11.04.1984
Efri deild: 80. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4623 í B-deild Alþingistíðinda. (4005)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og sú athugasemd sem ég hef við þetta frv. er sú að hér er einu sinni enn verið að afgreiða mál vegna ákvörðunar ríkisvaldsins um fiskverð. Það er því einu sinni enn bráðabirgðaaðgerð af hálfu ríkisvaldsins til að sætta viðsemjendur sína um fiskverð. Fyrir stuttu síðan kom fram í Morgunblaðinu að saltfiskur er að hækka á mörkuðum Íslands erlendis en sú hækkun skilar sér ekki til sjómanna. Þess vegna er það mjög bagalegt að ríkisvaldið skuli ekki sjá að sér og hætta afskiptum af samningum um verð á fiskafurðum sem er þó hagsmunamál útgerðarmanna og sjómanna fyrst og fremst. Ég hef þó ekki neitt að athuga við það að þetta gjald sé lækkað. Það eru fyrst og fremst þessi afskipti af fiskverðssamningum sem ég geri athugasemd við.