05.04.1984
Sameinað þing: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4511 í B-deild Alþingistíðinda. (3836)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það eru tvö atriði. Hv. þm. Stefán Guðmundsson vék að málflutningi mínum um að brögð væru að því að hent væri afla. Ég gat þess að þær upplýsingar kæmu frá mönnum sem gerst ættu að þekkja hvað væri að ske og ég undirstrika það.

Í öðru lagi vildi ég aðeins leiðrétta eina tölu sem ég fór rangt með í mínu máli. Hún hafði misritast og ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var kominn úr ræðustól. Ég gat þess að um 36 þús. tonnum af loðnu hefði verið landað í Vestmannaeyjum það sem af er vertíðinni. Það eru 91 þús. tonn. Hins vegar er talsverður hluti af þessum afla einmitt frá þeim átta bátum sem stunduðu á s. l. vetri netaveiðar og lönduðu þá 4180 tonnum af fiski, þar af liðlega 2200 tonnum af þorski.