02.11.1983
Neðri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég harma það hvað það eru fáir hér til að hlusta á umr. um þetta mál en mig langar til þess að biðja þm. að íhuga vel erindi þessa frv. og langar að fylgja því úr hlaði með nokkrum athugasemdum.

Hér er um að ræða mannréttindamál sem barist hefur verið fyrir allt frá því að konur fóru að selja vinnu sína. En vitað er að konur eru langstærsti hluti láglaunahópa. Og ég spyr: Hvers vegna? Af þeim athugunum, sem gerðar hafa verið á vinnu kvenna og karla bæði hérlendis og á Norðurlöndum, kemur í ljós að síðan konur fóru að selja vinnu sína hafa þær allar götur frá miðöldum a.m.k. og til dagsins í dag fengið allt að helmingi lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu. Og ég spyr aftur: Hvers vegna? Hverjar eru réttlætingarnar fyrir því og hver er rökfærslan? Og til að undirstrika að þetta er vandamál okkar tíma en ekki aðeins aftan úr forneskju eða miðöldum eins og ætla mætti vil ég geta þess að það var ekki fyrr en árið 1949 að Hannibal Valdimarsson flutti frv. á Alþingi um algert jafnrétti kvenna og karla. Þar er innifalin grein sem ég vitna til, með leyfi forseta:

„Konum skulu greidd sömu laun og körlum við hvers konar embætti, störf og sýslanir, hvort sem er í þjónustu hins opinbera eða í þjónustu atvinnulífsins.“

Árið 1949 var ég 8 ára gömul og ég vissi ekki að konur fengu ekki sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Ég vissi ekki t.d. að dæmi um launamisrétti þá var að karlar fengu 50 kr. fyrir að syngja við jarðarfarir en konur bara 30 kr. Ég vissi ekki heldur að þetta frv. var ekki samþykkt. Það hvarflaði aldrei að mér þá að ég ætti ekki rétt á því að fá sömu laun og bróðir minn fyrir sömu vinnu. Og ég var að lesa umfjöllunina sem þetta frv. fékk á sínum tíma þegar ég var 8 ára gömul og ég dáðist að því hvað mér fannst Hannibal Valdimarsson framúrstefnulegur maður og nútímalegur. Og hann segir í sinni umr. ef ég má vitna til þess, með leyfi forseta:

„En þar sem skórinn kreppir allra mest að, er á hinu fjárhagslega sviði, en á því sviði hafa konur langt frá því jafnrétti við karla. Það kann sumum að finnast, að það sé ekki svo mikið. En það var ekki mikið annað, sem á skorti hjá Íslendingum í viðskiptunum við Dani en að okkur skorti fjárhagslegt sjálfstæði, og er þeir höfðu fengið það, var eins og allt leystist hér úr læðingi. Á sama hátt er ég sannfærður um, að mörg öfl mundu losna úr læðingi hjá konunum, ef þær fengju fullt fjárhagslegt sjálfstæði. Danir áttu erfitt með að skilja, að þetta stæði okkur fyrir þrifum, og nú eru til karlmenn, sem skilja ekki, að þetta er nauðsynlegt fyrir kvenfólkið.“

Þetta var 1949.

En það voru nefnilega karlmenn sem skildu ekki eða þóttust ekki skilja að þetta væri nauðsynlegt fyrir kvenfólkið og þeir samþykktu ekki frv. eða felldu það reyndar vegna þess að það væri svo flókið að samþykkja það. Það væru svo mörg lög sem þyrfti að gá í og laga, það yrði að flytja svo mörg frumvörp til þess að það væri hægt að laga þetta og það væri betra að sefja það í nefnd eða jafnvel senda það til stjórnarinnar. Og þá sagði flm., ef ég má vitna aftur til þess, með leyfi forseta, þegar þessi málalok urðu:

„Ég er þess vegna hræddur um, að þeir, sem leggja til, að þessu máli verði vísað til stj., búi því þar gröf í næstu þrjú eða fjögur ár, þó að þeir telji sig vini málsins. Ég verð að segja það, að hefði málið fjallað um hlutafélög, þá hefði hæstv. þm. Barð. ekki talið það svo óvíst og óljóst, að vísa yrði því til stj. Og mér er nær að halda, að ef það hefði fjallað um skuldir og innheimtu, þá hefði lögfræðingurinn í n., hv. þm. Seyðf. kunnað skil á því, og ef það hefði fjallað um kýr, hefði hv. þm. N-M. talið sig vita það mikið, að hann hefði ekki lagt til, að því væri vísað til stj. En þetta mál, sem fjallar um konur, er svo undarlegt, að jafnvel lögfræðingurinn stendur ráðþrota. Ég held, að þeir viti meira en þeir vilja vera láta, að minnsta kosti lögfræðingurinn.“ Og síðan stendur „... að frv. fer ekki fram á annað en að konur fái jafnan þegnrétt á við karlmenn.“

Síðan er málið fellt. Og fjmrh. Jóhann Jósefsson segir og gerir grein fyrir sínu atkvæði, ef ég má vitna aftur til þessa, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Mér finnst nú, að þótt mörg mál hafi verið kölluð krypplingar, hafi ekkert verið það jafnmikið og þetta. Ég treysti mér ekki til að setja þennan kryppling á og segi því nei.“

(Gripið fram í: Hver var þetta?) Jóhann Jósefsson hét hann.

Mig langaði bara til að lesa þetta vegna þess að þetta er raunverulega sama vandamálið í dag, bara með svolítið öðrum formerkjum. En þetta virkar eitthvað svo forneskjulegt þegar maður les það — þessi viðbrögð.

Árið 1973 þegar ég var orðin 32ja ára gömul þá eru loks samþykkt lög um Jafnlaunaráð þar sem farið er fram á sömu laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf. Þó höfðum við Íslendingar löngu áður gengist undir afþjóðasamþykkt um sama efni. En hvernig er farið að því að meta störf? Hvaða verðmæti eru lögð til grundvallar? Meginstarf kvenna hefur verið við uppeldi og umönnun inni á heimilum sínum. Það starf er ólaunað og ekki metið til starfsreynslu á hinum almenna vinnumarkaði, utan alveg nýlega til tveggja ára starfsreynslu eða þriggja hjá Sókn. En einungis við ræstingar eða störf sem eru beint framhald af heimilisstörfum. Og ég spyr enn: Hvers vegna?

Mig langar að segja ykkur litla sögu um roskna konu sem sótti um vinnu á hóteli við ræstingu og við það að búa um rúm. Hún byrjaði auðvitað á byrjunarlaunum en eftir þrjá mánuði bað hún hikandi og óframfærin um svolitla launahækkun. „Jú,“ svaraði ungi maðurinn sem var verkstjóri hennar, „þegar þú ert búin að fá meiri starfsreynslu.“ — „Já, en ég hef búið um rúm í 30 ár,“ sagði þá konan.

Undir hvaða högg var hún að sækja? Mundi smiður, sem unnið hefði heima hjá sér við smíðar fyrir sig og aðra í 30 ár, sætta sig við byrjunarlaun þegar hann kæmi út á hinn atmenna vinnumarkað?

Og hvert er svo ástandið í dag 34 árum eftir að frv. fyrrv. þm. Hannibals Valdimarssonar var fellt? Og tíu árum eftir að lög um jafnlaunaráð voru samþykkt ? Samkvæmt könnun Jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar 1981 voru konur 72% þeirra sem vinna ófaglærð störf á vinnumarkaði. En karlar eru í þessum lægst launaða hópi þjóðfélagsins aðeins 28%. Hvernig stendur á því að konur eru hér í yfirgnæfandi meirihluta? Hvers vegna lenda konur áfram og ævinlega í láglaunahópum þrátt fyrir endurtekna launasamninga — og ég spyr: Hver gleymir þeim?

Og þetta er ekkert séríslenskt fyrirbæri því að í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 1980 kemur í ljós að konur eru um helmingur jarðarbúa og kemur það engum á óvart. En þær eru 1/3 hluti þeirra sem hafa á höndum launuð störf. Þó þær vinni í raun 2/3 hluta allra vinnustunda, sem unnar eru í heiminum, þá fá þær ekki nema 1/10 hluta af þeim launum sem greidd eru. Og þær eiga minna en 1% af eignum jarðarinnar. Þarna hafa margir gleymst!

Markmið þessa frv. er að fá svör við þessum spurningum. Markmið frv. er einnig að fá fram skilgreiningu á því hvað er láglaunahópur. Þetta er hugtak sem mönnum er mjög tamt og er beinlínis notað sem viðmiðun í stefnumótun í efnahagsmálum. Þetta var svo áberandi í stjórnarmyndunarviðræðunum í vor. Samt virtist enginn vita nákvæmlega hvar slíkur hópur byrjaði og hvar hann endaði. Hvað þetta hugtak felur í sér nákvæmlega. Um hve stóran hóp er að ræða, hvernig hann er samansettur eða hver kjör hans raunverulega eru.

Getur nokkur þm. hér verið á móti því að fá úr því skorið um hvað er verið að tala þegar rætt er um láglaunahóp? Það væri skref í þá átt að bæta kjör hans.