10.04.1984
Sameinað þing: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4584 í B-deild Alþingistíðinda. (3949)

441. mál, minniháttar einkamál fyrir héraðsdómi

Fyrirspyrjandi (Jón Magnússon):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. svör hans og fyrirheit um að einhver gangur fari að koma í málið. Ég vænti þess að frv. þessa efnis verði lagt fyrir næsta Alþingi, helst eigi síðar, og bendi á að sú þáltill. sem ég vitnaði til og var samþykkt á vordögum 1977 felur það í sér að lagt er fyrir ríkisstj. að hún láti nú þegar semja frv. til breytinga á lögum og geri aðrar ráðstafanir til undirbúnings því að þessari lagasetningu um meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómi verði komið á. Síðan eru liðin hvorki meira né minna en átta ár og frá því að fullbúin frumvarpsdrög lágu fyrir, eins og hæstv. ráðh. staðfesti hér áðan, í aprílmánuði 1980 eru liðin rétt fjögur ár. Mér finnst það töluvert mikið athugavert að þegar Alþingi hefur falið framkvæmdavaldinu að gangast fyrir ákveðnum hlutum, þá skuli gangurinn vera með þeim hætti sem hér er lýst.

Hæstv. dómsmrh. benti á það að umrædd frv.-drög hefðu verið lögð fyrir réttarfarsnefnd. Hann benti líka réttilega á þá erfiðleika sem skapast hafa varðandi þennan málaflokk vegna þess að það er aðeins eitt áfrýjunardómstig eða aðeins tvö dómstig í landinu. En ég hygg að þegar hafi verið bent á þann möguleika hvað þetta atriði varðar að sá aðili, sem unir ekki úrslitum varðandi slíka einfaldari meðferð, geti þá áfrýjað málinu til ákveðins dómstigs þar sem t. d. sitji í þrír borgardómarar í Reykjavík eða sem sagt fjölskipaðra dómsvald í héraði. Ég hygg því að í raun ættu tæknileg vandamál ekki að hindra það að lagasetning varðandi meðferð minni háttar mála komi fram og Alþingi afgreiði það mál. En ég tel að hér sé um að ræða stórkostlega mikið hagsmunamál fyrir einstaklinginn, litla manninn í þjóðfélaginu mætti kannske segja sem getur átt í vök að verjast varðandi það að fá úrlausn, varðandi 1000 kr. sínar. (Gripið fram í.) Ég segi þetta vegna þess að í morgun var ég úti í borgardómi Reykjavíkur og þar lá einmitt fyrir mál þar sem um var að ræða endurgreiðslukröfur tryggingarfélags og einn af fáum einstaklingum í þjóðfélaginu leyfði sér að malda í móinn og neitaði endurgreiðslukröfu tryggingarfélagsins að fjárhæð 1000 kr. Ég hygg að einstaklingar geri þetta almennt ekki en þeir geta haft fullan rétt til þess og ef um væri að ræða slíka meðferð mála sem ég er hér að tala um mundu fleiri gera þetta og einstaklingurinn ætti mun auðveldara með að leita réttar síns. Það er mergurinn málsins.