04.04.1984
Neðri deild: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4481 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

269. mál, erfðafjárskattur

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. 10 landsk. þm. að það var miður að þetta mál skyldi koma til umr. án þess að fleiri hv. þm. væru viðstaddir til að taka þátt í umr. um svo veigamikið mál sem ég tei að sé hér á ferðinni og ég vænti að margir séu sammála um.

Mér hefur kannske orðið fótaskortur á tungunni þegar ég sagði „tekjur ríkissjóðs“. Ég ætlaði að segja tekjur erfðafjársjóðs.

Í sambandi við þetta mál vil ég rifja það upp, eins og raunar kom fram í minni framsögu, að tekjur af erfðafjárskatti hafa í gegnum árin ekki verið í neinu hlutfalli við það sem erfðafjársjóður hefur fengið af þeim tekjum vegna þess að það er sama um þennan sjóð eins og svo marga aðra sjóði, að ríkissjóður hefur þar látið til sín taka og skammtað, sem hefur verið staðfest með lánsfjárlögum hverju sinni, það sem viðkomandi sjóður hefur fengið af sínum löglega tekjustofni. Svo ég taki aðeins s. l. ár, 1983, þá voru innheimtar tekjur af erfðafjárskatti 37 millj. kr., en erfðafjársjóður fékk aðeins 19 millj. kr. Þá sjá menn hver tollurinn hefur verið í ríkissjóð af þessum tekjustofni, sem hefur svo verið staðfest á hverju ári af hv. alþm. með samþykkt fjárl. og lánsfjárlaga. Þannig hefur þetta verið í gegnum árin. Ég hef hér töflu alveg frá 1979 um hvernig þetta hefur komið út. Hins vegar hef ég í huga að nú verði á breyting, þannig að innheimtur erfðafjárskattur komi allur til skila í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég vil geta þess í leiðinni að það er alveg ljóst að við þurfum að gera vissa breytingu á lögunum um málefni fatlaðra. Framkvæmdasjóður fær aðeins tekjur úr erfðafjársjóði. Með því móti er enn beitt sömu aðferð við skilgreiningu á þessum tekjustofni, að það fer eftir fjárlagagerð ár hvert hve mikið fer af erfðafjárskatti til erfðafjársjóðs. Þessu þarf að breyta vegna þess að bæði ég og fleiri skiljum lögin um málefni fatlaðra þannig að tekjur af erfðafjárskatti eigi að vera alfarið tekjustofn fyrir Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég vænti þess að sem flestir hv. þm. muni styðja þá viðleitni, sem á eftir að koma hér fram, að tryggja að þær tekjur, sem hér er áættað eftir þá breytingu á lögunum sem hér er verið að leggja til að muni verða minnst 26 millj. kr., renni óskiptar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða meira um þetta atriði, en ég hef þá þann skilning og mun beita mér fyrir því að þessar tekjur renni óskiptar í Framkvæmdasjóð fatlaðra.

Þó að ég læsi hér upp álit fjárlaga- og hagsýslustofnunar að þetta fé muni rýrna um 11 millj. kr. taka þeir fram í athugasemdum að það sé aðeins ágiskun vegna þess að þeir reikna með að ýmsar aðrar breytingar verði jákvæðar til aukningar á tekjum sjóðsins, miðað við þær aðferðir sem hér eru gerðar tillögur um. Það hefur komið í ljós að tilhneigingin hefur verið að rýra þennan tekjumöguleika í uppgjöri búa, sem hefur verið að margra mati mjög óeðlilegt. Þar hefur verið um að ræða að eftirlifandi maki t. d. hefur orðið að hlíta því að láta gera upp sitt bú. Hefur oft verið tekið á þeim málum með tilliti til aðstæðna, sem hefur aftur á móti gert það að verkum að minna hefur innheimst í skatti.

2. gr. frv. varðar fólk í óvígðri sambúð. Hér er um mikið mál að ræða, sem margir hafa fjallað um og dregið í efa að ætti rétt á sér. Til fróðleiks vil ég geta þess að höfundur frv., Ragnar Hall og Markús Sigurbjörnsson, sem eru skiptaráðendur hér í Reykjavík, hafa gert mjög skilmerkilega greinargerð um þennan þátt málsins, þ. e. fólk í óvígðri sambúð. Niðurstaðan í þeirri greinargerð er sú, að þeir telja að það sé réttlætismál að setja þetta fram eins og höfundur frv. gerir í 2. gr. frv., þ. e. veita þessi réttindi. Það má geta þess að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er talið að heildarfjöldi í sambúð árið 1983 sé tæplega 100 þús. manns hér eða 99 968, þar af í hjúskap 89 902 eða 89.9%, en í óvígðri sambúð 10 066 eða 10%. Þannig eru þessi hlutföll. Þetta er gífurleg breyting frá árinu 1970, þegar aðeins 4% fólks voru í óvígðri sambúð. Hér er því um mjög mikla þjóðfélagsbreytingu að ræða. Hvort sem við fullyrðum að þetta sé jákvætt eða neikvætt eru þetta einfaldar staðreyndir.

Í sambandi við 2. gr. frv. eru settar fram skýrgreiningar, sem nauðsyn þykir bera til að taka upp til að koma í veg fyrir óeðlilega niðurstöðu, og leiða þær í öllum tilvikum til þess að viðkomandi lendir í hagstæðari skattflokki en ella:

„A-liður. Samkvæmt gildandi lögum er sambýlismaður ekki lögerfingi, en taki hann arf eftir þann, sem hann hefur búið í óvígðri sambúð með, á grundvelli erfðaskrár, ræðst fjárhæð erfðafjárskattsins af því, hvort hinn látni sambýlismaður átti niðja eða ekki. Hafi hinn látni átt niðja greiðir sambýlismaðurinn erfðafjárskatt samkvæmt lægsta skattflokki, en ella lendir hann í efsta skattflokki. Hér er hins vegar lagt til að réttarstaðan verði gerð hliðstæð því sem gildir um arf eftir látinn maka og verður sambýlismaður þá eftir 1. málsgr. 4. gr. frv. undanþeginn erfðafjárskatti. Óhjákvæmilegt þykir að binda þetta því skilyrði, að hinn látni sambýlismaður hafi tilgreint viðkomandi sem sambýlismann sinn í erfðaskrá, og er sá áskilnaður gerður til að koma í veg fyrir lagaflækjur.“

Ég skal játa að ég hef ekki gert mér fyllilega grein fyrir því hversu traust þetta er í meðferð svona mála á lagamáli, en hins vegar hef ég verið fullvissaður um að þeir aðilar sem hafa nálægt þessu frv. komið, sem eru fyrst og fremst þeir sem fjalla um svona mál hér í Reykjavík, þ. e. skiptaráðendur, hafi með því að yfirfara þetta frv., og annar þeirra samdi það m. a. s., gætt þess sem kostur er að lagalega séð sé meðferð þessara mála jákvæð f frv. og það verði skilvirkara en verið hefur. A. m. k. er ljóst að lögin frá 1921, sem í gildi eru í dag, eru úrelt. Það er löngu farið að framkvæma þessi mál án tillits til þeirra laga í mörgum tilfellum. Þess vegna er brýn nauðsyn að hér komi ný lög til. Þau hafa að sjálfsögðu þá miklu réttarbót í för með sér að eftirlifandi maki þarf ekki að greiða erfðaskatt og sama gildir um fólk í óvígðri sambúð.