Morgunblaðinu að mig minnir að hún hafi sagt 7. febr. En hæstv. ráðh., það eru 13 flm. á þessari till. en það voru bara 6 spurðir í þessu blaði. Málstaður hinna hefur ekki fengið aðgang í þessu blaði fyrr en í dag. Á þessum forsendum er till. líka vísað á bug.

Ráðh. minntist enn fremur á að ekki mætti taka á þeim málum sem orka tvímælis í návist barna eða unglinga. En hvernig eiga þau þá að mynda sér skoðun? Okkur hlýtur að varða það miklu að í lýðræðisþjóðfélagi, sem við höfum þau forréttindi að búa í, séu unglingum ljósar meginstaðreyndir í meiri háttar málefnum, að þeir heyri röksemdir um allar hliðar mála og geti síðan myndað sér skoðanir. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja það að nemendur fái yfirvegaða mynd af hverju máli þar sem fyllsta jafnvægis er gætt við kynningu málsins. Hvað á að kenna í skólum ef ekki þetta? Og ég er þess fullviss að við getum treyst kennurum til þess og furða mig á því að nokkur skuli efast um hæfni þeirra til að tryggja slíkt.

Viðkvæm málefni, hvort sem þau eru stjórnmálalegs, félagslegs eða persónulegs eðlis, þarf að sjálfsögðu að fjalla um af nærgætni og það eru vitanlega skiptar skoðanir um mörg málefni er varða daglegt líf okkar og framtíð. Oft eru þetta sterkar skoðanir og andstæðar, en röksemdir þeirra þurfa unglingar engu að síður að þekkja ef menntun þeirra á að stuðla að því að þeim takist að gera veröld sína öruggari og betri til búsetu. Og er það ekki einmitt þetta sem við erum að reyna að undirbúa börn framtíðarinnar undir? Ég vona því innilega að hæstv. menntmrh. sjái sér fært að endurskoða þessa afstöðu sína. Ég bið hana eindregið að lesa þær umr. sem hér hafa orðið um málið og sýna þessu máli velvild, víðsýni og skilning. Öðrum ræðumönnum, sem mér finnst hafa stundað útúrsnúninga og hártoganir sem eru þeim ekki samboðnar, hirði ég ekki að svara.